Síðastliðna helgi fór afrekshópur Hestamannafélagsins Sörla á Árbakka í kennslu hjá ofurknapanum Jóhönnu Margréti en í hópnum eru 12 afrekskrakkar.
Hópurinn lagði snemma af stað laugardagsmorgni og ferjuðu hesta sína á Árbakka og byrjuðu í kennslu strax kl 10 um morguninn. Krakkarnir voru öll í einkatímum hjá Jóhönnu og fylgdust með tímunum hjá hvort öðru. Kennsla stóð yfir allan daginn með smá hádegispásu þar sem krakkarnir gæddu sér á dýrindis kjúklingasúpu og meðlæti frá Stebbu okkar í Sörla og sló súpan verulega í gegn. Tímarnir á laugardeginum gengu vel þar sem Jóhanna Margrét kynntist nemendum og hestunum þeirra.
Eftir kennsluna fórum við og komum okkur fyrir á gistiheimilinu Lóa’s nest á Árbæjarveginum sem var í stuttri fjarlægð frá Árbakka. Um kvöldið fórum við á veitingahúsið Fjárhúsið á Hellu og við borðuðum kvöldmat. Þegar við komum til baka á gistiheimilið þá voru allir uppgefnir eftir langan dag og fljótlega færðist ró yfir hópinn og allir komnir snemma í háttinn.
Sunnudagurinn hófst með frábærum morgunmat en krökkunum var boðið upp á vöfflur og tilheyrandi í boði Lóa´s nest gistiheimilis og voru full af orku fyrir kennslu dagsins.
Eftir morgunmat héldu nemendur aftur á Árbakka og fengu annan einkatíma. Tímarnir gengu vel og stóð hópurinn sig rosalega vel. Eftir að allir höfðu lokið kennslu var ferðinni aftur haldið í fjörðinn fagra eftir frábæra lærdómshelgi.
Hópurinn stóð sig einstaklega vel, kom vel fram hvar sem við vorum og voru félaginu til sóma. Stemningin var virkilega góð í hópnum sem er ekki sjálfgefið þar sem aldurbilið er mikið.
Það er ótrúlega lærdómsríkt að fara að heiman og fá kennslu annarstaðar og voru nemendur og yfirþjálfari mjög ángæðir með helgina. Hafði Jóhanna Margrét orð á því hversu hrifin hún var af hópnum og hvað henni fannst æðislegt að fá að kenna svona flottum krökkum.
Stína Þorgeirs kom með okkur til að aðstoða við að ferja hross og krakka og var yfirþjálfara innan handar með hópinn.
Þangað til næst.
Ásta Kara
Yfirþjálfari Sörla