Hlutverk Krýsuvíkurnefndar er að sjá um aðstöðu félagsins í Krýsuvík, þar hefur félagið til umráða beitiland sem Hafnarfjarðarbær á en við höfum afnot af, þar geta Sörlafélagar sótt um hagabeit fyrir hross sín frá 15. júní  - 15. desember, það er takmarkaður hrossafjöldi leyfður, fer allt eftir árferði og hvernig haginn kemur undan vetri.

Áður en haginn opnar þá þarf nefndin að vera búin að ákveða hvert beitargjaldið er, það þarf að vera búið að bera á í tíma og að yfirfara allar girðingar og laga ef þess þarf.

Undanfarin  ár hefur aðstaðan í Krýsuvík batnað til muna, það er komið fínt gerði til að smala stóðinu í og einnig er búið að hólfa svæðið niður þannig að hægt er að vera með stýringu á beitinni, svæðið nýtist því betur og auðveldara er að nálgast reiðhesta sem eru í brúkun yfir sumartímann, hross sem ekki eru í brúkun eru höfð sér.

HAGABEITARGJALD

Hagabeitargjaldið er 2.500 kr. fyrir hvert hross á mánuði. Greiða þarf fyrir fyrstu 3 mánuði tímabilsins fyrirfram áður en hrossin koma í Krýsuvík. Seinni hlutann þarf svo að greiða um 15.september. Aðeins skuldlausir félagsmenn í Sörla geta sent hross sín hagann í Krýsuvík.

HAGABEITARSKILMÁLAR

Eftirfarandi skilmála þarf að samþykkja áður en hross fara í haga:

 • Hestamannafélagið Sörli áskilur sér allan rétt til að breyta tímabili hagabeitarinnar vegna ófyrirsjáanlegra orsaka svo sem veðurfars eða beitarþols svæðisins.
 • Hestamannafélagið Sörli ber ekki ábyrgð að neinu leiti á hrossum sem eru í hagabeit í Krýsuvík.
 • Af gefnu tilefni. Hagabeitendur greiða fyrir þann tíma sem beðið er um fyrir hrossin þó svo þau fari fyrr úr haga.

HAGABEITARTÍMABILIÐ

Hagabeitartímabilið er venjulega frá 15.júní til 15.desember. Allt er þetta undir þeim anmarka að hagi og tíðarfar leyfi.

SKRÁNING

Þeim sem vilja skrá hross í beit í Krýsuvík verða að vera félagsmenn í Hestamannafélaginu Sörla.

Best er að senda tölupóst á netfangið krysuvikurnefnd@sorli.is einnig er hægt að hringja í Ólaf í síma 863 6208.

Eftirfarandi upplýsingar þurfa að vera til taks:

 • Nafn eiganda / Ábyrgðarmanns hrossa
 • Kennitala hans
 • Símanúmer sem virkar
 • Nafn hests
 • Litur hests
 • Örmerkinganúmer/Frostmerking
 • Lýsing ef eitthvað sérstakt
 • Tímabil sem óskað er eftir fyrir hest t.d. 15.júní til 15.október
 • Ganga þarf síðan þannig frá hrossum að í þau sé rakaður bókstafurinn S (fyrir Sörli). Einng er hagabeitendum gert að setja límbönd í fax hesta sinn svo þau þekkist betur.

SMALANIR

 • Þegar hrossin koma fyrst í Krýsuvík eru þau öll í sama hólfinu fyrst um sinn, síðan er stóðinu skipt upp í reiðhesta og stóð.
 • Stóðinu er aldrei smalað um helgar í svokallaða Hvamma þar sem hnakkageymslurnar og sveltigerðið er (sjá kort) en reiðhestunum er oft smalað þangað um helgar og þá af þeim sem eru að ríða út.
 • Síðastliðin ár hefur viðvera nefndarmanna alltaf verið að minnka í Krýsuvík og hrossunum því minna smalað. Því höfum við prufað að vera með spjallgrúbbu á messenger með þeim sem eru að ríða þar út og hefur það reynst vel, við berum saman bækur okkar varðandi smalanir á reiðhestunum, hvenær á að smala og hvenær hrossunum verður svo aftur sleppt.
 • Öllum hrossunum er í raun bara smalað tvisvar sinnum saman, fyrst þegar við skiptum þeim í reiðhesta og stóð og svo aftur um haustið þegar allir klára að rífa undan og gefa hrossunum sínum inn ormalyf sem er mjög nauðsynlegt að allir geri.
 • Ef hagabeitendur þurfa sjálfir að nálgast hross sín þá er yfirleitt hægt að smala hrossunum í aðhaldsgerðið við þjóðveginn – svokallað Gunnólagerði, fer samt dálítið eftir því hvar stóðið er.

Netfang nefndarinnar: krysuvikurnefnd@sorli.is

Krýsuvíkurnefnd, starfsárið 2018-2019

 • Guðmundur Smári Guðmundsson, formaður  GSM, 861 1039
 • Pétur Ingi Pétursson, GSM 867 3745
 • Gunnar Örn Ólafsson
 • Gunnar Þór Karlsson
 • Ólafur Þ. Kristjánsson

Starfslýsing fyrir Krýsuvíkurnefnd samþykkt 2009.

 1. Nefndina skipa a.m.k. fimm aðalmenn.
 2. Nefndin kýs sér ritara og gjaldkera.
 3. Í upphafi starfsárs geri nefndin rekstraráætlun og sendi stjórn félagsins til samþykktar.
 4. Nefndin heldur fundi eins oft og þurfa þykir.
 5. Nefndin sér um útleigu hrossabeitar í Krýsuvík til félagsmanna.
 6. Nefndin sér um viðhald og uppbyggingu mannvirkja í Krýsuvík sem eru á vegum SÖRLA.
 7. Nefndin ákvarðar gjaldtöku fyrir beit, viðhald og uppbyggingu mannvirkja á svæðinu og annast innheimtu þess. Stefnt skal að því að ekki falli kostnaður á félagið.
 8. Nefndin skal hafa skilað reikningshaldi til gjaldkera félagsins einum mánuði fyrir aðalfund.
 9. Fundargerð skal rituð á hverjum fundi og lesin á næsta fundi.

 

 

Merking: