Birtingardagsetning: 
mánudaginn, 23. mars 2020 - 15:32
Frá: 

 

Það voru hinir bestu tímar - það voru hinir verstu tímar.

Það átti sennilega enginn von á því að veira sem kæmi frá Asíu, sennilega upprunnin í snák sem étinn var af leðurblöku sem síðan var borðuð af manni, ætti eftir að setja heiminn á annan endann. Þannig er það nú samt. (Ekki vísindalega sannað samt)

Við í stjórn Hestamannafélagsins Sörla höfum smátt og smátt horft á allt það starf og skipulag sem undirbúið var fyrir veturinn dragast saman og nánast hverfa. Það sem skiptir hins vegar máli er að fólk haldist heilbrigt, við verðum ekki til þess að stuðla að framgangi þessa veiruófétis, heldur séum liðsmenn í baráttunni gegn henni.

Félagsstarf barna og unglinga

Samkvæmt tilmælum yfirvalda og eftir umræður í stjórn þá er öllu starfi í félagshesthúsi, reiðmennskuæfingum, knapamerkjum og öðru starfi Æskulýðsnefndar frestað um óákveðinn tíma.

Námskeiðahald

Námskeiðahald fullorðinna þar sem ekki eru fleiri nemendur á staðnum en tveir getur haldið áfram. Þó þannig að ef tímar skarast þarf að passa að fólk sé ekki að hittast í anddyri reiðhallarinnar. Því gætu tímar hnikast aðeins til. Í anddyri reiðhallarinnar má enginn stoppa og bíða eftir því að þeir sem eru inni klári.

Reiðhöllin

Enn um sinn verður reiðhöllin opin. Þar geta einungis 5 verið inni í einu og passa þarf vel upp á bil milli knapa. Ekki er leyfilegt að stoppa og spjalla inni í reiðhöll. Ekki má bíða inni í anddyri. Fólk er beðið að bíða utandyra. Fara og telja inni og fara síðan út á meðan beðið er. Þeir sem eru í sóttkví, það er ekki ætlast til þess að þeir komi í reiðhöllina.

Sörlastaðir og heimsóknir á skrifstofu framkvæmdastjóra.

Kaffisölu á Sörlastöðum verður frestað þar til aðstæður skýrast. Sörlafélagar eru beðnir um að nota tölvupóst eða síma eða önnur fjarskiptaforrit til að ná tali af framkvæmdastjóra. Ekki er æskilegt að komið sé í heimsókn. Í undantekningartilvikum þarf þá að halda lágmarksfjarlægð sem eru tveir metrar.

Kaffistofur hestamanna

Það er skrítið að skrifa þennan texta og óska eftir því að Sörlamenn takmarki heimsóknir til hvors annars á kaffistofur á hesthúsasvæðinu. En þannig er nú samt staðan að það er ekki æskilegt að fara á milli húsa í heimsóknir. Best er að halda sig við sitt hús eða sína nánustu félaga og ekki fara á milli. Það þarf ekki nema að eitt smit komist inn í þetta litla samfélag til þess að fjöldi aðila þurfi að fara í sóttkví. Því er mikilvægt að láta sér duga að kasta kveðju á fólk milli gerða, heilsast á reiðveginum eða bara hringjast á.

 

Það er þó farið að glitta í vorið. Afar snjóþungum vetri og erfiðum fer brátt að ljúka og þessi veiru andsk… verður bráðum kveðinn í kútinn, það vitum við. En þangað til verðum við að fara varlega og taka enga áhættu. Þetta eru fáeinar vikur sem brátt verða minning sem við segjum frá og skálum yfir sigri. En fram að því eru hestamenn heppnir að geta farið upp í hesthúsin og slappað af með hestunum sínum. Farið á hestbak og látið fákinn hjálpa sér við að gleyma um stund, minna á hestaferðirnar, endalausu björtu næturnar og tímana þegar maður getur aftur knúsað næsta hestavin.

Baráttukveðjur,
Atli Már

Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll