Birtingardagsetning: 
fimmtudaginn, 14. mars 2019 - 9:47
Frá: 

Þann 6. mars síðastliðinn varð hörmulegt slys á félagssvæði Sörla, skammt frá Hlíðarþúfum. Davíð Sigurðsson, einn af okkar nýju félagsmönnum, lést af völdum áverka sem hann hlaut við slysið. Davíð var giftur og átti fimm börn á aldrinum 17 – 30 ára.

Þennan dag barst þessi frétt inn á fund hjá stjórn félagsins. Lítið var rætt um annað á stjórnarfundinum fyrst um sinn eins og gefur að skilja. Hvað gerðist, hvernig gat þetta gerst, hvað getum við gert til að sýna samhug og hvernig fyrirbyggjum við að svona geti átt sér stað.

Í kjölfar þessa atburðar var mikið hringt í stjórnarmenn og framkvæmdastjóra félagsins. Fólk var slegið yfir tíðindunum og vildi bjóða fram aðstoð sína eða var með tillögur um það hvernig mætti sýna samhug í verki. Stjórn félagsins er ákaflega stolt af því hvernig félagsmenn hafa brugðist við. Þeir hafa sjálfir komið fram með hugmyndir um hvernig félagið gæti stutt við aðstandendur. Orð eins og „ég þekkti Davíð ekki, en hann var nú félagsmaður Sörla“, voru algeng. Svona félagi vill maður tilheyra.

Mótanefnd lét skráningargjöld af öðrum vetrarleikum félagsins renna til fjölskyldu hins látna og hægt er að leggja inn á reikning til frekari stuðnings fyrir fjölskylduna, reikn 544-26-001803, kt 640269-6509. Nú á föstudaginn fer fram jarðarför Davíðs heitins og mun Sörli senda heiðursvörð til að vera við jarðarförina. Við vottum fjölskyldu Davíðs og aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Í kjölfar þessa atburðar hefur stjórn félagsins tekið upp að nýju beiðni til Hafnarfjarðarbæjar sem lögð var fram í tengslum við nýtt deiliskipulag svæðisins, þess efnis að úttekt verði gerð á öllum umferðar- og öryggismálum á athafnasvæðinu. Þar er allt undir. Allt þarf að gera til að takmarka möguleikana á því að svona atburður geti átt sér stað. Reiðvega- og öryggisnefnd mun leiða það starf í samstarfi við framkvæmdastjóra og stjórn, en ljóst er að aðkomu Hafnarfjarðarbæjar og fagaðila þarf í það verkefni.

f.h. stjórnar Sörla

Atli Már

Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll