Nú í september hefjast reiðmennskuæfingar hjá hestamannafélaginu Sörla af fullum krafti.
Um er að ræða skipulagða kennslu fyrir félagsmenn í hestamannafélaginu Sörla, sem nær yfir allt tímabilið, haustönn og vorönn.
Skráning er hafin í æfingarnar fyrir yngri iðkendur félagsins, gegnum Nora kerfið og við hvetjum sem allra flesta til þess að nýta sér það að fá skipulagðar, einstaklingsmiðaðar æfingar í hestamennskunni alveg frá hausti og fram á vor.
Frá miðjum október verður svo farið af stað með fullorðinshóp á sama hátt, sem verður í gangi fram á vorið, bæði bókleg og verkleg kennsla.
Á morgun þriðjudaginn 1. september verður kynningarfundur hjá yfirþjálfara félagsins þar sem farið verður yfir framkvæmd námskeiðanna og þau gildi og hugmyndir sem liggja að baki.
Fundurinn verður haldinn í streymi á Facebook síðu Hestamannafélagsins Sörla klukkan 19:00
Síðan heitir Hestamannafélagið Sörli og það er um að gera fyrir alla áhugasama að fylgjast með fundinum og leggja fram spurningar sem kunna að vakna um þau verkefni sem framundan eru.
Hinni Sig, yfirþjálfari verður svo aðgengilegur til þess að svara spurningum í síma og á tölvupósti í kjölfar fundarins.
Markmið haustannar:
- 8-10 ára: Elfa áhuga iðkenda á íþróttinni á breiðum grunni. Kynna grunngildi góðrar hestamennsku og leyfa iðkendum að kynnast íþróttinni á margan hátt. Leikir og fjör til þess að hópurinn kynnist.
- 11-13 ára: Iðkendur læri helstu hugtök í reiðmennsku. Kunni skil á grunnæfingum í liðkandi vinnu. Fái fræðslu um gildi grunnþjálfunar reiðhesta. Læri handhægar æfingar um markmið og hugarfarsþjálfun.
- 14-16 ára: Iðkendur fái innsýn í mikilvægi þjálfunar í vinnuformi. Öðlist yfirsýn í liðkandi og styrkjandi vinnu og grunnfærni í vinnu við hendi.
- 17 ára og eldri: Allt ofan talið.
Verkleg reiðkennsla einn reiðtími í viku: Hópunum skipt niður á kennara, 2-3 knapar verða saman í reiðtímum 40 mín.
Skipt eftir aldri og getu.
Bókleg kennsla 1 sinni í viku
Markmið annarinnar: Iðkendur bæti við verklega færni. Þekking á reiðleiðum á reiðvelli, æfingar og almenn þjálfun.
- Yngri hópar fái mikla þjálfun í ásetu og stjórnun
- Öðlist færni á grunnábendingum og fá einfaldar æfingar sem hjálpa við stjórnun
- Kyssa ístöð
- Sveigjustopp ( öryggistæki)
- Læra að víkja fram- og afturhluta
- Kynna stytt fet
- Baugavinna
Eldri hópar:
- Allt ofan talið
- Vinna á sveigðu spori
- Kenna hestum að sækja fram og niður
- Krossgangur
- Opinn sniðgangur
Auk þessara æfinga verða ýmis önnur námskeið á dagskrá félagsins að vanda. Fræðslunefnd verður m.a með frumtamninganámskeið í nóvember auk nokkura námskeiða í vetur.
Knapamerkjanámskeiðin vinsælu verða líka á sínum stað, og hefst bóklega kennslan í knapamerkjunum nú í september.
Við hvetjum alla félagsmenn til þess að kíkja á kynningarfundinn annað kvöld, og kynna sér þá metnaðarfullu dagskrá sem framundan er í námskeiðum á vegum félagsins.