Framhaldsaðalfundur. Haldinn á Sörlastöðum þriðjudaginn 15. mars 2016 kl. 20:00

 

  1. Setning fundar.

Páll Ólafsson, formaður félagsins, setti fundinn og skýrði út að framhaldsaðalfundur er haldinn fyrst og fremst til að samþykkja reikninga félagsins fyrir liðið ár en aðalfundur er skv. lögum félagsins haldinn að hausti.  Fundur þessi er haldinn í framhaldi af aðalfundi þann 22. október 2015.

Formaður beindi stjórn fundar til fundarstjóra aðalfundar s.l. haust, Darra Gunnarssonar.  Fundarritari októberfundarins sem og þessa framhaldsaðalfundar er Ásgeir Margeirsson.

Dagskrá fundarins:

  • Reikningar félagsins fyrir árið 2015.
  • Önnur mál.

Í upphafi fundar voru 13-14 félagsmenn á fundinum.

 

  1. Reikningar félagsins fyrir árið 2015.

Arnór Hlynsson, gjaldkeri stjórnar, kynnti reikningana.  Tekjur félagsins eru 39.993 þ.kr, samanborið við 46.032 þ.kr. árið 2014.  Lækkun tekna skýrist fyrst og fremst af tekjum afmælisnefndar 2014 og breyttra greiðslna frá Hafnarfjarðarbæ milli ára.  Rekstargjöld eru 39.068 þ.kr. samanborið við 42.709 árið 2014.   Gjöld umfram tekjur eru 3.921 þ.kr. samanborið við 3.430 þ.kr. rekstrarafgang árið 2014.  Lakari afkoma skýrist fyrst og fremst af ofangreindum tekjuliðum auk verulegs kostnaðar við lagfæringu valla, nýs gólfs í reiðhöll og viðgerða og endurbóta á dráttarvél félagsins, en fjárfest var í nýrri snjótönn á árinu.  Lagfæringar á völlum og reiðhallargólfi voru þarfar eftir lítið viðhald og endurbætur á undanförnum árum.

Fjárhagur félagsins er mjög traustur.  Veltufjárhlutfall er 11, sem er mjög hátt.  Eigið fé félagsins 59.302 þ.kr. og skuldir eru 1.388 þ.kr.

Eftir kynningu og umræður voru reikningarnir samþykktir samhljóða.

  1. Önnur mál.

Gæðingaveisla 2015:

Eggert Hjartason kvaddi sér hljóðs og ræddi málefni Gæðingaveislu Sörla og Mána er haldin var síðsumars 2015.  Í framhaldi af mótinu hafa verið miklar umræður og kæra lögð fram til aganefndar LH.  Eggert taldi málinu ekki lokið og lagði fram eftirfarandi tillögu:

Stjórn Sörla sendi stjórn LH bréf um að upplýsa stjórn Sörla um raunverulega stöðu agamáls 2, 2015 og hvernig stjórn Sörla beri að klára málið varðandi úrslit mótsins.

Miklar umræður urðu um málið og greinilega að fundarmenn voru ekki allir á sama máli.  Páll Ólafsson formaður, auk annarra stjórnarmanna tjáðu sig um málið og upplýstu að stjórn hefði rætt málið og teldi sig ekki hafa nein ráð um að bregðast frekar við, málið væri ekki á forræði stjórnar Sörla.

Jón Björn Hjálmarsson lagði fram svohljóðandi bréf:

Gæðingaveisla aldarinnar 28. – 29. ágúst 2015.  Það er eðlilegra að kalla þetta mót skandal aldarinnar.  Því miður fyrir alla Sörlafélaga verður mót þetta okkur til vanvirðu og skammar um ókomin ár.  Reglur Landsambands hestamanna (innskot fundarritara:  Landssambands hestamannafélaga) voru brotnar svo oft og illa, að mót þetta verður hægt að nota í sögubækur um hvernig ekki á að standa að mótahaldi.  Því miður virðist stjórn Sörla ætla að sópa þessu máli undir teppið og láta þá aðila sem hafa flekkað orðstír annarra Sörlafélaga halda sínum sessi í stjórn og nefndum.  Það er ekki eðlilegt að formaðurinn okkar taki hagsmuni vinar síns fram fyrir allra annarra félagsmanna.  Þetta er engan veginn eðlilegt og það verður aldrei sátt í félaginu fyrr en þetta er lagað á viðunandi hátt.  

Vilhjálmur Karl kvað sér hljóðs og lýsti sig ósáttan með hvernig vegið er að Sigurði Ævarssyni í málinu.

