Hestamannafélagið Sörlu hlaut Æskulýðsbikar LH

Eftirsótt verðlaun 

æskulýðsbikar LH
Ásmndur Einar Daðason, mennta og barnamálaráðherra, Atli Már Ingólfsson formaður Sörla og Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir, formaður Æskulýðsnefndar LH

Síðastliðna helgi var Landsþing hestamanna haldið. Á því þingi fékk Hestamannafélagið Sörli æskulýðsbikar LH, en þau eftirsóttu verðlaun eru afhent því félagi sem hefur þótt skara fram úr með sínu æskulýðsstarfi á undangengnu starfsári. Þetta er ein sú æðsta viðurkenning sem hægt er að hljóta fyrir æskulýðsstarf.

Eins og fram kom við verðlaunaafhendinguna þá telur valnefnd Æskulýðsnefndar LH að öflugt æskulýðsstarf skili sér í öflugum hestamönnum framtíðar. Framtíðargrasrót félaganna myndast í unga fólkinu og nefndin heldur því staðfastlega fram að æskulýðsstarfið sé mikilvægasta starf hvers félags.

Hestamannafélagið Sörli hlaut viðurkenninguna fyrir mjög metnaðarfullt og öflugt starf en margir viðburðir voru haldnir fyrir alla aldurshópa æskunnar, jafnt með og án hesta. Það er öflugt og gott æfinga- og námskeiðshald hjá félaginu. Krakkarnir þar geta stundað reiðmennskuæfingar frá hausti fram á vor og félagshús er einnig starfrækt allan veturinn en þar geta krakkar stigið sín fyrstu skref í hestamennsku og eykur það nýliðun hjá félaginu. Félagið er með æskulýðsráð sem starfar með Æskulýðsnefnd, þau virkja krakkana með í allskyns sjálfboðaliðastarf meðal annars aðstoðuðu þau við að setja upp TREC braut þar sem félagsmenn geta æft sig. Farið var í fjölskylduferð á Skógarhóla en þar nýttu þau aðstöðu Landssambansins, fóru í góða reiðtúra og nutu skemmtilegrar samverustundar.

Stjórn og framkvæmdastjóri félagsins óskar Æskulýðsnefnd Sörla innilega til hamingju með þessa frábæru viðurkenningu á okkar mikla og öfluga æskulýðsstarfi.

Áfram Sörli