Gildandi lög og starfslýsingar Hestamannafél. SÖRLA eftir breytingar á aðalfundi
29. október 2009.

Lög Hestamannafélagsins SÖRLA

1. gr.

Nafn félagsins er Hestamannafélagið SÖRLI og er heimili þess og varnarþing í Hafnarfirði.

2. gr.

Hlutverk félagsins er:

Að iðka hestaíþróttir og stuðla að réttri og góðri meðferð hesta og efla áhuga og þekkingu á ágæti þeirra.

Að vinna að því að flutt séu á vegum félagsins fræðsluerindi um hestaíþróttir, hrossarækt og önnur málefni á áhugasviði hestamanna.

Að eiga og reka félagsheimili.

Að reiðvegir séu gerðir sem víðast, þannig að önnur umferð verði til sem minnstrar hindrunar og óþæginda og gagnkvæmt. Vegum þessum sé ávallt haldið við eins vel og efni og aðstæður leyfa.

Að bæta aðstöðu félagsmanna til að iðka hestamennsku sem tómstundagaman, keppnis- og sýningaríþrótt með því m.a.: Að koma upp völlum og byggja upp íþróttamannvirki og viðhalda til æfinga, keppni og hestaíþrótta. Að beita sér fyrir útvegun haglendis fyrir hesta félagsmanna. 

3. gr.

Félagar geta allir orðið. Æski einhver að gerast félagi skal hann senda umsókn til félagsins/starfsmanns.

Félagsmenn bera ekki fjárhagslega ábyrgð vegna skuldbindinga félagsins umfram greiðslu árgjalds.

4. gr.

Nýr félagi skal ekki njóta félagsréttinda fyrr en hann hefur greitt árgjald yfirstandandi starfsárs.

Félagsmaður, sem skuldar árgjald eða stendur að öðru leyti í skuld við félagið, má vænta þess að falla af félagatali við lok reikningsárs. 

Félagsmenn, sem eru ekki fullra 18 ára, hafa ekki atkvæðisrétt um sérstökmálefni, svo sem þau sem hafa í för með sér meiriháttar fjárskuldbindingar, samkvæmt úrskurði stjórnar. Þeir hinir sömu hafa ekki heldur kjörgengi og kosningarrétt til ársþings L.H.

5. gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Þó skal aðalfundi gerð grein fyrir rekstri fyrstu átta til níu mánuði ársins, sem er að líða.

Stjórn félagsins ber alla ábyrgð og hefur yfirstjórn á fjárreiðum félagsins og einstakra deilda og nefnda. Deildum og nefndum er óheimilt að stofna til fjárskuldbindinga án samþykkis stjórnar félagsins.

Reikningar félagsins skulu samdir og endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og áritaðir af kjörnum skoðunarmönnum félagsins.

Endurskoðaðir reikningar félagsins skulu liggja frammi til skoðunar eina viku fyrir aðalfund.

Hefja skal innheimtu félagsgjalda í upphafi árs og stefnt að því að henni sé lokið 1. júní.

Þeir félagar, sem náð hafa sjötugsaldri, skulu vera undanþegnir greiðslu árgjalds og félagar yngri en 16 ára greiði eigi meira en hálft gjald.

6. gr.

Aðalfund skal halda í október ár hvert. Til hans skal boðað með minnst tveggja vikna fyrirvara með auglýsingu í fréttabréfi félagsins, tilkynningu á heimasíðu félagsins og auglýsingum á félagssvæðinu. Í fundarboði skal vísað til laga félagsins um dagskrá.

Dagskrá aðalfundar sé:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

2. Fjöldi félagsmanna kunngerður og upplýsingar gefnar um fjölgun þeirra eða fækkun.

3. Formaður leggur fram og skýrir skýrslu stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári.

4. Gjaldkeri leggur fram og skýrir reikninga félagsins.

5Umræður um liði 3 og 4 og atkvæðagreiðsla um reikningana.

