Birtingardagsetning: 
miðvikudaginn, 10. apríl 2019 - 16:35

Öryggismál okkar félagsmanna eru okkur hugleikin þessa dagana eftir hræðilegt banaslys sem var á reiðvegum okkar fyrr í vor. Reiðveganefnd og framkvæmdastjóri hafa fundað með aðilum frá Hafnarfjarðarbæ og skoðað svæðið með það að markmiði að leita leiða til úrbóta.

Strax var farið í það að færa ljósastaurana neðan við Hlíðarþúfur og taka hættuleg grjót úr reiðveginum sem sett höfðu verið til að varna bílaumferð. Við viljum því vinsamlega biðja félagsmenn að virða það og keyra EKKI inn eða út úr hverfinu fyrir neðan 400 hringinn í Hlíðarþúfum.

Fljótlega verður farið í frekari úrbætur fyrir neðan Hlíðarþúfur en það á að fylla upp í lækinn sem er við hliðina á reiðleiðinni upp í hverfið. Einnig á að leita leiða til að grafa brunnana niður og gera beygjurnar mýkri þar sem að þær þykja of krappar.

Einnig hefur verið ákveðið að fá utanaðkomandi aðila til að rýna svæðið okkar því við sem erum að ríða hér út reglulega erum eflaust hætt að sjá hætturnar í kringum okkur. Við vitum að glöggt er gestsaugað og því betra að fá aðila sem getur ráðlagt okkur með það sem betur má fara.

Reiðveganefnd hefur í samvinnu við Sjóvá látið framleiða vesti sem hægt er að fá lánuð á Sörlastöðum. Vestin eru í rauðum lit og á þeim stendur AÐGÁT. Þessi vesti eru fyrir þá vilja láta taka tillit til sín af einhverri ástæðu s.s. þegar reiðmaður er á lítið tömdum eða viðkvæmum hesti, að prófa hest í fyrsta sinn, er óöruggur eða af hvaða ástæðu sem er sem þarfnast tillitsemi annara vegfarenda. Okkur langar sömuleiðis að biðja reiðmenn að sýna ábyrgð og nota vestin þegar þess gerist þörf því öryggið getur verið öllum reiðmönnum í vil.

Sörli tók þá ákvörðun að stofnað yrði netfang fyrir tilkynningar um óhöpp eða ef það verður ,,næstum því óhapp“ á svæðinu okkar. Með skráningum eins og þessum mun Sörli fara yfir hvert og eitt mál með það að markmiði að auka öryggi okkar hestamanna á reiðvegum Hestamannafélagsins Sörla.

Ef tilkynna á óhapp eða slys á Sörlasvæðinu, vinsamlegast sendið tölvupóst á netfangið ohapp@sorli.is


Við viljum einnig minna á og ítreka þau reiðtilmæli sem Landssamband Hestamanna gaf út. Við skulum öll tileinka okkur þau.

1. Hestamenn víkja til hægri á reiðleiðum.
2. Hestar sem eru teymdir skulu ávallt vera hægramegin og ekki fleiri en tveir ( þrír til reiðar ).
3. Reiðhjálmar eru sjálfsögð öryggistæki.
4. Endurskinsmerki í skammdegi veita hestum og mönnum aukið öryggi.
5. Lausir hundar eru ekki leyfilegir á reiðleiðum og í hesthúsahverfum.
6. Áfengi og útreiðar fara ekki saman.
7. Sýnum tillitsemi, ríðum ekki hratt á móti eða aftanundir aðra reiðmenn.
8. Fari margir hestamenn saman í hóp skal ríða í einfaldri röð ef umferð er á móti.
9. Ríðum á reiðvegum og slóðum þar sem því verður viðkomið.
10. Teymum hesta, rekstrar eru bannaðir í þéttbýli.

Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll
Sörli Hestamannafélag, Íþrótt, Lífstíll