Framkvæmdir á haustdögum

Allt að gerast 

Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni hér á félagsvæði Sörla að í byrjun nóvember var farið í endurbyggingu á Laugarvegi, Skógarhring og Hraunhring. Vegirnir voru heflaðir og ræst út úr köntum, efni var keyrt í þá og Laugavegurinn hækkaður og réttur af. Einnig var hluta af efninu fyrir neðan Hlíðarþúfur keyrt í gamla Kaldárselsveginn og hann lagaður. Þessi árstími er kannski ekki heppilegasti tíminn til að ráðast í jarðvegsframkvæmdir en hafðist þrátt fyrir leiðinlegt veður á meðan á framkvæmdum stóð. En það var löngu kominn tími á bráðnauðsynlegt viðhald því þessi mannvirki lágu undir skemmdum. Við erum því afar þakklát fyrir þessa framkvæmd og einstaka tillitsemi félagsmanna á meðan á framkvæmdunum stóð. 

Búið er að koma upp rafmagnsinntaksskáp við viðrunarhólfið við hliðna á Hlíðarþúfum. Í hann er komin smáheimtaug, tafla og rafstöð sem á að sjá viðrunarhólfunum við Hlíðarþúfur og á Bleiksteinshálsi fyrir rafmagni. Núna er allt klárt fyrir næst vor og sumar. Búið er að klára að girða af helminginn af svæðinu sem við fengum til afnota og búið er að keyra heilmikinn skít þangað sem á að nýta til uppgræðslu. Tíðin hefur samt ekki verið heppileg í haust til þess að undirbúa uppgræðslu sökum rigninga en stefnt er að því að bæta úr því þegar frost verður komið í jörðu.

Ákveðið var að bæta lýsingu við hvíta gerðið og hringgerðið við Sörlastaði til þess að nýtingin á þeim geti orðið betri yfir vetrartíman. Einnig var bætt við efni í bæði gerðin. Það er löngu ljóst að reiðhöllin okkar er allt orðin allt of lítil og að okkur vantar fleiri kennslustofur. Við höfum þurft að færa kennslu út í gerði, sem er allt í lagi ef veður er skaplegt, en þá er betra að hafa lýsinguna í lagi.  Einnig höfum við fengið afnot af minni reiðhöllum hér á svæðinu fyrir Pollanámskeið og Reiðmennskuæfingar. Við höfum fengið að skjóta hópum inn í höllina í hesthúsinu hans Helga í Góu, höllina hjá Íshestum og Atla Guðmunds og höllina hjá Önnu Björk og Snorra og erum við afar þakklát fyrir það. Við erum svo sannarlega að reyna að hafa námskeið fyrir alla og þá skarast tímarnir í okkar alltof litla húsnæði. Það er því samstaða okkar frábæru félagsmanna að lána okkur aðstöður sínar sem gerir okkur kleift að halda þessu frábæra starfi gangandi.

Nýverið fengum við mælingamann frá Eflu verkfræðistofu til að mæla skeiðbrautina okkar og setja niður fasta punkta. Grafnir voru niður steyptir steinar í 0 punkti, 100 m, 150 m, 200 m og 250 m og settir niður fastir punktar í steinana. Brautin okkar er orðin svo góð að það er eins gott að hafa þessa hluti í lagi þegar stóru og eftirsóttu metin fara falla.

Farið var í smávægilegar framkvæmdir í hesthúsinu í reiðhöllinni. Tekin voru niður milligerðin þar sem básarnir voru og búið til geymslu pláss fyrir æfingatækin sem voru keypt til að auka fjölbreytni á æfingum og námskeiðum hjá félaginu.

Nýr vefur var tekinn í notkun í lok október. Almenn ánægja er með nýja vefinn og þykir hann aðgengilegur og notendavænn. Mikið af efninu af gamla vefnum er komið inn en ekki allt en það á eftir að koma inn smátt og smátt á næstu vikum. Við viljum þakka Jóni Ágústi þá miklu vinnu sem hann leggur á sig fyrir okkur við gerð vefsins.

Á milli jóla og nýárs stendur til að loka höllinni í einn dag (vonandi ekki lengur) því þá á að ráðast í að skipta um neðstu spýturnar á böttunum í reiðhöllinni. Einnig verður fljótlega sett upp myndavélakerfi í höllina og hesthúsið svo hægt sé að fylgjast með því sem er í gangi hverju sinni í höllini. Þessi aðgerð er fyrst og fremst gerð öryggisins vegna og með félagsmenn í huga því ef það yrði óhapp sem enginn yrði vitni að verður hægt að skoða það og bregðast við. Að sjálfsögðu vinnum við stöðugt að því að minnka möguleika á óhöppum en stjórn og framkvæmdastjóri eru þeirrar skoðunar að og myndavélabúnaður geti aukið öryggi. Að þessu sögðu viljum við þakka félagsmönnum sérstaklega fyrir að virða 4 manna regluna á reiðgólfinu sem er klárlega ein af þeim aðgerðum sem hjálpa til við að minnka slysahættu.

Í öllu þessu stússi koma að margir sjálboðaliðar félagsins og viljum við þakka þeim öllum vel fyrir, án þeirra væri lítið framkvæmt.

 Áfram Sörli