Í dag kveðjum við Sörlafólk merka konu sem markaði stór spor í vegferð hestamannafélagsins Sörla. Heiðursfélaginn Hafdís Björk Jóhannesdóttir er jarðsett frá Hafnarfjarðarkirkju í dag kl. 13.00.
Hafdís Jó var gríðarlega öflug félagsmálakona í málefnum Sörla um marga áratugi. Hún var gjaldkeri í nær því tvo áratugi auk annarra starfa fyrir félagið. Hafdís var einstaklega framsýn í félagsmálum og íþróttalega þenkjandi fyrir hönd hestamennskunnar í Hafnarfirði sem ekki var mjög algengt á þeim tíma.
Hafdís stóð vaktina á Skírdag í ótal mörg ár en það er einn sá allra stærsti dagur okkar Sörlamanna, þá tökum við á móti gestum frá öðrum hestamannafélögum svo hundruðum skiptir. Þar var Hafdís sannarlega á heimavelli í veisluhöldum hvers konar, annálaður snilldarkokkur og bakari sem hafði mikið gaman af því að taka á móti fólki. Hún hafði einstaklega hlýja og góða nærveru og gaman var að ræða við hana um alla hluti. Hafdís var einnig sérlega dugleg að fylgjast með í hestamennskunni, ættfróð um hesta og ótrúlega fróð um ættir og tengingar hestamanna og fór hún á heimsmeistaramót mjög oft. Hafdís fylgdist einstaklega vel með sínu fólki í bæði leik og starfi og var í raun miðpunktur allrar stórfjölskyldunnar.
Við í hestamannafélaginu Sörla kveðjum Hafdísi með mikilli virðingu og þakklæti og sendum hennar fólki innilegar samúðarkveðjur.