6. Formenn nefnda leggi fram og skýri skýrslur um starf viðkomandi nefnda á liðnu ári.

7. Kosning formanns.

8. Kosning sex manna í stjórn.

9. Kosning tveggja endurskoðenda og eins til vara.

10. Kosning í nefndir, deildir og ráð og skal kjósa formenn sérstaklega. Í lávarðadeild er ekki kosið, sbr. 18. gr.

11. Tillaga lögð fram til samþykktar um árgjald næsta árs.

12. Lagabreytingar.

13. Önnur mál sem félagið varðar.

Kosningar skulu vera leynilegar ef minnst þriðjungur atkvæðisbærra fundarmanna óskar þess.

7. gr.

Stjórn ákveður félagsfundi og skulu þeir haldnir svo oft sem þurfa þykir.

Ef minnst 15 félagsmenn æskja þess skriflega og tilgreina fundarefni skal boða til félagsfundar innan 10 daga frá móttöku beiðninnar.

Til félagsfunda skal boða með minnst þriggja daga fyrirvara með auglýsingum á félagssvæðinu ásamt tilkynningu á heimasíðu félagsins.

Stjórn skal kveðja formenn nefnda til sameiginlegra funda eigi sjaldnar en þrisvar á ári; að hausti, vetri og vori.

8. gr.

 

Stjórn félagsins skipa sjö menn: Formaður, gjaldkeri, ritari, varaformaður og þrír meðstjórnendur. Kjörtímabil annara en formans er 2 ár og skal kosið um 3 sæti auk formanns á hverjum aðalfundi. Láti fleiri ern einn af störfum einhverra hluta vegna á kjörtímabilinu skal eins fljótt og auðið er kjósa um nýja menn á félagsfundi til bráðabirgað fram að næsta aðalfundi og skulu Þeir sem þannig eru kosnir inn hafa full réttingi og skildur sem stjórnarmenn. 

Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.

9. gr.

Formaður félagsins kveður til stjórnarfunda og stjórnar þeim.

Formaður er fulltrúi félagsins út á við og hefur ásamt félagsstjórninni yfirumsjón með allri starfsemi þess.

Varaformaður gegnir öllum sömu störfum og formaður í forföllum hans.

10. gr.

Ritari annast allar bréfaskriftir fyrir félagið í samráði við formann.

Hann ritar allar fundargerðir stjórnarfunda og undirritar þær ásamt formanni.

11. gr.

Gjaldkeri sér um innheimtu félagsgjalda og annast allar fjárreiður félagsins.

Hann skal fyrir aðalfund ár hvert gera eða láta gera reikningsyfirlit um hag félagsins og leggja fyrir aðalfund. Endurskoðaður ársreikningur skal lagður fyrir framhaldsaðalfund til úrskurðar.

Ennfremur skal gjaldkeri félagsins skila reikningsyfirliti fyrir þær nefndir, sem hafa með einhverja fjármuni að gera, og skulu viðkomandi nefndir skila honum reikningsyfirlitum eigi síðar en.mánuði fyrir aðalfund.

12. gr.

Stjórn félagsins er heimilt að útnefna heiðursfélaga.

Heiðursfélagar geta þeir einir orðið sem sýnt hafa frábæran áhuga og dugnað í störfum sínum til eflingar félaginu og markmiðum þess.

13. gr.

Með aðild félagsins að Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar (Í.B.H.) er það jafnframt aðili að Landssambandi hestamannafélaga (L.H.). Úrsögn sé ákveðin á aðalfundi á þann hátt, sem fyrir er mælt í 19. gr.

Formaður félagsins skal vera sjálfkjörinn fulltrúi félagsins á ársþingi L.H. Stjórnin velur aðra fulltrúa.

Fulltrúar félagsins á ársþingum L.H. eiga rétta á greiðslu ferða- og dvalarkostnaðar samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.

14. gr.

Keppnisreglur skulu vera samkvæmt samþykktum Landssambands hestamannafélaga.

Stjórn félagsins ákveður um keppnishald og skipar starfsnefndir eftir því sem lög og reglur L.H. mæla fyrir.

15. gr.

