Við hjá Sörla ákváðum að skella í jólaskreytingakeppni þetta árið til að lífga upp á hesthúsahverfin. Þetta var fyrst og fremst til gamans gert nú á þessum sérstöku tímum þar sem erfitt er að gera eitthvað gaman saman. Æskulýðsnefnd hefur staðið fyrir aðventurölti með börnum félagsins á sunnudögum í desember og núna, fjórða í aðventu, fóru þau með krökkunum og dæmdu í skreytingakeppninni. Það var virkilega gaman að sjá hvað margir tóku þátt og þessi keppni er eflaust komin til að vera. Við viljum því benda á að nú er lag að birgja sig upp af jólaskrauti á útsölum til að geta skreytt vel hjá sér að ári.
Það var 100 hringurinn í Hlíðarþúfum og Sörlaskeið í efri byggð sem vann keppnina í hverfunum.
En flottasta, best og mest skreytta húsið var Sörlaskeið 21. Fengu húseigendur flott Sörlateppi frá Kidka að gjöf.
Takk kærlega þið sem tókuð þátt í ár. Við verðum að vera dugleg að finna upp á einhverju sniðugu í staðinn fyrir okkar frábæru föstu liði sem falla niður vegna COVID. Því miður getum við ekki haldið okkar árlegu skötuveislu né gamlársdags hópreið í 10 manna takmörkunum.
Við erum sannfærð um að árið 2021 verður frábært. Við finnum okkur eitthvað skemmtilegt sem má gera t.d ætlum við að vera með rafræna árshátíð og verðlaunaafhendingu fyrir fullorðna 16. janúar n.k. Þann 15. janúar ætlum við svo að vera með árshátíð í salnum fyrir unga fólkið okkar, ef takmarkanir sóttvarnarlæknis breyta því ekki.
Takið kvöldin frá! Þetta verður ROSALEG veisla!!!
Höldum áfram að halda reglur sóttvarnarlæknis svo að við fáum að halda öllu opnu og starfinu eins eðlilegu og hægt er. Sprittum okkur og njótum hátíðanna með okkar nánustu.
Sjáumst svo í jólaskapi á reiðgötunum og í höllinni um jólin.
Fyrstu fjórar myndirnar eru af vinningshúsinu, hinar myndirnar eru úr báðum hverfunum.