Birtingardagsetning: 
miðvikudaginn, 22. janúar 2020 - 14:18

Skráningar eru hafnar á vikulegar æfingar fyrir börn, unglinga og ungmenni með eigin hesta.

Okkur er ánægja að tilkynna að Hestamannafélagið Sörli, í samvinnu við reiðkennara í Sörla hafa ákveðið að fara af stað með vikulegar æfingar fyrir börn, unglinga og ungmenni með eigin hesta.

Eins og augýst var í síðustu viku þá hefst í dag skráning í fyrri lotu á vikulegar æfingar hjá Hestamannafélaginu Sörla.

Vorönninni verður skipt upp í tvær lotur og hefst fyrri lotan með fyrirlestri og kynningum sunnudaginn 2. febrúar n.k. Verkefnið er tilraunaverkefni  nú á vorönn 2020 og mun það verða endurskoðað bæði á tímabilinu og fyrir næstu haustönn með tilliti til fyrri reynslu. Áætlað er að hefja starfið aftur strax á haustdögum 2020. Markmiðið er að efla liðsheild, æfa reiðmennsku, auka keppnisáhuga og hafa gaman saman.

Vorönninni 2020 verður skipt upp í tvær lotur.

Í fyrri lotu verður unga fólkinu okkar skipt upp í flokka á sama hátt og í keppnisgreinum þ.e.a.s. 10 til 13 ára á árinu, 14 til 17 ára á árinu og 18 til 21 árs á árinu. Æft verður undir leiðsögn reiðkennara. Aðra vikuna verða æfingar á fimmtudegi og hina vikuna á sunnudagsmorgni. Áætlað er að byrja með 18 þátttakendur í fyrri lotunni og við byrjum reiðtímana með þremur þátttakendum saman  í 30 mínútna tímum. Önnur kennsla verður t.d. í formi fyrirlestra og svo á einnig að hafa tíma sem miða að fjölbreytilegu hópefli. Reiðkennarar skipta með sér vikum í fyrri lotu.

Í seinni lotu, sem hefst strax eftir að fyrri lotu lýkur, opnast fleiri möguleikar. Annars vegar verður hægt að fara í áframhaldandi almenna reiðmennsku, bæði úti og inni, eða á æfingar sem miða að keppni. Þá verður hópunum skipt upp eftir áhugasviði og mun einn reiðkennari fylgja hverjum hóp. Þó er það þannig að foreldrar munu alltaf þurfa að fylgja börnum sínum í keppnina sjálfa. Hugað verður að hópefli á þessum tíma sem og að unga fólkinu okkar verða kenndar reglur um keppni og útbúnað. Seinni hópur mun einnig koma að atriði á árlega viðburðinum ,,Æskan og hesturinn“.

 

Dagsetningar fyrri lotu:

2. febrúar – fyrirlestur og kynning

6. febrúar – reiðkennsla hjá Hinriki Sigurðssyni

16. febrúar – reiðkennsla hjá Ástu Köru Sveinsdóttur

20. febrúar – reiðkennsla hjá Atla Guðmundssyni

1. mars – reiðkennsla hjá Friðdóru Friðriksdóttur

5. mars – reiðkennsla hjá  Sindra Sigurðssyni

15. mars – reiðkennsla hjá Ástu Köru Sveinsdóttur

19. mars – reiðkennsla hjá Snorra Dal

29. mars – hópefli

2. apríl – reiðkennsla hjá Flosa Ólafssyni

 

Dagsetningar seinni lotu má sjá í fyrri auglýsingu

 

Fullt er orðið í barna og unglinga hópa, við hvetjum ungmenni til að skrá sig. Ef ungmenni fylla ekki sinn hóp þá fyllum við upp í þau sæti með börnum og unglingum. Engin ungmenni skráðu sig, búið er að loka fyrir skráningu.

 

Verð verður kr. 20.000 fyrir fyrri lotuna. Hægt er að skipta greiðslum upp í allt að þrjár greiðslur.

Í fyrri lotu verður hámarksþátttökufjöldi 18 einstaklingar. Í seinni lotu opnast möguleiki fyrir fleiri þátttakendur en þeir sem eru þátttakendur í fyrri lotu fá forgang.

Hestamannafélagið Sörli vill hvetja unga félaga til að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni.

Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll