Desemberkveðja yfirþjálfara

Jólakveðja 

Góðan daginn kæru félagar í Hestamannafélaginu Sörla.

Nú er haustmisserið senn liðið og ný önn hefst hjá okkur í félaginu okkar strax á nýju ári.

Mig langaði að senda á ykkur kveðju og segja aðeins frá því sem hefur verið í gangi hjá okkur í haust og segja aðeins frá því sem framundan er.

Hestamannafélagið Sörli hefur tekið þá stefnu varðandi menntamál sín að vinna markvisst að því að vera leiðandi afl í menntamálum hestamanna hér á Íslandi og ég verð að segja að við sem félag höfum sannarlega farið vel af stað í að svara kallinu saman.

Á haustönn 2021 voru rétt um 90 iðkendur skráðir á námskeið hjá félaginu, og þá er félagshús Sörla ekki meðtalið. En það telur í kring um 20 iðkendur sem ýmist leigja pláss fyrir eigin hest eða leigja hest hjá félaginu í samstarfi við Íshesta.

Félagshesthúsið gegnir því hlutverki að vera einskonar “anddyri” fyrir nýja iðkendur inn í þessa frábæru íþrótt okkar, og veitir nýjum hestamönnum aðgengi á góðan og uppbyggilegan hátt að íþróttinni. Hugsunin er sú að þeir iðkendur sem fara á fullt í lífsstílinn geti kynnst honum, aðlagast og lært undirstöðuatriði í því að umgangast hestinn og njóta hans á allan hátt.

Nú er svo komið eftir nokkurra ára starfssemi félagshússins að það eru þegar komnir nokkuð margir iðkendur í félagið og farnir að vera í hestamennskunni á eigin vegum og taka þátt í því starfi sem félagið býður upp á.

Á liðinni önn voru það Reiðmennskuæfingar yngri flokka sem hófust í september. Rétt þar á eftir, í október hófust Reiðmennskuæfingar fyrir fullorðna þar sem þátttakan var gríðarlega mikil, og þær halda áfram fram á vorið.

Kennsla í Knapamerkjum 2, 3, og 5 hefur verið í fullum gangi í haust og knapamerki 2 og 3 eru að klára sín próf nú um þessar mundir á meðan knapamerki 5 heldur sínu námi áfram inn á nýja árið.

Pollanámskeið hófst í nóvember og stendur enn.

Þar fyrir utan var haldið vel sótt frumtamninganámskeið á vegum fræðslunefndarinnar í nóvember.

Það hefur verið ákaflega gaman að sjá það hér í haust að það hefur verið heilmikið líf á félagssvæðinu, og um helgar hefur umferðin nánast jafnast á við það sem gerist hér að vori jafnvel og það er á mínum ferli hér í félaginu algjört einsdæmi hingað til, að haustið hafi verið svo líflegt hér.

Nú er vorönnin að hefjast og hefðum samkvæmt eykst umferðin í hverfunum hér enn frekar, og fleiri hestamenn eru að huga að því að taka inn hross og hefja vetrarstarfið sitt.

Við látum ekki á okkur standa varðandi framboð af fræðslu og kennslu hjá félaginu á vorönn, og það er þétt dagskrá framundan þar sem allir hestamenn á svæðinu ættu að geta fundið fræðslu og kennslu sem hentar.

Reiðmennskuæfingar fullorðinna
Reiðmennskuæfingar fullorðinna halda áfram á vorönn, og við höfum fengið nokkrar fyrirspurnir um það hvort hægt sé að bæta inn nemendum þar. Við erum að vinna í því að geta jafnvel boðið upp á morguntíma fyrir árrisula, áhugasama iðkendur og getum mögulega brugðist við þeirri eftirspurn á þann háttinn.

Reiðmennskuæfingar yngri flokka
Reiðmennskuæfingar yngri flokka, vorönn hefst þann 10 janúar, og það verður opnað fyrir skráningar nú strax eftir helgina.

Námskeiðið stendur fram að 18 apríl, og verður tvisvar í viku yfir tímabilið. Einn verklegur allar vikur, og svo á móti einn bóklegur sem verður þó með ýmsum hætti. Allt frá bóklegri kennslu upp í samkomusal, ásetuæfingar í hringtaum í reiðhöll, heimsókn frá landsliðsknapa sem segir frá sinni hestamennsku, opnum vinnustundum með eigin hest og sýnikennslum.

Reiðmennskuæfingarnar eru grunnnámskeiðið okkar fyrir yngri iðkendur á öllum getustigum allt frá þeim sem eru að hefja sína hestamennsku og yfir í eldri unglinga/ungmenni og keppnisknapa og allt þar á milli, þar sem iðkendur fá kennslu á því stigi sem þau eru stödd, og breiða fræðslu um allt mögulegt tengt hestamennsku og hestahaldi.

