Haustdagar

Pistill 

Í upphafi langar okkur að þakka öllum þeim frábæru knöpum, ungum sem öldnum, fyrir þátttöku í mótum ársins. Sörli skartar frábæru fólki sem er að keppa úti um allt land og er allsstaðar til fyrirmyndar. Því miður hefur ekki gefist tími til að birta úrslit allra í sumar vegna sumarleyfa en við höfum samt gert okkar besta yfir vetrartímann. Við viljum samt að fólk viti að við erum afar stolt af öllum þeim sem taka þátt í mótum og halda uppi nafni Sörla. Við stefnum á að fara í hönnunarvinnu á nýjum keppnisjökkum fyrir Sörla í vetur því við ætlum að sjálfsögðu að vera sýnileg sem félagsmenn í svo flottu félagi.

Það er allt komið á fullt hjá Sörla og enn á eftir að bætast í okkar frábæru dagskrá.

Nefndir

Nefndir hafa tekið til starfa við mikla og metnaðarfulla dagskrá sem enn er að bætast í. Nefndarmenn eru stórhuga þó að aðstöðuleysi okkar sé farið að verða okkur ansi mikill fjötur um fót í starfinu. Við erum því spennt fyrir því að geta komið öllu fyrir með tilkomu nýrrar reiðhallar sem er alveg handan hornsins.

Félagshús

Félagshús Sörla fór af stað í september og það er skemmtilegt að sjá bæði ný og ,,eldri“ andlit á staðnum. Nýir umsjónamenn félagshúss eru Sigríður Breiðfjörð Róbertsdóttir og Sunníva Hrund Snorradóttir og hlökkum við mikið til samstarfsins við þær. Eins og alltaf þegar nýtt fólk tekur við stjórn verða eðlilega einhverjar áherslubreytingar þó svo að haldið verði í það gamla og góða starf sem búið var að þróa af forverum. Sörli stóð fyrir opnu húsi í félagshúsi Sörla í lok september þar sem fólk gat komið og kynnt sér starfsemina. Það er alltaf gaman að fá gesti og hugsanlega höfum við sambærilegt boð síðar í vetur og tengjum það við starf Æskulýðsnefndar.

Reiðmennskuæfingar unga fólksins

Reiðmennskuæfingar unga fólksins fóru einnig af stað í september. Þær eru 2x í viku fram á vor. Verkleg kennsla hófst 4. október en í september var um að ræða blöndu af bóklegum tímum og líkamlegum æfingum sem nauðsynlegar eru í bland. Unga fólkið okkar er metnaðarfullt og var farið að reka á eftir því að byrja. Við sjáum þau vaxa sem reiðmenn og öðlast þekkingu sem miklu betri hestamenn, ár frá ári. Að auki má sjá að þau hafa myndað félagsskap í íþróttinni sem er ómetanlegur þegar fram í sækir. Þjálfarar yngri flokka eru undir ábyrgð og skipulagningu yfirþjálfara Sörla en hann sér einnig um gerð námsskrár. Þjálfararnir eru þau Sigurður E. Ævarsson og Anna Björk Ólafsdóttir sem bæði hafa áralanga og víðtæka reynslu af hestamennsku. Sigurður og Anna Björk hafa bæði lokið viðeigandi réttindum til þjálfunar, bæði hjá ÍSÍ og sérsambandi LH. Þar sem að metnaður okkar liggur í því að mennta unga fólkið í faglegri reiðmennsku bætum við inn í Reiðmennskuæfingar eftir því sem börnin taka inn hesta sína. Allar upplýsingar veitir Hinrik Þór Sigurðsson yfirþjálfari. Hægt er að senda á hann tölvupóst á netfangið hinriksigurdsson@gmail.com

Mynd frá því í sumar á Íslandsmóti barna og unglinga, þegar skóflustungan var tekin fyrir nýju reiðhöllinni okkar.

