Í dag, sunnudaginn 28. september, var reiðhallargólfið í okkar nýju og stórglæsilegu reiðhöll opnað.
Hin 4 ára Stefanía Birna Ingólfsdóttir á stóðhestinum Eldjárni frá Tjaldhólum reið á vaðið og tók nokkra hringi í höllinni. Vel fór á með knapa og hesti og mikil ánægja með aðstæður.
Stefanía er Sörlafélagi og virkur þátttakandi í pollastarfi Sörla og ætlar að mæta á skipulagðar pollaæfingar í vetur.
Það var vel við hæfi að Eldjárn frá Tjaldhólum yrði fyrstur með knapa sínum. Þessi aldni höfðingi er 25 vetra gamall og í eigu Sörlafélaganna Snorra og Stebbu sem eru jafnframt afi og amma Stefaníu Birnu. Hann hlaut á sínum tíma einkunnina 8,85 fyrir hæfileika, þar af 10 fyrir vilja og geðslag, og var lengi vel hæst dæmdi klárhestur í heimi.
Aðspurð sagði Stefanía gólfið vera frábært og að hún stefndi á að þjálfa Eldjárn fyrir afa og ömmu í vetur. Þau stefna hátt á pollamótum vetrarins og hún hlakkar mikið til. Hún hvetur alla polla í Sörla til að mæta á pollaæfingar því þar verður líf og fjör.