Árangursverðlaun Sörla árið 2022 - síðasti skiladagur 10. nóvember

Árangursverðlaun 

Á árs og uppskeruhátíðum Sörla veitum við alltaf verðlaun.

Á  Árs- og Uppskeruhátíð Sörla dagana 18. - 19. nóv verða veittar viðurkenningar fyrir keppnisárangur og kynbótahross félagsmanna. Varðandi verðlaunaafhendingu fyrir íþróttafólk Sörla verður farið eftir viðmiðunarreglum sem útbúnar voru af vinnuhóp sem settur var saman til vinna að þessu verkefni fyrir félagið. Reglurnar verða endurskoðaðar árlega.

Við viljum hvetja knapa og forráðamenn knapa að senda inn upplýsingar um keppnisárangur og mynd á netfangið arangur@sorli.is í síðasta lagi 10. nóv 2022 kl 22:00. Eingöngu verða veitt árangursverðlaun fyrir innsend gögn. Sendi knapi ekki inn árangur sinn verður ekki tekið tillit til hans við veitingu verðlauna. Sami keppandi getur ekki hlotið verðlaun bæði í atvinnumannaflokki og áhugamannaflokki.

Veiting verðlauna byggist á útreikningi stiga og huglægu mati. Stjórn félagsins úrskurðar og veitir verðlaunin. Hún nýtur aðstoðar valnefndar sem stjórn skipar. Nefndin mun stilla upp valkostum í samræmi við leiðbeiningar sem eru kynntar hér neðar.

Stig knapa verða reiknuð fyrir árangur ársins. Knapar skulu sjálfir ábyrgir fyrir því að skila inn stigalista. Valnefnd reiknar út stig, ákvarðar vægi móta og veitir umsögn um árangur sem verður grunnur vali. 

Nefndin leggur til form sem nýtist knöpum við skil. Hér er hægt að nálgast formið (Execl Skjal).  Þú gætir þurft að vista skjalið hjá þér áður en þú opnar það.

 

Valnefnd

Hlutverk valnefndar er að aðstoða stjórn við val á íþróttaknöpum Sörla.  Hún hefur einnig það hlutverk að meta stærð og vægi móta á hverju ári. Stjórn velur einstaklinga í valnefnd og skal það gert í upphafi árs.

Valnefnd hittist og fer yfir mót ársins og metur vægi þeirra og skilar niðurstöðu til stjórnar.

 

Hér að neðan eru viðmiðunarreglur ársins 2022 við val á knöpum til verðlauna.

1. Hlutlægt mat

Útreikningur stiga

Stig fyrir þátttöku í mótum eru reiknuð í samræmi styrkleika þeirra. Vægi móta er mismunandi og hafa Lands-, heimsmeistara-, Íslands- og Norðurlandamót hæst vægi. Gert er ráð fyrir að vægi móta sé eins frá ári til árs en valnefnd geti breytt þessu m.t.t. breytinga á styrkleika móta.

Lagt er til að lögleg mót telji til stiga. Árangur í  innanfélagsmótum, sem ekki lúta reglum Landssambands hestamannafélaga, telst ekki með nema sem hluti af huglægu mati.  Árangur í Meistaradeild telur ekki til stiga. Ástæðan er sú að knapar eru valdir til keppni í Meistaradeild en geta ekki unnið sér inn sæti í henni. Annað á við um keppni í meistaradeildum ungmenna og æskunnar, enda eru þær opnar öllum.

Styrkleikar móta

Valnefnd mun flokka mót eftir styrkleika. Flokkar verða fjórir talsins.

  • Landsmót og heimsmeistaramót, vægi 5.

  • Íslandsmót og Norðurlandamót, vægi 3.

  • WR mót, stærri og/eða sterk lögleg mót, vægi 1 .

  • Minni lögleg mót, vægi 0,5.

Ekki verður mismunandi vægi á einstökum greinum. Komi til þess að tveir knapar séu jafnir að stigum mun huglægi þáttur matsins geta ráðið úrslitum. Í þessu sambandi er þó lagt til að á Landsmóti vegi árangur í A og B flokkum þyngst.

Ýmis atriði

Sæti í úrslitum telur í stigagjöf en ekki sæti í forkeppni. Á þetta aðeins við þegar knapi keppir á hesti sem hann kom í úrslit.

