Birtingardagsetning: 
sunnudaginn, 26. janúar 2020 - 9:04

Þátttaka barna og unglinga í félagshesthúsinu er farin að skila okkur þeim árangri sem að við vildum sjá. Við erum farin að sjá markmið okkar vera að takast þar sem að sum hver sem hafa hafið hestamennsku sína í félagshúsinu eru farin að færa sig út í hesthúsin í hverfinu, ýmist með eigin hesta eða í félagsskap með öðrum. Við sjáum einnig að krakkarnir hafa náð að tengjast og sum hafa myndað sterk vináttubönd í sameiginlegu áhugamáli. Við erum, að vonum, mjög ánægð. Umsjónarmenn félagshússins og aðrir sjálfboðaliðar, sem hafa aðstoðað okkur með að láta þetta ganga svona vel, eiga svo sannarlega hrós og kærar þakkir skilið.

Nú er svo komið að það eru örfá laus pláss og því auglýsum við á nýjan leik eftir áhugasömum þátttakendum sem langar að kynnast hestamennsku í skemmtilegum félagsskap manna og dýra.

Þátttaka í félagshesthúsinu felur í sér mætingu í tíma tvisvar í viku þar sem leiðbeinendur aðstoða börnin við að hirða og hugsa um hrossin og fara svo með þeim á bak. Hestarnir og allur útbúnaður er útvegaður, að undanskildum hjálmi og bakbrynju. Að auki verða opnir tímar um helgar þar sem krakkarnir geta mætt aukalega og sinnt hestunum.

Fyrir þau börn sem eru orðin sjálfstæð í sinni hestamennsku og eiga sín eigin hross býðst að leigja stíu í félagshesthúsinu. Leiðbeinendur munu aðstoða þau við að fylgjast með almennri heilsu hestanna og vera þeim innan handar en að öðru leyti er gert ráð fyrir að þau séu fær um að ríða út sjálf og sinna hestamennskunni sjálfstætt.

Starfið fer fram í mjög góðu 21 hesta húsi við Sörlaskeið þar sem öll aðstaða, bæði fyrir fólk og hesta, er til fyrirmyndar. Í húsinu er rúmgóð kaffistofa, hnakkageymsla og fatahengi og góð gerði, þar á meðal eitt stórt reiðgerði fyrir aftan húsið sem er í góðu skjóli fyrir veðri og vindum og öðru áreiti. Að auki eru allar stíur hússins eins hests þannig að vel fer um alla hestana. Stefnt er að því að hafa reglulega skemmtilegar samverustundur fyrir allan hópinn, til dæmis hópferðir á keppnir eða sýningar, auk þess sem mikið og gott samstarf verður við æskulýðsnefnd Sörla. Það markmið verður í hávegum haft að börnin kynnist öðrum börnum innan Sörla og taki virkan þátt í félagslífi á vegum æskulýðsnefndar og öðrum viðburðum á vegum félagsins. Þannig eflist tengslanet barnanna og þau kynnast fleiri börnum sem deila sama áhugamáli og eignast þannig mikilvægan samastað innan félagsins.

Fyrir frekari upplýsingar sendið fyrirspurnir á felagshus@sorli.is

Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll