Jón Ingi Hannesson Sörlafélagi er 85 ára í dag

Stórafmæli 

Jón hefur verið með hesta í Sörla síðan 2006 en hafði fyrr á ævinni haft hesta í Fáki. Þau Elna konan hans eru nú með fimm hesta á húsi í hesthúsi sínu í Hlíðarþúfum og ríða að jafnaði út nokkrum sinnum í viku yfir vetrarmánuðina og fram á vorið.

Hestaferðir á sumrin eru fastur liður hjá þeim. Þau hafa farið í allar Sörlaferðir frá 2009 nema eina. Auk Sörlaferða fara þau í lengri ferðir, stundum fleiri en eina á sumri. Kjölur, Fjallabak og Sprengisandur hafa verið þar á meðal auk ferða í byggð í öllum landshlutum ef frá er talið Austurland. Þessar ferðir eru farnar með stórum hóp hestafólks sem kemur úr ýmsum áttum og er á öllum aldri frá unglingum upp í öldunga. Síðasta sumar var endað á frábærri ferð inn á fjöll, um Mælifellssand og Skaftártungur, yfir Dyrhólaósinn og endað í Vestri Pétursey.

Jón er eflaust elsti Sörlafélaginn sem ríður enn út og er virkur í félagsstarfi Hestamannafélagsins Sörla.

Við hjá Hestamannafélaginu Sörla óskum Jóni innilega til hamingju með stórafmælið í dag.