Gunnar Hallgrímsson taldi að Gæðingaveislunefnd eigi að svara fyrir málið, ekki stjórn Sörla. Guðni Kjartansson tók undir það.  Mótið var haldið af Gæðingaveislunefnd, sem skipuð var félögum úr Sörla og Mána.

Þórunn Ansnes, framkvæmdastjóri, upplýsti að uppgjör hafi verið lagt fram yfir mótið og að 110 þ.kr. afgangi mótsins hafi verið skipt jafnt á milli Sörla og Mána.  Hlutdeild Sörla í rekstrarafgangi mótsins var færð undir liðinn Aðrar tekjur, þar sem mótið var ekki haldið af mótanefnd Sörla.

Gunnar lagði fram tillaga um frávísun tillögu Eggerts.  Frávísunartillagan var borin undir atkvæði.  6 fundarmenn greiddu henni atkvæði sitt og 6 á móti.  Frávísunartillagan féll á jöfnum atkvæðum. 

Eftir frekari umræður var tillaga Eggerts borin undir atkvæði.  Fundarmönnum hafði þá fjölgað nokkuð.  6 greiddu atkvæði með tillögunni og 11 greiddu atkvæði gegn henni.  Tillagan var því felld.

Í framhaldi atkvæðagreiðslu var enn frekari umræða um málið.  Guðni lýsti undrun sinni á af hverju Sörli vill ekki loka málinu.  Formaður ítrekar að stjórn Sörla hefur ekkert frekar með málið að gera, málið sé afgreitt af LH.

Sigurður Ævarsson tjáði sína skoðun á málinu, að hann hafi fengið áminningu og að málinu sé lokið.  Hann skilji ekki hvers vegna örfáir félagsmenn fari hér með persónulega aðför gegn sér.  Hann upplýsti að frá miklum þorra félagsmanna og annarra utan félagsins finni hann fyrir miklum stuðningi, sem gerir það að verkum að hann leggur sig áfram fram um að vinna að góðum verkum fyrir félagið.  Nokkrir fundarmenn tóku undir þessi orð og lýstu undrun sinni á umræðunni.

Þórunn upplýsti ennfremur að Máni annaðist fjármál mótsins og ítrekaði upplýsingar um uppgjör mótsins, sem kynnt hefur verið í stjórn Sörla.

Hafdís Arna Sigurðardóttir kvaddi sér hljóðs og tjáði sína skoðun á málinu.  Hún undraðist að þetta mál skyldi vera til umræðu, þar sem málið væri í farvegi hjá LH en ekki hjá Sörla.

Rætt var um upplýsingagjöf frá stjórn til félagsmanna og telja sumir fundarmanna að allt sem rætt er á stjórnarfundum eigi að vera félagsmönnum opinbert.  Ásgeir Margeirsson, ritari stjórnar, og sem ritari fundarins með leyfi fundarins, lýsir sig ósammála þessari skoðun.  Stjórnarmen séu kjörnir af félaginu til stjórnarsetu og það þjóni alls ekki hagsmunum félagsins að allt sem fram fer á stjórnarfundum sé birt jafn óðum.  Hann lýsir sig jafnframt viljugan til að hætta störfum fyrir félagið séu félagsmenn ekki sammála því.  Fundarstjóri bendir á að stjórnarmenn séu kosnir til trúnaðarstarfa fyrir félagið og að um stjórnarstörf þurfi í mörgum málum að gæta trúnaðar.

Ásvallabraut:

Gunnar Hallgrímsson kvað sér hljóðs til að ræða hugmyndir um breytta legu Ásvallabrautar, þannig að hún verði lögð sunnan og austan við Hlíðarþúfur.  Eftir nokkrar umræður var lögð fram svohljóðandi tillaga:

Framhaldsaðalfundur Sörla haldinn 15. mars 2016 hvetur stjórn Sörla til að fylgjast vel með framvindu mála og áformum um legu Ásvallabrautar og gæta hagsmuna Sörlafélaga í málinu í samráði við Félag hesthúseigenda í Hlíðarþúfum.  Ennfremur að óska eftir upplýsingum um framvindu málsins frá Hafnarfjarðarbæ og að stjórn upplýsi félagsmenn um framvindu málsins.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

Formaður kvað sér hljóðs.  Hann þakkar mætingu á fundinn og fjallaði um gott og öflugt starf og jákvæða öldu í Sörla.  Hann hvatti félagsmenn til að vinna með jákvæðum hætti að málefnum félagsins. 

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 21:25.

Darri Gunnarsson, fundarstjóri

Ásgeir Margeirsson, fundarritari

Birtingardagsetning: 
þriðjudaginn, 22. mars 2016 - 10:49
Viðburðardagsetning: 
þriðjudaginn, 15. mars 2016 - 20:00