Eftir líflega umfjöllun á Facebook síðu Hestamannafélagsins Sörla og síðunni Félagsmenn Sörla nú um helgina þá viljum við benda á að síðastliðin ár erum við búin að vera í stöðugu sambandi við þá sem sjá um skipulagsmál Hafnarfjarðarbæjar. Umræðan um ástandið á reiðvegunum á svo sannarlega rétt á sér enda um mikla slysahættu að ræða með aukinni ásókn útivistarfólks inn á þá.
Sörli kærði göngustíginn í Gráhelluhrauni á þeim forsendum að við vildum láta leggja hann af til að koma í veg fyrir það að hann væri að þvera reiðhringinn á tveimur stöðum. Þessi göngustígur er búinn að vera inni á skipulagi bæjarins í tugi ára en hefur í raun aldrei verið kláraður. Við vildum hins vegar að hann yrði aflagður því hann væri ekki lengur nauðsynlegur þar sem að útivistarfólk gæti farið um nýja göngu og hjólastíginn sem liggur fyrir neðan Hlíðarþúfur. Til að gera mjög langa sögu stutta þá var erindi okkar á endanum synjað eftir að málinu var skotið til Úrskurðarnefndar Umhverfis- og auðlindamála, sem vísaði málinu aftur til Hafnarfjarðarbæjar þar sem ekki var rétt staðið að meðferð málsins og ákvarðanatöku. Eftir það óskaði stjórn félagsins, við eftir því við skipulagsyfirvöld, til að koma til móts við þau, að stígurinn yrði lokaður stígur, þ.e. botnlangi. Þannig gætu útivistarfólk komið inn í hraunið, notið þess og borðað nesti o.þ.h. en umferðin héldi ekki áfram og yfir reiðstíga. Á þetta var ekki hlustað, því miður. Ábyrgðin á því ef slys verður á þessum nýju gatnamótum, mun liggja hjá Hafnarfjarðarbæ. Núna er verið að tengja göngustíginn í Gráhelluhrauni inn á hraðahindrunina þar sem að við ríðum upp á Bleiksteinsháls. Þessi aðgerð er algjörlega í óþökk okkar og þá skoðun okkar er bæjaryfirvöldum fullkomlega kunnugt um.
Margir tölvupóstar, margir fundir og mörg símtölin hafa verið tekin við bæinn þar sem að við lýsum yfir miklum áhyggjum af öryggi félagsmanna okkar. Við lýsum því ítrekað í öllum þessum samskiptum að það skapist stórkostleg hætta þegar reiðmaður mæti akandi, hjólandi, hlaupandi nú eða gangandi fólki, jafnvel með lausa hunda, á reiðvegunum okkar. Sögur frá félagsmönnum, hafa verið sendar til þeirra, okkar máli til stuðnings en því miður er upplifunin sú að á okkur er ekki hlustað.
Ástandið virðist versna með hverjum deginum sem líður því stöðugt bætist í þann fjölda sem sækir í uppland Hafnarfjarðar. Fyrst voru þetta bara þeir sem sóttu í útivist til að stunda sína hreyfingu en núna á Covid-19 tímum virðast margir sem áður stunduðu líkamsræktarstöðvar, sundlaugar og aðra hreyfingu annarsstaðar farnir að leita annara leiða og því verður ágangurinn inn á okkar svæði líka meiri. Allt er þetta af hinu góða ef allir taka tillit til allra og að reiðvegir eru virtir sem slíkir. Sömuleiðis eiga hestamenn ekki að fara inn á merkta göngu- eða hjólreiðastíga.
Jákvæðu hliðarnar á samtölum okkar við bæinn hafa þó leitt til þess að hringirnir tveir, Hraunhringur og Skógarhringur sem og æfingasvæðið ásamt keppnisvöllum og beinu brautinni hafa verið viðurkenndir sem æfingasvæði Hestamannafélagsins Sörla. Í kjölfarið settum við upp fjögur skilti við aðalinngangana. Á skiltunum stendur "Æfingasvæði Hestamannafélagsins Sörla - þessi stígur er eingöngu fyrir hesta og hestamenn". Þetta eru alveg skýr skilaboð og búið er að gera fjögur skilti í viðbót og verið er að vinna í því að fá þau sett upp. Einnig þarf að fá bannmerki fyrir gangandi, hjólandi og vélknúin ökutæki á alla þá staði sem þessi skilti verða sett upp.
Reiðveganefndir Sörla, Spretts og Fáks eru að vinna í sameiginlegri stefnumótun á öryggismálum félagsmanna og formenn þessara félaga eru einnig að fara að funda út af ástandinu því við hér í Sörla erum svo sannarlega ekki ein að glíma við þetta vandamál. Einnig er búið að skrifa opið bréf frá okkur sem verður sent á alla hjóla-, göngu-, hlaupa- og útivistahópa hér í Hafnarfirði og í nágrannabæjarfélögunum. Sama bréf verður einnig sent á vefmiðla bæjarins og birt hér á heimasíðu félagsins. Við viljum í kjölfarið biðja ykkur að deila þessu bréfi, þegar það birtist á vefmiðlum, því bannmerki ein og sér hafa takmarkaðan tilgang ef þau eru ekki virt. Upplýsa þarf útivistarfólk um hve mikil hætta getur skapast því ætla má að enginn vilji leggja okkur hestamenn í hættu.
Við getum fullvissað ykkur um að það er svo sannarlega verið að vinna í þessum málum, en það þarf að einhver að vera að hlusta á hinum endanum og þar má gera betur að okkar mati. Við verðum að vona að á endanum fáum við áheyrn og að umræðan um frekju og yfirgang í okkur hestamönnum hætti með aukinni vitneskju. Við erum sífellt að benda á að öryggi okkar er stórkostlega ógnað ef að við fáum ekki að vera óáreitt á okkar æfingasvæði. Við verðum að fá eitthvað að gert áður en það verður stórslys. Við höfum ítrekað, í tvö ár, reynt að fá áheyrn bæjarins í þeim málum en ekki náð almennilega í gegn.
Við ætlum að láta þessi skrif duga sem svar við öllum þeim spurningum sem upp komu í umræðunum. Við leggjum mikla vinnu í þetta og höfum gert undanfarin tvö ár. Við erum hvergi hætt og reynum hvað við getum.
Það er engin lögregla sem getur staðið á reiðvegunum og sent fólk frá, því miður, en það er ljóst að við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur og sú vinna er í gangi og enginn situr aðgerðarlaus hvað þetta varðar.
Stjórn og framkvæmdastjóri
Hestamannafélagsins Sörla