Oft þegar á móti blæs kveikna góðar hugmyndir. Eftir frekar furðulegan vetur, vetur óveðurs og heimsfaraldar sem hvort tveggja setti mark sitt á starf æskulýðsnefndar og á endanum alveg úr skorðum, kviknaði hugmynd að nýjung. Nefndarfélögum kom það snjallræði í hug að standa fyrir fjölskyldu útilegu í nafni félagsins sem ætluð væri allri fjölskyldunni, hestlausan viðburð þar sem þeir fjölskyldumeðlimir sem ekki hafa hestavírusinn gætu notið sín ásamt fjölskyldu sinni í félagsskap annara fjölskyldna sem ættu það allar sameiginlegt að a.m.k. einn í fjölskyldunni væri með hestavírus af „mis alvarlegu stigi“. Einnig sáum við þetta sem góðan grundvöll fyrir krakkana til að kynnast og efla vináttu við aðra krakka sem hugsanlega hefðu sama áhugamál
 
Því varð úr að hluti nefndarmann, sem heiman gengt átti, stóð að útilegunni og skoðuðum við hvar væri að finna ákjósanlegan stað til að halda slíkan viðburð. Í ljósi reynslu okkar af íslensku veðri síðastliðinn vetur settum við sem skilyrði aðgang að góðum sal þar sem hópurinn gæti snætt saman og krakkarnir gætu leikið sér ef veður leyfði ekki útileiki. Því varð úr að Þykkvabær varð fyrir valinu, þar er að finna hæfilega stórt tjaldstæði og íþróttahús með bæði fullbúnu eldhúsi til matargerðar og íþróttasal með öllum hugsanlegum útbúnaði fyrir leiki.
 
Að skella í nýjung og jafnt viðamikinn viðburð og heila útileguhelgi fyrir fjölskyldur félagsmanna má líkja við að ríða yfir vað sem maður hefur ekki farið yfir áður; maður sér hversu breitt það er en hversu djúpt það reynist veit maður ekki fyrr en maður er komin yfir vaðið. Að fara af stað með viðburð sem þennan vissum við sem að honum stóðum að gæti hugsanlega verið líkt og lygn og straumlétt á eða karga sundreið í miklum straumþunga. En „vaðið“ reyndist hið ljúfasta og besta vað.
 
Við sem að útilegunni stóðum erum afar sáttar við helgina og sammála um að vel tókst til, þátttaka góð miðað við frumraun og svo til skamman fyrirvara. Það voru tæplega 30 manns sem skemmtu sér saman í fjölskyldu útilegu Sörla 2020. Skellti hópurinn sér í Hellaferð hjá Caves of Hella, farið var alls konar leik s.s. körfubolta, kubbs og í fótbolta með stórum blöðrubolta. Snæddur var sameiginlegur kvöldverður á laugardagskvöldinu þar sem boðið var upp á lambalæri frá Kjarnafæði og meðlæti auk þess sem foreldrar funduðu meðan krakka skarinn lék sér saman. Fórum við yfir drög að dagskrá nefndarinnar á komandi starfári og fengum uppástungur og ábendingar frá foreldrum, þar sem nefndin stefnir á að hefjast starfið strax aftur í september.
 
Það voru allir sem á viðburðinn mættu sammála um að vel hefði tekist til og að aðstaðan hafi verið frábær og ætla allir að mæta kátir aftur, líkt og hinir Hafnfirsku bræður Frikki Dór og Jón Jónsson í þjóðhátíðarlagi sínu „á sama tíma, á sama stað“ 2021. Með tilhlökkun í hjarta fer æskulýðsnefndin nú í stutt sumarfrí en byrjar starf sitt nú fyrr en vant er og mætir aftur til starfa galvösk og bjartsýn fyrir komandi tímum í september.
 
Fyrir hönd æskulýðsnefndar og full þakklætis fyrir liðið starfsár með tilhlökkun fyrir komandi vetri,
Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir,
formaður æskulýðsnefndar Sörla.
 
 
 
 
Birtingardagsetning: 
þriðjudaginn, 21. júlí 2020 - 10:26
Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll