Kæru Sörlafélagar

Frá yfirþjálfara 

Kæru Sörlafélagar

Það er mér sönn ánægja að hafa verið ráðin í starf yfirþjálfara hjá Hestamannafélaginu Sörla. Ég brenn fyrir kennslu og nýt þess að sjá nemendur vaxa og dafna í hestamennsku. Það er stórt skarð að fylla í og vonast ég til að standa mig vel. Jafnframt vil ég óska fráfarandi yfirþjálfara honum Hinriki góðs gengis.

Haustönn byrjar vel og er nú þegar byrjuð kennsla í Knapamerkjum 2, 3 og 4. Skráningar á reiðmennskuæfingar yngri flokka og fullorðna fara vel af stað. Boðið er uppá frumtamningarnámskeið líkt og í fyrra, gífurlegur áhugi er fyrir því þar sem það fylltist strax á námskeiðið og mun það standa yfir núna næstu 4 vikurnar.

Félagshesthúsið orðið fullt af hressum og kátum krökkum, ýmist með sín eigin hross eða lánshross og starfið gengur þar ljómandi vel.

Einnig hefur verið auglýst námskeið í Knapaþjálfun hjá Bergrúnu Ingólfsdóttur sem er helgarnámskeið þar sem lagt er áherslu á líkamsbeitingu knapans með og án hests. Bergrún er reiðkennari frá Háskólanum á Hólum ásamt því að vera einkaþjálfari frá ÍAK. Þetta námskeið er frábær og nauðsynleg viðbót við þau námskeið sem hafa staðið til boða. Námskeiðið fylltist strax og kominn er biðlisti.

Helgarnámskeið með Atla Guðmundsyni og Krakkanámskeið - fyrir okkar yngstu og óreyndustu knapa verða einnig nú á haustönn og verða auglýst fljótlega.

Það er gaman að sjá hversu mikill áhugi er hjá félagsmönnum að sækja sér þekkingu og kennslu með hesta sína. Maður er aldrei fulllærður sem reiðmaður og því mikilvægt að sækja sér þekkingu og fleiri verkfæri til þjálfunar þegar maður getur. Í vetur munum við gera okkar besta í að bjóða uppá fjölbreytt helgarnámskeið til að auka þekkingu og færni hjá okkar frábæra fólki.

Jafnframt stendur til að samræmast með öðrum fræðslunefndum hestamannafélagana á höfuðborgasvæðinu um sýnikennslur og fræðsluviðburði á komandi vetri. Þannig ættu allir að geta fundið sér eitthvað við sitt hæfi.

Á nýliðnu tímabili innleiddi Sörli, fyrst félaga á Íslandi afreksstefnu Sörla – yngri flokka eftir fyrirmynd ÍSÍ. Afrekstefnan inniheldur námskerfið frá grasrótinni og uppí afreksknapa í íþróttinni.

Afrekstefnan leiðir iðkendur í gegnum allt námskeiðahald félagsins, allt frá grunni upp í afreksmiðað keppnisnám og skiptist í Reiðmennskuæfingar (öllum opnar), hæfileikamótun (að uppfylltum skilyrðum um keppnisþátttöku) og afrekshóp (að uppfylltum skilyrðum um árangur í keppni á stærri mótum).

Afrekshópurinn sjálfur var valinn í kjölfarið af því að afrekstefnan var sett á laggirnar í lok febrúar síðastliðnum og samanstóð af 10 knöpum sem uppfylltu skilyrði um afrekshópinn. Nú um þessar mundir er verið að skoða hverjir uppfylla skilirði til að vera í þeim hópi á komandi tímabili og skipuleggja æfingar þess hóps ásamt keppnisakasemíu og reiðmennskuæfingum en þær eru í raun grunnurinn að afrekstefnunni í heild.

Að því sögðu hlakkar mig mikið til komandi tímabils og hlakka til að hitta ykkur á ferðinni um okkar frábæra svæði sem verður brátt eitt það flottasta á landinu.

Bestu kveðjur,
Ásta Kara
yfirþjálfari Sörla