Í félaginu skulu vera starfandi eftirtaldar nefndir, deildir og ráð: 1. Móta- og vallanefnd. 2. Ferðanefnd. 3. Fjáröflunar- og skemmtinefnd. 4. Krýsuvíkurnefnd. 5. Kynbótanefnd. 6. Fræðslunefnd. 7. Æskulýðsnefnd. 8. Lávarðadeild. 9. Foreldraráð. 10. Reiðveganefnd. 11. Laganefnd.

Stjórn félagsins getur skipað nefndir til ákveðinna verkefna.

Deildir, ráð og nefndir eru bundnar af lögum félagsins.

Deildir, ráð og nefndir, sem stofnaðar eru á aðalfundi, verða ekki lagðar niður nema samkvæmt ákvörðun aðalfundar.

16. gr.

Stjórn félagsins er óheimilt að selja eignir félagsins, kaupa fasteignir eða hefja byggingu þeirra nema samþykki aðalfundar eða félagsfundar komi til.

Hyggist stjórnin leita samþykkis fundar fyrir slíkri ráðstöfun skal geta þess í fundarboði.

17. gr.

Nefndum, deildum, ráðum og stjórn ber að fara eftir "starfslýsingum", sem samþykktar eru á aðalfundi, um starfshætti, starfssvið og annað sem þar er getið. Með tillögur til breytinga á þeim skal fara sem um tillögur til lagabreytinga.

18. gr.

Lávarðadeild skipa allir fyrrverandi formenn félagsins, enda séu þeir enn félagar. Deildin komi saman minnst einu sinni á ári. Hún skiptir með sér verkum og kýs sér formann og ritara til eins árs í senn. Formaður boðar til funda.

Stjórn félagsins getur leitað til lávarðadeildarinnar með málefni sem hún telur henta, t.d. siðamál, fjár- og eignamál og ágreiningsmál. Einnig getur deildin átt fumkvæði að tillögugerð til stjórnar 

19. gr.

Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi þar sem mættir eru minnst 1/5 hluti lögmætra félagsmanna og 2/3 hlutar greiddra atkvæða samþykki breytinguna.

Mæti of fáir skal boða til fundar á ný og öðlast þá áður fram komin lagabreyting gildi ef hún er samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða án tillits til þess hve margir félagsmanna eru mættir á fundinum.

Tillögur, sem félagsmenn vilja bera fram á lögum félagsins eða reglum þess, skulu berast stjórninni skriflega eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Gefur stjórnin félagsmönnum kost á að athuga slíkar tillögur fyrir aðalfund svo og tillögur sem hún hyggst bera fram til breytinga á lögum og reglum félagsins.

Lög og lagabreytingar hestamannafélagsins SÖRLA í Hafnarfirði öðlast gildi, þegar Íþróttabandalag Hafnarfjarðar hefur staðfest þau, sbr. lög Íþrótta- og Olympíusambands Íslands nr. 22.2.

20. gr.

Ef slíta á félaginu, verður það að gerast á fundi þar sem mættir eru að minnsta kosti 3/4 hlutar félagsmann og verður það því aðeins gert að 2/3 hlutar fundarmanna greiði því atkvæði.

Að öðrum kosti verður að kalla saman fund á ný og verður þá félagið leist upp á löglegan hátt, ef 2/3 fundarmanna greiða því atkvæði án tillits til þess hve margir eru mættir á fundinum. Komi til slita félagsins ber Í.B.H. að taka eignir félagsins til varðveislu.

 

 

 

Starfslýsingar
 

STARFSLÝSING
fyrir
STJÓRN SÖRLA

1.         Stjórn Sörla hefur yfirstjórn á öllum nefndum, deildum og ráðum félagsins svo og rekstri og fjárfestingum þess.

2.         Formaður skal ekki sitja í stjórn nefnda, ráða eða deilda félagsins.

3.         Stjórnin skiptir með sér verkum þegar eftir aðalfund í samræmi við lög félagsins.

4.         Gjaldkeri skal samræma tekjur og gjöld deilda,ráða og nefnda þannig að um hallalausa áætlun verði að ræða. Gjaldkeri skal hafa aðgang að upplýsingum til að geta fylgst með því að tekjur og gjöld séu samkvæmt áætlun. Stjórnin skal samþykkja ofangreindar áætlanir.

