Staða yfirþjálfara félagsins var auglýst í júlí. Að umsóknarfresti liðnum var boðað til starfsmannaviðtala og í framhaldi af þeim var ákveðið að gera samstarfssamning við Ástu Köru Sveinsdóttur, en hún þótti uppfylla skilyrði til starfsins.
Ásta Kara er ,,uppalin“ í Sörla og hefur stundað hestamennsku hér frá unga aldri. Hún hefur víðtæka reynslu, hún er með BS próf í reiðmennsku og reiðkennslu og hefur starfað við þjálfun og kennslu um nokkuð langt skeið þ.á.m. á félagsvæði Sörla.
Það er okkur því sönn ánægja að tilkynna að síðastliðinn laugardag gerðu Hestamannafélagið Sörli og Ásta Kara samning um að hún tæki að sér stöðu yfirþjálfara Sörla. Samningurinn tekur gildi 1. september 2024 og gildir í ár.
Markmið :
Að starfa að metnaði í samræmi við gamalt slagorð félagsins ,,Íþrótt - Lífstíll"
Að auka grunnþekkingu ungra iðkenda.
Auka verulega þátttöku og þekkingu félagsmanna í Sörla á hestamennsku.
Auka þátttöku og samkeppnishæfi á stærri mótum.
Að Sörli verði fyrirmyndar félag í menntamálum hestamanna.
Að hafa gaman saman í skemmtilegasta hestamannafélagi landsins þar sem jafnræði er haft að leiðarljósi.
Starfssvið yfirþjálfara er m.a. að:
Móta og vinna að heildarstefnu fyrir námskeiðahald félagsins í samstarfi við stjórn, framkvæmdastjóra og nefndir félagsins sem þar koma að.
Hafa yfirumsjón með þjálfun og þjálfurum í samráði við framkvæmdastjóra félagsins og stjórn
Hafa eftirlit með tekjum og kostnaði við fræðslu og námskeiðahald í samstarfi við framkvæmdastjóra
Skipuleggja og viðhalda æfingatöflum og námskeiðum félagsins.
Taka þátt í að móta og skipuleggja afreksstarf félagsins
Úthluta kennslustundum í samvinnu við þjálfara
Skipuleggja foreldrafundi og starf foreldraráða, í samstarfi við framkvæmdarstjóra
Þjálfa þátttakendur námskeiða og/eða æfinga samhliða yfirþjálfarahlutverkinu
Taka þátt í verkefnum innan félagsins varðandi mót og hafa eftirfylgni með yngri flokkum á innanfélagsmótum og fyrir Landsmót
Vinna að öðrum tilfallandi störfum í samráði við framkvæmdarstjóra félagsins
Um leið og við bjóðum Ástu Köru til samstarfs, þá hvetjum við alla til að skoða vel framboð vetrarins hvað varðar kennslu og fræðslu því við vitum að fram undan er metnaðarfullt og fjölbreytt starf.
Auglýsingar koma inn fljótlega.
Stjórn og framkvæmdastjóri