Keppnistímabilið heldur áfram af fullum krafti.

Deildirnar halda áfrm 

Sara Dís og Engill

Á liðnum vikum hafa fjölmörg mót farið fram og okkar í Sörla fólk hefur sannarlega ekki látið sitt eftir liggja og verið ansi iðin við að taka þátt og oft með frábærum árangri.

Það er sérstaklega gaman að fylgjast með ungu knöpunum okkar sem eru að standa sig vel og við ætlum að halda áfram að gefa rapport úr mótahaldinu.

Í byrjun mars fór fram slaktaumatölt í áhugamannadeild Spretts, Samskipadeildinni. Þorgerður Gyða Ásmundsdóttir á Nínu sinni frá Áslandi stóð sig ljómandi vel og komst inn í B-úrslit þar sem þær stöllur enduðu í 8. sæti.

Aðrir Sörlafélagar sem tóku þátt þar voru Kristín Ingólfs, Bjarni Sigurðsson og Darri Gunnarsson.

Svanbjörg Vilbergs og Tristan Lavender héldu svo áfram á K.B. mótaröðinni í Boragarnesi þar sem töltið fór fram. Svana og Eyrún enduðu í 3 sæti í T7 2. flokki og Tristan endaði fjórði í T3 unglinga á henni Gjöf.

Blue Lagoon mótaröðin hélt áfram þann 6. mars og að þessu sinni var það fimmgangur sem var á dagskrá.

Sara Dís Snorradóttir gerði sér lítið fyrir og sigraði fimmgang unglinga með glæsibrag eftir smá hnökra í forkeppni. Þau Engill frá Ytri-Bægisá áttu feiknagóða sýningu í úrslitum og uppskáru sigurinn mið 6,81 í einkunn.

Júlía Björg Gabaj Knudsen á Muggu var einnig í úrslitum og þær enduðu í þriðja sæti unglingaflokksins.

Aðrir knapar sem tóku þátt voru Árný Sara Hinriksdóttir, Bjarndís Rut Ragnarsdóttir og Ögn Hanna Kristín Guðmundsdóttir.

Slaktaumatölt Vesturlandsdeildarinnar fór fram síðastliðinn föstudag og þar voru það Friðdóra Friðriksdóttir og Bylur frá Kirkjubæ sem gerðu góða ferð og enduðu í 3. sæti eftir A-úrslitin. Anna Björk Ólafsdóttir og Snorri Dal tóku einnig þátt en komust ekki í úrslit að þessu sinni.

Á sunnudaginn fór svo fram töltkeppni Meistaradeildar Æskunnar í Víðidal. Eftir forkeppni vildi svo óvenjulega til að 5 knapar voru jafnir í 1. sæti með 7,0 í einkunn. Meðal þeirra var Kolbrún Sif Sindradóttir á Hallsteini frá Hólum.

Kolbrún og Hallsteinn enduðu í 3. sæti eftir góða sýningu í úrslitum í ótrúlega sterkum unglingaflokki.

Sara Dís Snorradóttir komst í B-úrslit  og endaði í 9. sæti á Aris frá Stafholti og aðrir knapar voru Fanndís Helgadóttir og Bjarndís Rut Ragnarsdóttir.

Endilega haldið áfram að senda okkur línu þegar þið sjáið Sörlverja á ferðinni á mótum vetrarins. Við fylgjumst öll spennt með.  

Áfram Sörli