5.         Gjaldkeri sér um innheimtu félagsgjalda. Hann hefur sér bankareikning og hefur einn prókúru á honum.

6.         Firmakeppni er á vegum stjórnar.

7.         Stjórnin skal halda fundi með nefndum, ráðum og deildum svo og almenna félagsfundi svo oft sem þurfa þykir. 

8.         Fundargerð skal rituð á hverjum fundi og lesin á næsta fundi. Útdrættir fundargerða skulu birtir á vefsíðu félagsins.


STARFSLÝSING
fyrir
MÓTA- OG VALLANEFND

1.         Móta- og vallanefnd skal vera skipuð sjö mönnum. Hún kýs sér gjaldkera og ritara.

2.         Nefndin skal gera kostnaðar- og tekjuáætlun strax í byrjun starfsárs og skal hún þá þegar borin undir stjórn. Jafnframt skal hún gera mótaskrá, sem þó þarf ekki að vera með dagsetningum. Hún skal vera með stjórní ákvarðanatöku um uppbyggingu og viðhald valla og umgjörð þeirra. Uppbyggingar- og viðhaldskostnaður, samþykktur af stjórn, skal greiddur úr félagssjóði.

3.         Fjárhagslegt uppgjör skal fara fram strax að loknu hverju móti og skila til gjaldkera félagsins. Stuðla skal að tekjuafgangi. Með uppgjöri skal fylgja skráning keppenda. 

4.         Nefndin skal sjá um framkvæmd móta að undanskildum firmakeppnum.

5.         Nefndin skal hvetja félagsmenn til þátttöku á Íslandsmóti fyrir hönd SÖRLA.

6.         Halda ber og varðveita skrár yfir úrslit móta.

7.         Fundargerð skal rituð á hverjum fundi og lesin á næsta fundi. 

STARFSLÝSING
fyrir
FERÐANEFND

1.         Ferðanefnd skal skipuð a.m.k. þremur mönnum og kýs hún sér ritara.

2.         Nefndin skal sjá um öll ferðalög sem farin eru á hestum í nafni félagsins; a.m.k. mánaðarlegar dagsferðir að vetri, vorferð og sumarferð auk grilltúrs.

3.         Ekki er gert ráð fyrir neinni peningaveltu í nafni félagsins. Ferðafólk ásamt nefndinni sér um þá hluti.

4.         Nefndin skal jafnan hafa einhvern fróðleik á takteinum um það svæði þar sem farið er, t.d. varðandi byggingar og náttúru.

5.         Nefndin skal hafa samráð við aðrar nefndir/deildir eftir atvikum.

6.         Fundargerð skal nefndin rita um hvern fund sem síðan skal lesin á næsta fundi. 7.Æskilegt er að saga ferðalaga sé skráð í máli og myndum.


STARFSLÝSING
fyrir
FJÁRÖFLUNAR- OG SKEMMTINEFND

1.         Fjáröflunar- og skemmtinefnd skal skipuð a.m.k. fimm mönnum. Nefndin kýs sér gjaldkera og ritara.

2.         Nefndin skal sjá um allar skemmtanir félagsins svo sem árshátíð, þorrablót og skírdagskaffi. Tilgangurinnsé fjáröflun auk þess að skemmta félagsmönnum og gestum þeirra.

3.         Gera skal upp tekjur og gjöld að lokinni hverri skemmtun. Uppgjör ásamt peningum/skuldum skal afhent gjaldkera félagsins svo fljótt sem auðið er.

4.         Nefndin skal í upphafi starfsárs gera tekju- og kostnaðaráætlun fyrir starfsárið og leggja fyrir stjórn hugmyndir um ráðstöfun tekjuafgangs.

