Bleiksteinshálsreiðvegur er loksins orðin að veruleika.
Þetta er reiðleið sem liggur um samnefndan háls, vestan við Hvaleyrarvatn. Reiðvegurinn liggur frá Kaldárselsvegi, á milli Hlíðarþúfna og Sörlaskeiðs og að Hvaleyrarvatnsvegi við suðurenda Hvaleyrarvatns.

Þessi reiðleið var hönnuð og sett á skipulag þegar að skipulag upplands Hafnarfjarðar var gert fyrir nokkrum árum síðan.  Haraldur Guðfinnsson þáverandi formaður reiðveganefndar Sörla var okkar maður í að hanna þessa leið.

Ein af ástæðum þess að þessi reiðvegur var lagður þarna er vegna þess að akvegurinn með fram Hvaleyrarvatni, sem reiðmenn nýttu gjarnan er orðinn mjög hættulegur m.a. vegna þess hversu þröngur hann er, blindir staðir og mikil umferð er á honum.

Með tilkomu reiðvegarins yfir Bleiksteinsháls mun væntanlega verða bannað að ríða Hvaleyrarvatnsveginn eins og hingað til hefur verið leyft.

Lagning þessa reiðvegar hefur tekið lengri tíma en til stóð bæði vegna hversu jarðvegurinn var erfiður viðureignar og erfitt að byggja undir reiðveginn en einnig vegna hversu brattur Bleiksteinsháls.  Vegna þessa hefur kostnaður við veginn verið mun meiri en reiknað var með. Fjármagn fékkst frá Vegagerðinni og frá Hafnarfjarðarbæ. En þeir síðarnefndu létu okkur fá 7 milljónir á síðasta ári sem gerði okkur fært á klára lagningu vegarins.

Þessi reiðleið er um það bil 1,5 km. að lengd og er hæsta reiðleið í upplandi Hafnarfjarðar með einstöku útsýni.  Má þar sjá allan fjallahringinn, allt frá Hengli að Keili þegar gott veður er.

Þessi reiðleið býður uppá öðruvísi hestaþjálfun þar sem að mikið er um brekkur og aflíðandi kafla og er þess vegna góð viðbót í reiðvegaflóru hestamannafélagsins Sörla.

Er það von okkar í reiðveganefndinni að hestamenn kunni að meta þennan reiðveg og það sem að hann hefur uppá að bjóða  og að allir njóti þess að ríða eftir honum.

 

Með kveðju

Reiðveganefnd Sörla

 
Birtingardagsetning: 
þriðjudaginn, 25. september 2018 - 20:58
Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll
Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll
Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll