Keppnistímabilið heldur áfram

Árangur síðustu daga 

Karlatölt Spretts. 3. flokkur T7 - Elvar Þór og Sigurey í 2. sæti og Ólafur og Sturla í 3. sæti.

Nú er innanhússtímabilinu að ljúka og á sama tíma eru löglegu útimótin að hefjast af fullum krafti.

Fyrsta útimótið er íþróttamót Mána í Keflavík sem er opið mót og við vitum til þess að þó nokkrir Hafnfirðingar ætli sér að taka þátt þar bæði í yngri flokkum og fullorðinsflokkum.

Sjóvámótaröðinni hjá Sörla lauk í blíðskaparveðri á Sörlavöllum á sumardaginn fyrsta og framundan eru Nýhestamót og svo er Hafnarfjarðameistaramótið á næsta leyti.

Um helgina fór fram lokamótið í Vestulandsdeildinni þar sem nokkrir Hafnfirðingar hafa gert góða hluti.
Friðdóra Friðriksdóttir reið sig inn í A- úrslit á Hallsteini frá Hólum og endaði þar í 5. sæti að loknum úrslitum. 
Snorri Dal og Aris frá Stafholti komust í B-úrslit og enduðu í 9. sætinu og Anna Björk Ólafsdóttir tók einnig þátt en komst ekki í úrslit.
Það var líka keppt í skeiði gegnum höllina í Borgarnesi þar sem Friðdóra og Snorri tóku bæði þátt.

Kvennatölt Spretts og Mercedes er orðið árlegur risaviðburður þar sem hestakonur af öllu landinu flykkjast og taka þátt. Mótið fór fram á laugardaginn, 22 apríl en daginn áður fór fram Karlatölt Spretts sem er að verða fast í sessi daginn fyrir kvennatöltið. Á karlatölti Spretts tóku Elvar Þór Björnsson og Ólafur Kristjánsson þátt í T7 í 3. flokki.  Þeir riðu sig báðir inn í úrslit þar sem Elvar landaði 2. sæti á Sigurey frá Flekkudal og Óli því þriðja á Sturlu fra Syðri-Völlum. Í T7 2. flokki voru Eyjólfur Sigurðsson og Flinkur frá Áslandi meðal þátttakenda og enduðu rétt utan við úrslitin.

Í kvennatöltinu á laugardeginum var keppt í mörgum flokkum og í T7 komust þær Lilja Hrund Harðardóttir á Hrund frá Síðu og Sigga Sigþórs á Skili frá Hnjúkahlíð í A-úrslit, Lilja og Hrund enduðu í 2. sæti og Sigga og Skilir í því fjórða eftir úrslitin. Hjördís Emma Magnúsdóttir á Prinsessu frá Grindavík og Kristín Þorgeirsdóttir á Nóa frá Áslandi komust báðar í B-úrslitin og Hjördís endaði í 8. sæti og Kristín í því 9. Aðrir keppendur voru Guðrún Björk Bjarnadóttir á Gyðju, Þórdís Anna Oddsdóttir á Fáki, Hanna Blanck á Kiljan, Sigríður Kristín Hafþórsdóttir á Núma og Katrín Ingvadóttir á Gefjunni.

Í T7 3. flokki  komst Jóhanna Ólafsdóttir í A-úrslit á Gáska frá Hafnarfirði  þar sem þau enduðu í 5. sæti eftir úrslitin. Auk hennar tóku Ásta Snorradóttir á Kolfinnu, Svanbjörg Vilbegsdóttir á Gjöf, Rakel Gísladóttir á Glampa, Eyrún Guðnadóttir á Ægi, Margrét Á Sigurðardóttir á Hrappi og Aðalheiður Jacobsen á Lúkasi þátt.

Í T3 í 3. flokki komst Sunna Þuríður í B-úrslit á Túliníusi frá Forsæti II og endaði í 7. sætinu og auk hennar tók Bryndís Daníelsdóttir þátt á Vigdísi frá Aðalbóli1.

Í T3 í 2. flokki María Júlía á Vakanda og Brynhildur Gígja á Didda á meðal keppenda en þær komust ekki í úrslit að þessu sinni.

Í T3 í 1. flokki komst Didda Ingólfs í A-úrslit á Ásvari þar sem þau enduðu í 4. sæti að loknum úrslitum. Auk hennar voru Inga Kristín Sigurgeirsdóttir á Gutta og Þorgerður Gyða Ásmundsdóttir á Nínu meðal þátttakenda.

Við óskum öllum þessum flottu knöpum til hamingju með helgina og höldum áfram að fylgjast spennt með nú þegar útitímabilið gengur í garð.