5.         Fundargerð skal rituð á hverjum fundi og lesin á næsta fundi. 

STARFSLÝSING
fyrir
KRÝSUVÍKURNEFND

 

1.         Nefndina skipa fimm aðalmenn.

2.         Nefndin kýs sér ritara og gjaldkera.

3.         Í upphafi starfsárs geri nefndin rekstraráætlun og sendi stjórn félagsins til samþykktar.

4.         Nefndin heldur fundi eins oft og þurfa þykir. Almennan fund skal halda a.m.k. einu sinni á beitartímanum með hesteigendum.

5.         Nefndin sér um útleigu hrossabeitar í Krýsuvík til félagsmanna.

6.         Nefndin sér um viðhald og uppbyggingu mannvirkja í Krýsuvík sem eru á vegum SÖRLA.

7.         Nefndin ákvarðar gjaldtöku fyrir beit, viðhald og uppbyggingu mannvirkja á svæðinu og annast innheimtu þess. Stefnt skal að því að ekki falli kostnaður á félagið.

8.         Nefndin skal hafa skilað reikningshaldi til gjaldkera félagsins einum mánuði fyrir aðalfund.

9.         Fundargerð skal rituð á hverjum fundi og lesin á næsta fundi.

STARFSLÝSING
fyrir
FRÆÐSLUNEFND

 

1.         Fræðslunefnd skal skipuð að minnsta kosti þremur mönnum. Hún kýs sér gjaldkera og ritara.

2.         Nefndin skal halda fræðslufundi reglulega, ekki færri en þrjá á hverju starfsári, um hin ýmsu málefni sem þykja gagnleg/athyglisverð á hverjum tíma.

3.         Æskilegt er að nefndin standi fyrir námskeiðum/erindum og vinni þannig að framgangi hestamennsku.

4.         Í upphafi starfsárs geri nefndin rekstraráætlun og sendi stjórn félagsins til samþykktar og hún skal hafa skilað reikningshaldi til gjaldkera félagsins einum mánuði fyrir aðalfund.

5.         Fundargerð skal rituð á hverjum fundi og lesin á næsta fundi. 

STARFSLÝSING
fyrir
ÆSKULÝÐSNEFND

1.         Æskulýðsnefnd skal skipuð sjö mönnum; þar af þremur fullorðnum og fjórum úr hópi æskunnar.

2.         Nefndin skal kjósa sér gjaldkera úr hópi fullorðinna og ritara.

3.         Nefndinni er ætlað það verkefni að hafa yfirumsjón með öllu barna-, unglinga- og ungmennastarfi. Æskilegt er að skipuleggja það tímanlega, miða ber við hálfan til einn mánuð eftir aðalfund.

            Af einstökum verkefnum skulu þessi talin:

            Sjá um fræðslu í hestamennsku, t.d. með námskeiðum, sem byggð eru upp í lengri tíma fyrir vana og byrjendur, og með fræðslufundum um ýmis málefni tengd hestinum.

            Fara í markvissa útreiðatúra og heimsækja önnur félög.

            Stuðla að því að taka þátt í sameiginlegum mótum og skemmtunum æskulýðsnefnda.

            Ferðalag, dagsferð eða með gistingu.

            Æskulýðsdagur í formi léttrar keppni.

4.         Nefndin skal stefna að því að afla fjár til starfsemi sinnar, t.d. með jólaballi, flugeldasölu og innheimtu félagsgjalda. Að því skal stefnt að þær tekjur, sem nefndin aflar sjálf, skuli vera henni til ráðstöfunar.

5.         Í upphafi starfsárs geri nefndin rekstraráætlun og sendi stjórn félagsins til samþykktar og hún skal hafa skilað reikningshaldi til gjaldkera félagsins einum mánuði fyrir aðalfund. 

6.         Fundargerð skal rituð á hverjum fundi og lesin á næsta fundi. 

STARFSLÝSING
FYRIR
FORELDRARÁÐ

1.         Foreldraráð skal skipað 5 – 7 foreldrum. Ráðið kýs sér ritara.

2.         Ráðið skal leitast við að tryggja tengsl foreldra við starf æskulýðsnefndar og vera henni til aðstoðar og ráðgjafar.