Knapamerki

Hins sívinsælu Knapamerki 2, 3 og 5 hófust einnig í september undir leiðsögn Ástu Köru Sveinsdóttur og Ástríðar Magnúsdóttur. Knapamerkin eru gott nám og góður undirbúningur í reiðmennsku sem lýkur með prófi í lok hverrar kennslulotu sem er mislöng eftir því á hvaða stigi hver nemandi er.

Reiðmennskuæfingar fullorðinna

Reiðmennskuæfingar fullorðinna hefjast 18. október og standa fram á vor. Í ár eru æfingarnar svo vinsælar að loka þurfti fyrir skráningu aðeins nokkrum klukkustundum eftir að opnað var fyrir hana. Fjöldi fólks er á biðlista. Reiðmennskuæfingar hafa haft þau áhrif að Sörlafólk er farið að taka fyrr inn en ella og líf og fjör færist yfir hverfið strax á haustdögum. Dæmi eru um að nemandi frá því í fyrra hafi viljað kaupa fleiri en eitt pláss svo vinsælt er þetta hjá þeim sem hafa reynslu frá fyrra ári. Þjálfarar fullorðinna eru þeir Hinrik Þór Sigurðsson reiðkennari og yfirþjálfari Sörla og Snorri Dal reiðkennari.

Hugrakkir hestar og öruggir knapar

Nýtt og afar áhugavert helgarnámskeið verður haldið dagana 19.-21. nóvember. Um er að ræða námskeið sem töluverð eftirspurn hefur verið eftir. Við nefnum námskeiðið ,,Hugrakkir hestar og öruggir knapar“. Námskeiðið er um samband, skilning og virðingu á milli manns og hests þar sem markmiðið er að knapinn fái betri skilning á hvernig hegðun knapa og aðstæður hafa áhrif viðbrögð hestsins.

Frumtamninganámskeið

Frumtamninganámskeið með Robba Pet er fyrirhugað á haustmánuðum og hefst það strax í byrjun nóvember. Robbi er alltaf vinsæll en við vorum með þetta námskeið á dagskránni í fyrra en urðum frá að hverfa vegna Covid.

Reiðmaðurinn

Reiðmaðurinn á vegum LBHÍ er hafinn. Um er að ræða seinna ár af Reiðmanni 1. Reiðmaðurinn hefur verið vinsæll meðal Sörlafólks og vonum við að nýr hópur hefjist næsta haust.

Aðalfundur

Aðalfundur félagsins fór fram 21. september. Hann var vel sóttur þó svo að við viljum alltaf sjá fleiri. Við viljum hvetja félagsmenn til að koma endilega á aðalfund til að heyra hvað okkar frábæru sjálfboðaliðar hafa lagt ómælda vinnu í hin ýmsu verkefni og skemmtanir fyrir félagsmenn. Eftir fundinn var ekki annað hægt en að segja að við Sörlafólk getum borið höfuðið hátt yfir ótrúlegu og driftugu starfi. Samantektin á því sem gert hafði verið var hreint út sagt ótrúleg og við vorum samt að slást við Covid ástand. Heyrst hefur að það sé hugur í fólki og að við eigum eftir að sjá enn meira starf í vetur en í fyrra. Nefndarmenn og aðrir sjálfboðaliðar Sörla sem unnið hafa hörðum höndum að frábæra starfinu okkar verða fljótlega boðaðir til smá gleði að Sörlastöðum og hlökkum við öll til.

Skötuveisla

Við ætlum að sjálfsögðu að hafa skötuveislu sem margir hafa saknað í Covid ástandi. Hún er algjörlega ómissandi í aðdraganda jóla.  

Árs- og uppskeruhátíð

Framundan er glæsileg Árs- og uppskeruhátíð Sörla 2021. Barna- og unglinga árshátíðin verður haldin á Sörlastöðum 5. nóvember og fyrir fullorðna verður hátíðin 6. nóvember. Takið dagana frá, við ætlum öll að mæta í okkar allra fínasta pússi og gera okkur glaðan dag eins og Sörlafólki er einum lagið.