Íslandsmót fullorðinna og ungmenna

Á Brávöllum á Selfossi 

Sara Dís & Djarfur Íslandsmeistarar í 250 metra skeiði

Síðastliðna helgi kláraðist Íslandsmót fullorðinna og ungmenna á Brávöllum á Selfossi. Mótið var hið glæsilegasta og jafnframt síðasta mótið áður en Landslið Íslands fyrir heimsmeistaramótið  í Sviss verður kynnt. Það var alveg ljóst frá degi eitt að mikil veisla var í vændum enda bestu knapar og hestar landsins að etja kappi en til að komast inn á mótið þurfti parið að standast lágmarkseinkunn. Sörli átti nokkra glæsilega fulltrúa á mótinu og það var spennandi að fylgjast með þeim og þeirra hestum.

Mótið byrjaði miðvikudaginn 25. júní á Fjórgangi og Gæðingaskeiði. Í Fjórgangi fullorðinna var Katla Sif Snorradóttir skráð með hestinn Sæmar frá Stafholti, þau stóðu sig með stakri prýði og enduðu í 22. sæti með 6,80 í einkunn. Í Fjórgangi ungmenna var einnig einn fulltrúi félagsins, hún Snæfríður Ásta Jónasdóttir á hestinum Feyki frá Strandarhöfði, þau enduðu í 23 sæti með 6,37 í einkunn.

Í Gæðingaskeiði ungmenna mætti Fanndís Helgadóttir með hestinn sinn Sprota frá Vesturkoti og enduðu þau í 7. sæti í sterkri keppni með 6,42 í einkunn.

Á fimmtudeginum var keppt í Fimmgangi, 250 metra skeiði og 150 metra skeiði. Í Fimmgangi meistara voru 2 Sörlafélagar skráðir til leiks. Það voru þau Bryna Kristinsdóttir á Regínu frá Skeiðháholti og Snorri Dal á hestinum Gimsteini frá Víðinesi 1. Snorri Dal og Gimsteinn áttu glæsilega sýningu og uppskáru fyrir hana 7,03 í einkunn og enduðu í 12. sæti og var næsti hestur inn í B-úrslit. Brynja og Regína áttu einnig góða sýningu en vantaði aðeins uppá skeiðið, þær enduðu í 22. sæti með 6,70 í einkunn.

Fanndís & Sproti

Í Fimmgangi ungmenna voru okkar félagar í feikna stuði. Allir Sörlafélagar fóru í úrslit en það voru þau Fanndís Helgadóttir, Sara Dís Snorradóttir og Sigurður Dagur Eyjólfsson. Sigurður Dagur og Sara Dís fóru bæði í B-úrslit, Sara í því 6. og efst inní B-úrslit á hesti sínum Kvisti frá Reykjavöllum með einkunina 6,50 og Sigurður Dagur í 9. sæti á hesti sínum Þór frá Meðalfelli með einkunina 6,30. í B-úrslitum héldu Sigurður og Þór sínu sæti og uppskáru 6,31 í einkunn með meðal annars tvær 7ur fyrir skeið. Sara Dís og Kvistur áttu feikna góð úrslit og héldu einnig sinu sæti en hækkuðu sig töluvert í einkunn. Sara og Kvistur hlutu 6,90 í einkunn fyrir sína sýningu og meðal annars þrjár 7,5ur fyrir skeið.

Sigurður Dagur & Þór

Það var því ljóst að Sara myndi fara sömu leið og hún gerði á Reykjarvíkurmeistaramóti og færi lengri leiðina inní A-úrslitin. Fanndís Helgadóttir skaut sér beint inní A-úrslit með 6,83 í einkunn og 3 inní úrslitin. Á sunnudeginum þegar úrslitin fóru fram var mikið kapp í okkar fólki. Sara Dís og Kvistur áttu frábæra sýningu og hlutu meðal annars eina 8 fyrir skeið. Þau héldu áfram að bæta einkunn sína en þau hutu 6,98 í einkunn og 5 sætið. Fanndís gerði það sama og hélt áfram að bæta í, hún og Sproti voru í svaka stuði og enduðu í 2. sæti með einkunina 7,43 þar sem þau hlutu meðalannars þrjár 8ur fyrir skeið. Það er greinilegt að það er mikil vekurð í okkar fólki.

Sara Dís & Kvistur - Fanndís & Sproti

En keppni var ekki lokið þennan fimmtudaginn því eftir matarhlé fór fram fyrri umferð í  250 og 150 metra skeið. Í 150 metra skeiði meistaraflokki áttum við einn fulltrúa en það var enginn annar en hann Ingibergur Árnason. Hann mætti með hestinn Flótta frá Meiri – Tungu 1, þeir fóru á tímanum 14,68 sek og uppskáru 5. sætið eftir fyrri umferð en seinni umferð fór fram á laugardeginum. Á laugardeginum var mikið kapp í hestinum og knöpum, Ingibergur og Flótti bættu tímann sinn og fóru seinni umferð á 14,35 sek og uppskáru 4. sætið. 

Í Ungmennaflokki áttum við einn fulltrúa í 150m skeiði, Ingunni Rán Sigurðardóttur á hryssunni Mist frá Einhamri. Þær stöllur náðu því miður ekki tíma að þessu sinni.

Í 250 metra skeiði ungmenna var það Sörlafélaginn Sara Dís Snorradóttir sem átti feikna góðan sprett á hestinum sínum Djarfi frá Litla-Hofi. Þau fóru á tímanum 22,87 og stóðu efst eftir fyrstu umferð. Á laugardeginum fór einnig fram seinni umferð í 250 metra skeiði og þó Sörli hafi ekki átt neinn fulltrúa í 250 metra skeiði í  Meistaraflokki er vert að minnast á að Konráð Valur Sveinsson og Kastor frá Garðshorni á Þelamörk settu nýtt heimsmet í greininni og fóru 250m á tímanum 21,06 og bættu því fyrra met sem Sörlafélaginn Daníel Ingi Smarason og Hulda fráan Margretehof áttu, það var 21,07 sek.

