Bráðabirgða leið um Urriðadali

Ný reiðleið 

Nú er búið að opna nýja bráðabirgða reiðleið í Urriðadölum, þessi leið kemur í staðin fyrir Flóttamannaleiðina en hún er búin að vera lokuð síðastliðin ár.

Reiðveganefndir Sörla og Spretts hafa unnið hörðum höndum að því að finna lausn á nýrri leið sem kæmi í staðin fyrir Flóttamannaleiðina, mikið er búið að funda með stjórnendum í Garðabæ og stjórn Oddfellowa, á endanum þá náðust samningar þeirra á milli um bráðabirgðaleið til þriggja ára um Urriðadali, Tjarnarholtsleið, en leiðin liggur um land Styrktar- og líknarsjóð Oddfellowa og erum við hestamenn afar þakklát fyrir þann skilning sem golfararnir sýndu okkur.

Ef við í Sörla ætlum að fara þessa nýju leið frá okkur þá ríðum við út af Skógarhringnum inn á línuveginn, þar var slóði út af reiðveginum, en nú í haust þegar framkvæmdirnar voru við reiðvegina okkar, þá var lagður 50 metra vegstubbur innan Hafnarfjarðar að landamerkjum Garðabæjar.

Reiðveganefndir félaganna eru einnig búnar að leggja fram tillögu að legu nýrrar reiðleiðar, Seljahlíðarleið sem kæmi í staðin fyrir bráðabirgðaleiðina, en leiðin yrði í framhaldi af botnlanganum í Sléttuhlíð og sem leið liggur meðfram hraunjaðrinum og myndi svo tengjast inn á Heiðmerkurleiðina. Nú þegar er samþykkt reiðleið frá botnlanganum í Sléttuhlíð í Smyrlabúð, Klifsholtsleið og í framtíðnni myndi hún tengjast þessari nýju leið.