Keppandi í fullorðins flokkum skal taka fram hvort hann safnar stigum í opnum flokki eða í flokki áhugamanna.

Knapar safna stigum í sínum flokki og einnig þegar þeir keppa í hærri styrkleikaflokki. Knapar í meistaraflokki safna einungis stigum í sterkasta flokki á hverju móti.

Stig í 1. flokks greinum í meistaraflokki (F2,V2,T3 og T4) telja hálft á við stig í meistaraflokks greinum (T1, V1, F1,T2).

Komi knapi tveimur hestum eða fleiri  í úrslit/verðlaunasæti  þá telja stig fyrir þann hest sem hann keppir á í úrslitum.

Í greinum þar sem sérstök úrslitakeppni fer ekki fram telur besti árangur knapa á einum hesti til stiga. Þetta á við um skeiðgreinar, fimikeppni og aðrar greinar  án sérstakrar úrslitakeppni.

Hafnarfjarðameistartitill gefur 5 stig  til viðbótar öðrum stigum.

Titlar samanlagðra sigurvegara og stigahæstu knapa í æskulýðsflokkum skila 12 stigum eins og 1. sæti almennt gerir.

 

 2. Huglægt mat

Auk stiga verður huglægt mat lagt á árangur og hæfi keppenda. Huglægi þátturinn er vandmeðfarinn enda getur hann ráðið úrslitum um val. Stjórn Sörla skal gæta þessa.

Einstakur árangur s.s heimsmeistaratitill,  heimsmet,  Landsmótssigur í A eða B flokki getur ráðið úrslitum við val og vegið þyngra en stigagjöf.

Gerð er krafa til þess að íþróttamaður sé góð fyrirmynd, innan vallar sem utan.

Dæmi um þætti sem hafa áhrif á huglægt mat:

Jákvætt

  • Knapi kemur fleiri en einum hesti í úrslit.

  • Að komast í landslið.

  • Góð framkoma utan sem innan vallar.

  • Árangur í keppni fyrir hönd annars félags.  

Neikvætt

  • Óíþróttamannsleg framkoma.

Í huglægu mati er tekið tillit til áminningar fyrir grófa reiðmennsku og óíþróttamannslega framkomu. Rauð spjöld sem gefin eru vegna misheppnaðra sýninga telja ekki til frádráttar. Dæmi um slíkt er þegar skeifa dettur undan, hestur fer úr braut og annað sem rekja má til mistaka í sýningu.

Þær viðurkenningar sem Sörli mun veita eru eftirfarandi:

  • Íþróttakarl Sörla

  • Íþróttakona Sörla

  • Knapi Sörla í áhugamannaflokki

  • Knapi Sörla í ungmennaflokki

  • Knapi Sörla í unglingaflokki

  • Knapi Sörla í barnaflokki

Að auki verða veitt 2. og 3. verðlaun fyrir góðan árangur í ungmenna-, unglinga- og barnaflokki sem og hin árlegu verðlaun Æskulýðsnefndar og stjórnar fyrir efnilegasta ungmennið og áhugasamasta barnið/unglinginn

Nefndarbikarinn –  er kjörinn af stjórn félagsins fyrir framúrskarandi störf á starfsárinu.


Kynbótanefnd Sörla verðlaunar ræktendur hæst dæmdu hrossanna í hverjum flokki

Kynbótahross

Veitt verða verðlaun fyrir:

  • Hæst dæmda kynbótahross í fullnaðardóm ræktað af Sörlafélaga 4. vetra.

  • Hæst dæmda kynbótahross í fullnaðardóm ræktuð af Sörlafélaga 5. vetra.

  • Hæst dæmda kynbótahross í fullnaðardóm ræktuð af Sörlafélaga 6. vetra.

  • Hæst dæmda kynbótahross í fullnaðardóm ræktuð af Sörlafélaga 7. vetra og eldri.
     

Einnig verða veitt verðlaun fyrir hæst dæmda hross í kynbótadómi á árinu 2021 ræktuðu af Sörlafélaga og hæst dæmda hross í eigu Sörlafélaga á árinu 2021.

Tökum þátt og sendum inn árangur ársins.

Áfram Sörli.