3.         Foreldraráð og æskulýðsnefnd skulu í upphafi starfsárs halda sameiginlegan fund og a.m.k. einn fund þar að auki á hverju starfsári.

4.         Fundargerð skal rituð á hverjum fundi og lesin á næsta fundi. 

STARFSLÝSING
FYRIR
KYNBÓTANEFND

1.         Kynbótanefnd skal skipuð í það minnsta þremur félagsmönnum og skal valinn úr þeim hópi formaður, ritari og gjaldkeri.
2.         Kynbótanefnd hefur það að aðalmarkmiði að styðja og auka áhuga á hrossarækt meðal félagsmanna Sörla.
3.         Nefndin heldur á hverju ári folaldasýningu á Sörlastöðum auk annarra atburða tengdum hrossarækt.

4.         Nefndin sér vefsíðu Sörla, www.sorli.is, fyrir fræðsluefni tengdu hrossarækt.
5.         Nefndin styður stjórn Sörla í því að halda árlega héraðssýningu kynbótahrossa á Sörlastöðum, gera hana glæsilegri og hjálpa til við framkvæmd þeirra eins og kostur er.
6.         Kynbótahross ársins hjá Sörla: Auk farandgrips veittum af Lávarðadeildinni veitir Kynbótanefnd hæst dæmda kynbótahrossi ársins, sem er í eigu Sörlafélaga að 50% hlutdeild eða meira, viðurkenningu. Um er að ræða pláss á Kynbótaskildi Sörla sem gefin var af VÍS Agria Dýravernd. Skjöldurinn skal staðsettur og vera til sýnis á Sörlastöðum hrossaræktendum í Sörla til hvatningar.
7.         Ræktunarmaður ársins hjá Sörla: Auk farandgrips gefnum af Hraunhamri fasteignasölu gefur Kynbótanefndin þeim Sörlafélaga sem er ræktandi (að helmingi eða meira) að hæst dæmda hrossinu það árið verðlaunagrip til eignar.
8.         Fundargerð skal rituð á hverjum fundi og lesin á næsta fundi.


Starfslýsing þessi var uppfærð 30. október 2009.

STARFSLÝSING
FYRIR
REIÐVEGANEFND

1.         Reiðveganefnd skal skipuð þremur félagsmönnum. Hún kýs sér ritara.

2.         Markmið nefndarinnar skal vera að sjá um að félagsmönnum verði séð fyrir reiðgötum á félagssvæðinu ásamt reiðvegatengingum við nærliggjandi hestamannafélög. Einnig að viðhaldi þeirra sé sinnt.

3.         Nefndin skal fylgjast vel með mannvirkjagerð, þ.e. húsbyggingum og vegagerð, á félagssvæðinu og hafa í því efni gott samstarf við bæjaryfirvöld.

4.         Nefndin skal sækja um reiðvegafé til viðeigandi aðila.

5.         Nefndin skal gæta þess að reiðvegir verði ekki aflagðir án þess að aðrir, og þá ekki síðri, komi í staðinn.

6.         Nefndin skal sjá um að Skógargatan og Hraunstígurinn séu grjóttínd.

7.         Nefndin skal fylgjast með reiðvegagerð utan Hafnarfjarðarsvæðisins.

8.         Nefndin skal sjá um að gerð reiðvega sé í samræmi við reglur L.H.

9.         Nefndin skal kosta kapps um að gömlum reiðleiðum í umdæmi Hafnarfjarðar sé við haldið. 10.     Fundargerð skal rituð á hverjum fundi og lesin á næsta fundi.

STARFASLÝSING
FYRIR
LAGANEFND

1.         Laganefnd skal skipuð þremur mönnum.

2.         Hlutverk nefndarinnar er að kosta kapps um að lög félagsins og starfslýsingar séu sem vönduðust og þjóni sem best markmiðum félagsins á hverjum tíma. Nefndin getur átt frumkvæði að lagabreytingum og sé þess óskað ber henni að veita stjórn og félagsmönnum aðstoð við gerð tillagna um lagabreytingar.


 

mánudaginn, 21. apríl 2014 - 23:31