Frá yfirþjálfara Sörla

Nú er ýmislegt á döfinni í hestamennskunni 

Góðan daginn félagar 
 

Nú styttist í að nýtt tímabil hefjist í þjálfun, æfingum og námskeiðahaldi hjá okkur í Hestamannafélaginu Sörla.

Ég kominn á fullt við að skipuleggja starfið okkar í haust og í vetur, og er alveg rosalega spenntur að byrja tímabilið.

Síðasta ár gekk nokkuð vel þrátt fyrir aðeins þungan róður vegna veirunnar sem hefur auðvitað stjórnað okkur en við lærðum mikið á þessu fyrsta ári okkar með reiðmennskuæfingar og námskeiðstarfið okkar í heild sem við tökum með okkur í nýtt og enn öflugra tímabil sem framundan er.
 

Nú er ýmislegt á döfinni í hestamennskunni, og hæst ber að nefna að það er Landsmótsár framundan sem er auðvitað einn af hápunktum þeirra sem stunda keppni í sinni hestamennsku, og svo er heilmikið annað skemmtilegt og spennandi að gerast að sjálfssögðu.

Það sem er framundan hjá okkur varðandi Reiðmennskuæfingar er að æfingar hefjast þann 13. september hjá yngri flokkum félagsins. Fyrst um sinn verða það bóklegir tímar, styrktar, þol og jafnvægisþjálfun.

Reiðtímar hefjast þann 4. október.

Reiðmennskuæfingar fullorðinna hefjast 18.október bæði verkleg og bókleg kennsla.

Skipulag reiðmennskuæfinga verður auglýst sérstaklega nú á næstunni.

Við munum halda áfram með kennslu í knapamerkjum eins og verið hefur ásamt fleiri námskeiðum í samstarfi við fræðslunefnd félagsins.

Reiðkennarar og þjálfarar (þjálfarastig ÍSÍ) hér á félagssvæði Sörla og hafa áhuga á því að koma að kennslu og þjálfun hér með okkur eru hvattir til þess að setja sig í samband við mig hinriksigurdsson@gmail.com og láta vita að áhuga sínum.

Við erum opin fyrir ýmsu varðandi starfið í vetur, og viljum að sjálfssögðu virkja þá kennara sem áhuga hafa á að vera með í vetrarstarfinu okkar.

Ég hlakka mikið til þess að vinna þetta með ykkur kæru Sörlafélagar, nemendur og kennarakollegar. Endilega heyrið í mér ef spurningar vakna varðandi námskeiðahaldið hjá okkur.


Kær kveðja
Hinni Sig,
Yfirþjálfari