Kveðja frá yfirþjálfara

Frá Yfirþjálfara Sörla 

Góðan dag félagar.

Nú er haustið handan við hornið og verkefnin okkar fyrir komandi tímabil að komast á fullan skrið. Hestamennskan er eins og við öll höfum upplifað alveg ótrúleg íþrótt, listgrein eða hreinlega lífsstíll. Þegar við þjálfum hest finnst mér gott að sjá það fyrir mér í raun frá tveimur sjónarhornum. Í fyrsta lagi eru hesturinn og manneskjan ólík, og fyrsta áskorun er að finna út úr því hvernig við getum gert okkur skiljanleg við hestinn og búið til tungumál okkar á milli sem báðir skilja? Því grundvöllur alls sem framundan er með hestinn er að hann fái tækifæri til þess að skilja til hvers er ætlast.

Í öðru lagi er það sú áskorun að þegar á bak er komið verðum við að hjálpa hestinum með það að hann hreyfi sig undir knapa á þann hátt að það fari vel með hann. Að hann hreyfi sig rétt, byggi styrk í rétta vöðva og endist þar með sem reiðhestur án þess að slíta sér út.

Þessar tvær pælingar eru í raun þau grunngildi sem allir hestamenn ættu að hafa hugfast þegar haldið er af stað. Ef vel á að vera þurfa allir að hafa góðan skilning og kunnáttu á þessum atriðum og ég er alveg tilbúinn að fullyrða að það gefur hestamanni/konu ótrúlega mikið í sambandi sínu við hestinn.

Nú að efninu, það er nauðsynlegt okkur öllum að þekking og kunnátta sé almennilega aðgengileg þeim sem hana vilja sækja.

Ég var fyrr í sumar ráðinn til liðs við félagið sem yfirþjálfari, og mun sjá um skipulag æfinga og námskeiðahalds hjá okkur sem aðstoð við stjórn, fræðslunefnd og æskulýðsnefnd. Það eru ótrúlega spennandi tímar framundan hjá okkur og ég hlakka gríðarlega mikið til þess að komast af stað með vetrarstarfið. Það helsta sem framundan er nú á næstunni er að í september byrja Reiðmennskuæfingar Sörla. Reiðmennskuæfingarnar eru aldursskiptar þar sem knapar fá breiða þjálfun í reiðmennsku, bæði bóklega og verklega. Fyrst um sinn er áhersla lögð á bóklega kennslu og verklegar æfingar án hests. Í nóvember byrja svo reiðtímar á eigin hestum. Við munum einnig bjóða upp á hópa í Reiðmennskuæfingunum fyrir fullorðna, þetta er alls ekki einskorðað við æskulýðsstarfið, en fullorðinshóparnir byrja rétt fyrir jólin. Bóklegu tímarnir sem haldnir verða hjá fullorðinshópnum verða opnir öllum félagsmönnum að kaupa sig inn á til þess að fá innblástur og er ekki bindandi á nokkurn hátt varðandi aðra þátttöku í námskeiðunum. Bara í raun í boði að koma og taka þátt í stökum bóklegum tímum til þess að fræðast og fá innblástur (Þó háð samkomutakmörkunum vegna Covid 19).

Knapamerkin verða áfram öflugur liður í námskeiðahaldi hjá félaginu eins og þau hafa í mörg ár skipað sess hjá okkur.

Fræðslunefndin verður með heilmikla dagskrá sem kynnt verður á komandi vikum.

Á þriðjudaginn 1. september klukkan 19:00 verður haldinn kynningarfundur þar sem námskrá og framkvæmd Reiðmennskuæfinganna verður kynnt, og skráning opnar í kjölfarið. Þar munum við einnig fara yfir þetta hlutverk yfirþjálfara og markmið þess fyrir félagið. Vegna samkomutakmarkana og fjarlægðarmarka verður þessi fundur eingöngu í streymi gegnum netið, en opið fyrir að senda inn spurningar á streymið á meðan á fundinum stendur og fá svör á streyminu. Ég verð svo aðgengilegur á Sörlastöðum til viðtals eftir þörfum á ákveðnum tímum sem við auglýsum sérstaklega.

Ég hvet félagsmenn til þess að fylgjast með fundinum og þeim upplýsingum sem koma í kjölfarið, og ef einhverjar vangaveltur vakna sem þið viljið spjalla um við mig þá er um að gera að hafa bara samband við mig í síma eða á tölvupósti. Hlakka til samstarfsins með ykkur öllum með von um að við getum í sameiningu haldið merki hestamannafélagsins Sörla hátt á lofti sem leiðandi afli í menntamálum hestamanna.

Bestu kveðjur,
Hinrik Þór Sigurðsson
Yfirþjálfari
S: 695 9770
aefingar@sorli.is

Hinrik Þór Sigurðsson
Hér sjáum við prýðilega ásetu