Fjölskylduhestaferð Sörla 5. Júní 2021 að Skógarhólum - skráningafrestur til 24. maí

Skógarhólar 

Æskulýðsnefnd ætlar að standa fyrir fjölskylduhestaferð 5. júní 2021 að Skógarhólum í Þingvallasveit. Mæting kl 13:00 og áætlað að ríða af stað stundvíslega kl: 14:00. Eftir reiðtúr verður grillað og farið í leiki. Innifalið í ferðinni er nesti fyrir daginn, kvöldverður og grillaðir smores í eftirrétt. Annað maul þarf hver að sjá um fyrir sig og sína. Taka þarf með sér hest, reiðtygi s.s. hnakk og beisli og getur hnakktaska verið góður kostur. Muna að klæða sig eftir veðri. Einn vel þjálfaður hesta á mann dugar fyrir ferðina. Allir hestar þurfa að vera nýlega járnaðir. Að gefnu tilefni viljum við taka fram að hestar eiga að vera á sumarskeifum. Þátttakendur eru beðnir að gæta hófs í hrossafjölda.

Riðið verður hringur frá Skógarhólum með alls þremur stoppum. Riðið frá Skógarhólum sem leið liggur að eyðibýlinu Hraunkoti. Þaðan er riðið áfram í gegnum þjóðgarðinn að eyðibýlinu Skógarkoti þar sem snætt verður nesti. Frá Skógarkoti er riðið vestur að Þingvöllum og upp Stekkjargjá og er þriðja stopp fljótlega eftir að upp er komið úr gjánni. Þaðan er svo riðið aftur að Skógarhólum. Áætluð dagleið er u.þ.b. 15 km.

Gert er ráð fyrir 20 manns samkvæmt núgildandi takmörkunum á samkomum en sá fjöldi eykst með rýmkun á þeim takmörkunum. Gert er ráð fyrir að ef fullt verður í ferðina verði hægt að skrá sig á biðlista. Ekki er gert ráð fyrir neinu staðfestingargjaldi við skráningu. Í raun liggur að svo stöddu einungis dagsetning ferðarinnar og reiðleið fyrir en kostnaður mun koma til með að vera reiknaður út þegar skráningu lýkur. Sendur verður póstur á þá sem skrá sig og hafa þá þátttakendur eina viku til að greiða fyrir ferðina eða afskrá sig. Fyrirspurnum varðandi ferðina má senda á aeskulydsnefnd@sorli.is. Þeir sem ekki greiða innan greiðslufrests verða afskráðir.

Tekið er á móti skráningum í ferðina á aeskulydsnefnd@sorli.is til 24. maí.

Vinsamlega athugið!
Að um er að ræða takmarkaðan fjölda þátttakenda eins og stendur svo fyrstur pantar fyrstur fær.
Að öll börn sem fara í ferðina verða að vera skráð félagar í Sörla.
Að öll börn þurfa að hafa a.m.k. eitt foreldri/forráðamann með sér í ferðina.
Að hjálmaskylda er í ferðinni!
Að neysla áfengis og annara vímuefna er stranglega bönnuð í ferðinni.
Að hvorki æskulýðsnefnd né Sörli bera ábyrgð á þátttakendum.
Að hver og einn ber ábyrgð á sinni eigin slysa- og ferðatryggingu. 
Að Sörli tekur ekki ábyrgð á meiðslum á hrossum sem alltaf geta komið upp í stóru stóði.
Að greiða þarf fyrir ferðina innan viku eftir að endanlegt verð í ferðina liggur fyrir.
Að vegalengd er áætluð og fyrirvari gerður um breytingar.