Hinsvegar var spennan mikil í seinni umferð í 250 metra skeiði í ungmennaflokki. Sara Dís og Djarfur ætluðu sér mikinn og bættu tímann sinn frá fyrri umferð og fóru á tímanum 22,28 sek og uppskáru fyrsta sætið og þar með Íslandsmeistaratitil. Hreint út sagt ótrúlega flottur árangur hjá Söru og Djarfi sem voru nýbúinn að að sigra 250 og 100 metra skeið á Reykjarvíkurmeistaramóti. Sara Dís bætir tímann sinn síðan á því móti en þar sigraði hún á tímanum 23,30 sek.

Sara Dís & Djarfur
Sara Dís & Kvistur

Á föstudeginum 27. júní fór fram Tölt T2 og Tölt T1. Í Tölti T2 var Sörlafélaginn hún Ylfa Guðrún Svafarsdóttir mætt til leiks með hestinn sinn Þór frá Hekluflötum og enduðu þau í 20. sæti með 7,10 í einkunn í feiknasterkum flokki. Í Ungmennaflokki voru tveir Sörlafélagar skráðir til leiks og skutu þær sér báðar í úrslit en það voru þær Fanndís Helgadóttir og Kolbrún Sif Sindradóttir. Kolbrún Sif mætti á hesti sínum Byl frá Kirkjubæ og átti góða sýningu og uppskáru þau 6,97 í einkunn og 11. sæti og komust inní b-úrslit. Í úrslitum náðu þau að hækka sig upp um eitt sæti og enduðu í 10 sæti með 6,88 í einkunn.  Fanndís Helgadóttir og Ötull fá Narfastöðum skutu sér beint inn í A-úrslit eftir frábæra sýningu, þar sem þau hlutu 7,30 í einkunn. Í mjög sterkum A – úrslitum hækkuðu þau einkunn sína í 7,54 og enduðu í 4. sæti. Frábær árangur hjá þessum flottu Sörla stelpum.

Kolbrún & Bylur

Í forkeppni í tölti T1 meistaraflokki var Brynja Kristinsdóttir skráð til leiks með hryssuna Sunnu frá Haukagili Hvítársíðu. Gríðarlega sterk keppni var í þessari grein en 10 knapar fóru yfir 8,0 í einkunn. Brynja og Sunna voru meðalþeirra sem gerðu það, þær hlutu hvorki meira né minna en 8,23 í einkunn og voru í 8. sæti eftir forkeppni og skutust því beint inní B-úrslit. Í úrslitum voru þær í miklu stuði og uppskáru fyrsta sætið með 8,33 í einkunn og því ljóst að þær myndu mæta í A-úrslit á sunnudeginum. Síðasta grein mótsins voru A-úrslit í tölti T1 þar sem Brynja og Sunna mættu í gríðarlega sterkum úrslitum þar sem Ásmundur Ernir og Hlökk leiddu eftir fyrstu tvö atriðin en Hlökk missti skeifu í greiða töltinu og fékk því ekki einkunn fyrir það atriði. Brynja og Sunna héldu áfram að bæta sig og hækkuðu einkunn sína enn frekar en þær enduðu í 5. sæti með 8,44 í einkunn. Ótrúlega flottur árangur hjá þeim.  

Brynja & Sunna - ljósmyndari Nicki Pfau

Í tölti T1 ungmennaflokki voru það þær Fanndís Helgadóttir og Kolbrún Sif Sindradóttir sem voru skráðar til leiks. Fanndís og Sproti hlutu 6,63 í einkunn fyrir sína sýningu og hlutu 19. sætið. Kolbrún Sif mætti með hestinn Hallstein frá Hólum og hlutu 6,50 í einkunn fyrir sína sýningu og 22. sætið.

Á úrslitadegi hófst keppni á 100 m skeiði í meistara og ungmennaflokki. Konráð og Kastor frá Garðshorni á Þelamörk héldu áfram að bæta við sig titlum en þeir sigurðu greinina á tímanum 7,40 sek. Rétt á eftir þeim var skeið snillingurinn og  Sörlafélaginn hann Ingibergur Árnason. Hann mætti með hryssu sína Sólveigu frá Kirkjubæ og fóru það á tímanum 7,47 sek.

Ingibergur & Sólveig

Í 100m skeiði ungmenna voru 4 Sörlakrakkar skráðir til leiks. Það voru Kolbrún Sif Sindradóttir, Ingunn Rán Sigurðardóttir, Sara Dís Snorradóttir og Sigurður Dagur Eyjólfsson. Sigurður Dagur mætti með hryssuna Gjöf frá Ármóti og enduðu þau í 11. sæti á tímanum 8,72 sek. Ingunn Rán og Mist frá einhamri enduðu í 9 sæti á tímanum 8,42 sek.  Kolbrún Sif mætti með hryssuna Gná frá Borgarnesi og fóru þær á tímanum 7,86 sek og enduðu í 4. sæti.  Rétt fyrir ofan þær og 3. sæti hlaut Sara Dís Snorradóttir og Djarfur frá Litla-hofi en þau fóru á tímanum 7,84 sek.

Það er óhætt að segja að árangur hjá okkar flottu félögum hafi verið glæsilegur á þessu móti.

Kolbrún & Gná

Yfirþjálfari óskar öllum innilega til hamingju.