Sá ömurlegi atburður átti sér stað síðastliðinn mánudag að félagsmenn Sörla lentu í slysi á sameiginlegum útivistarvegi í upplandi Hafnarfjarðar. Slysið varð á gamla Kaldárselsveginum, í brekkunni þar sem farið er upp áður en beygt er til vinstri inn á beina kaflann upp í Kaldársel.
Við hugsum öll hlýtt til þeirra sem lentu í slysinu og vonum svo sannarlega að allir nái fullum bata, bæði á líkama og sál, sem fyrst.
Til upplýsinga og til að leiðrétta allan misskilning og kenningar sem uppi hafa verið á hinum ýmsu spjallrásum á veraldarvefnum um slysið og aðdraganda þess eru hér upplýsingar.
Atburðarrásin er í raun ekki alveg skýr og upplifun aðila dálítið misjöfn. Fólkið á hjólunum var ofarlega í brekkunni. Knaparnir voru búnir að sjá fyrri reiðhjólamanninn og kalla til hans og hann stoppar þegar hinn kemur hjólandi líka að. Hrossinn tryllast þarna í brekkunni og snúa við og rjúka niður, knaparnir detta báðir af baki og annar lendir á kyrrstæðum bíl sem staðsettur var neðan við brekkuna. Hjólreiðafólkið skilur hjólin sín eftir og hleypur niður brekkuna, hringja í 112 og gera sitt besta á slysstað til að hlúa að knöpunum meðan beðið var eftir sjúkrabílunum. Kyrrstæða bílinn átti kona sem stödd var á svæðinu við að klippa tré í skógræktarlundinum sínum.
Þetta er hræðilegt slys sem gerist á sameiginlegum útivistarvegi þar sem allir mega vera, ríðandi, gangandi, hlaupandi, hjólandi og akandi, þannig að það var enginn á stað sem hann mátti ekki vera á. Þannig er að þegar að um sameiginlegan útivistarveg er að ræða þurfa allir, á hvaða leið sem þeir eru, að vera athugulir á það hvaða önnur umferð er á veginum. Tillitsemi allra vegfarenda getur komið í veg fyrir slys og við í Sörla höfum talað mikið fyrir því, bæði stjórn og framkvæmdastjóri við Hafnarfjarðarbæ sem og hestamenn á vef sínum.
Hestamannafélagið Sörli hefur farið þess á leit við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar að grisja trén á þeirri leið sem slysið var. Það var gert eftir að farið var að skoða aðstæður á slysstað en trjágróðurinn á þessu svæði er mjög þéttur og mikill. Þarna er alveg blint þ.e.a.s þeir sem eru efst í brekkunni geta engan veginn séð þá sem eru neðst í brekkunni, en þegar búið verður að grisja og hreinsa af stofnun trjáa verða skilyrðin betri. Einnig verður farið og hreinsað af stofnum á trjánum við veginn upp í Kjóadal, við afleggjarann upp að Skátalundi.
Við höfum fregnir af því víða að hestamannafélög á landinu eru mörg hver í sömu baráttu og við þ.e.a.s. að vitundarvakningu um tillitsemi annara vegfarenda sé ábótavant á sameiginlegum stígum sem og á sérstökum reiðstígum. Við vonum að vinna Ferða- samgöngu- og öryggisnefndar LH muni skila af sér kynningarefni sem verði til þess að vitundarvakning varðandi öryggismál hestamanna verði meðal annara útivistarhópa.
Í ársbyrjun var settur saman starfshópur á vegum Hafnarfjarðarbæjar og meðal annars á hann að taka til skoðunar núverandi legu stíga. Undir það falla bæði gönguleiðir, útivistarstígar og reiðleiðir. Starfshópurinn á einnig að gera tillögu að endurbótum á núverandi leiðum og enn fremur að koma með tillögur að nýjum stígum. Við hjá Sörla fögnum þessari vinnu því hún er sannarlega þörf þar sem áhugi útivistarfólks á upplandi Hafnarfjarðar hefur aukist gríðarlega undanfarin ár.
Slysin gera ekki boð á undan sér, því miður, því þá yrðu þau ekki. Þetta er annað alvarlega slysið sem verður hjá okkar félagsmönnum á stuttum tíma þar sem læknar og hjúkrunarfólk tala um að bakbrynjur þessara knapa hafi gert gæfumuninn með að ekki hafi farið verr.
Því viljum við hvetja alla knapa til að huga að eigin öryggi og nota brynjur. Notkun þeirra er farin að færast í aukana og viljum við hvetja reiðmenn til að fjárfesta í slíkum öryggisbúnaði og tileinka okkur að nota þær, rétt eins og reiðhjálma. Höfum í huga að fullorðna fólkið erum fyrirmynd barnanna.