Siggi Ævars heldur áfram með verkefni sitt sem er strákahópur, þar sem hann vinnur með áhugaeflandi nálgun fyrir kraftmikla stráka í hestamennskunni. Það er rými til þess að bæta við hópum í þann hluta líkt og allar reiðmennskuæfingar yngri flokkanna.

Keppnisakademía Sörla
Keppnisakademía Sörla er verkefni sem hefst í mars, og er keppnisnámskeið fyrir iðkendur sem stefna á keppni í vor.

Námskeiðið er alveg frístandandi og ekki bundið Reiðmennskuæfingunum á nokkurn hátt, svo iðkendur sem eru í Reiðmennskuæfingum og vilja bæta við sig aukalega eru velkomnir til þátttöku í akademíunni jafnt sem aðrir iðkendur í félaginu sem stefna á keppni.

Akademían er byggð á tveimur helgarnámskeiðum í mars og apríl og heldur svo áfram sem vikuleg þjálfun frá lok apríl og fram að 30 maí sem er í sömu viku og úrtaka fyrir Landsmót fer fram. Í akademíunni fá iðkendur innsýn í það að undirbúa sig og hest sinn fyrir keppni, setja sér markmið og vinna í stöðugri þróun og skoðun á þjálfun sinni á tímabilinu mars-lok maí í takt við þau markmið sem sett eru.

Takmarkað framboð af plássum er í boði á akademíuna, en knapar í barna- unglinga- og ungmennaflokki eru velkomnir frá þeim sem eru að stíga fyrstu spor í keppni og þurfa stuðning og aðstoð og einnig þeir sem eru harðnaðir keppnisknapar.

Knapamerkin
Stefna okkar er að hafa sem flest knapamerki á ári hverju, og við höldum áfram með það í vor og bjóðum upp á knapamerki 1 sem verður auglýst sérstaklega þegar þar að kemur.

Fræðslunefndin
Fræðslunefndin er búin að raða upp þremur styttri námskeiðum sem verða á þriðjudagskvöldum og það er Atli Guðmundsson sem ríður á vaðið í janúar og skráning er þegar hafin og mikið bókað, og svo taka önnur námskeið við í febrúar og mars hjá nefndinni. En fræðslunefnd er einnig með kennslusýningu á dagskrá strax um miðjan janúar þar sem Anton Páll Níelsson og Inga María Jónínudóttir koma og halda sýnikennslu um þjálfun.

Hugrakkir hestar og öruggir knapar
Í febrúar verður helgarnámskeið um atferli og skynjun hestsins. Bæði verkleg og bókleg kennsla þar sem áhersla er lögð á atferli hestsins og markvisst unnið með að knapinn læri inn á viðbrögð hestsins í mismunandi aðstæðum og unnið með að bæta samband og samspil hests og knapa með samskipti, öryggi og aukna ánægju í samveru við hestinn að leiðarljósi.

Töltkonur
Ásta Kara heldur áfram í vetur þar sem frá var horfið í fyrra með æfingar fyrir konurnar í félaginu. Þessar æfingar voru svakalega vel sóttar, og verða með svipuðu sniði í vetur þar sem hestakonur koma saman, þjálfa sig og hestana á meðan þær hittast og hafa gaman á Sörlastöðum.

Fleiri styttri námskeið og annað verða svo kynnt þegar líður á önnina og ég hvet alla til þess að fylgjast með heimasíðu félagsins og kynna sér það sem í boði er.

Aðsókn á námskeið og fræðslu er alltaf að aukast, og það er mikið gleðiefni. Knapar eru alltaf að verða meðvitaðri um mikilvægi þess að leitast við að skilja hestinn sinn, og fræðin í kring um þjálfunina sem án nokkurs vafa lyftir allri hestamennskunni okkar upp á hærra plan, eykur ánægju knapa og hesta, eykur öryggi okkar allra í íþróttinni og gerir hestamennskuna að þessum sérstaka og frábæra lífsstíl sem hún er.

Við í Sörla erum í raun að berjast við aðstöðuleysi í kennslumálunum með reiðhöllinni okkar sem er vissulega frábær kennsluaðstaða en er sprungin miðað við fjölda iðkenda, en það stendur vissulega til bóta með lýsingu í stóra reiðgerðinu, við erum með góða velli sem nýtast þegar vora tekur og svo framvegis, en ég sem þjálfari í félaginu finn að þarna er hindrunin okkar til þess að vaxa enn frekar, og því verðum við að leggja ríka áherslu á það saman sem hópur, sem lið, sem iðkendur og aðstandendur iðkenda að koma upp nýju höllinni sem allra fyrst og geta þá boðið upp á þjónustu í algjörum heimsklassa í okkar íþrótt.

Ég þakka fyrir frábært haust, og við hlökkum mikið til nýs árs með ykkur öllum,

Eigið gleðileg jól og njótið vel með fjölskyldum og hestum.

Sjáums á ferðinni,
Hinni Sig
Yfirþjálfari Sörla

Hestamannafélagið Sörli
Íþrótt-lífsstíll