Landsmót nálgast

Okkar frábæru keppendur 

Nú í næstu viku hefst Landsmót Hestamanna í Reykjavík.

Landsmót er ávallt stórviðburður eins og allir hestamenn þekkja og það er gaman að spá í spilin eftir vortímabilið og inn í LM vikuna með okkar fólk í huga þar sem Hestamannafélagið Sörli á fjölda fulltrúa á mótinu bæði í Gæðinga- og íþróttakeppni mótsins.

Hestamannafélagið Sörli er eitt af fjölmennari félögum landsins og eftir úrtökur sem fram fóru í lok maí/byrjun júní á félagið leyfi til þess að senda 9 keppendur í hvern flokk gæðingakeppninnar.

Það er því ljóst að það verður nóg að gera hjá landsfrægu stuðningsmannaliði Sörla í brekkunni á LM.

Í þessum greinarstúf ætlum við að gera grein fyrir því helsta í gæðingakeppninni og íþróttakeppnin verður tekin sérstaklega fyrir í annarri grein áður en mótið hefst.

Veturinn og vorið voru Sörlafélögum býsna gott tímabil í keppni ef horft er á árangur úr deildum og opnum mótum vortímabilsins.

Í Meistaradeild æskunnar og Meistaradeild ungmenna átti Sörli nokkra fulltrúa sem stóðu sig með prýði í hinum ýmsu greinum sem keppt var í þar, og voru fulltrúar frá Sörla í úrslitum í nánast öllum greinum deildarinnar.

Í áhugamannadeildinni var hið sama uppi á teningnum þar sem fulltrúar úr Firðinum gerðu gott tímabil og er mjög greinilegur stígandi í árangri liðanna sem við fylgjumst með héðan.

Fyrsta deildin hóf göngu sína á árinu og það er óhætt að segja að hún hafi ruðst inn á sviðið með látum, góðri keppni og mikilli athygli útávið.

Lið Sportfáka sem er að uppistöðu til Hafnfirskt með Snorra Dal, Önnu Björk og Ingiberg innan sinna raða, ásamt því að vera að sjálfsögðu hafnfirskt fyrirtæki gerði sér lítið fyrir og sigraði deildina að þessu sinni sem er sannarlega frábær árangur.

Á Reykjavíkurmeistaramóti má segja að Fanndís Helgadóttir hafi stolið senunni fyrir okkar hönd þegar vann til þriggja gullverðlauna á mótinu, en auk hennar voru knapar úr öllum flokkum að raða sér í verðlaunasæti á þessu stærsta opna íþróttamóti ársins.

Fleiri mótaraðir og opin mót hafa að sjálfsögðu verið í gangi yfir tímabilið þar sem Sörlamenn og konur hafa staðið sig með miklum sóma eins og til dæmis Blue Lagoon mótaröð yngri flokka, Skeiðleikar skeiðfélagsins og margt fleira en því verður gert frekari deili þegar íþróttahlutinn verður krufinn með tilliti til stöðulista ársins.

Barnaflokkur

Í barnaflokki er glæsilegur hópur Sörlakrakka skráð til leiks fyrir hönd félagsins.

Una Björt Valgarðsdóttir situr í 2-3 sæti á stöðulista flokksins inn á mótið á henni Öglu eftir frábærar sýningar í úrtökunni í vor,  en auk hennar eru bæði Ásthildur Sigurvinsdóttir á Hrafni og Elísabet Benediktsdóttir á henni Östru inni á topp 40 á stöðulistanum inn á mótið.

Aðrir keppendur sem fara fyrir okkar hönd í barnaflokki eru:

Hjördís Antonía Andradóttir á Gjöf

Guðbjörn Svavar Kristjánsson á Þokkadísi

Þórunn María Davíðsdóttir á Garúnu

Hlín Einarsdóttir á Kolbrá

Unnur Einarsdóttir á Birtingi

Það er áhguvert og gaman að sjá hversu sterkt Sörlakrakkarnir standa að víki í einkunnagjöf fyrir ásetu og stjórnun frá því á úrtökunni í vor, og ljóst að við eigum alvöru upprennandi knapa í þessum hópi sem verður virkilega gaman að fylgjast með á LM en sérstök forkeppni í barnaflokki fer fram mánudaginn 1. júlí á aðalvellinum í Víðidal, en 30 efstu keppendur úr forkeppninni fara áfram í milliriðil sem fram fer á miðvikudeginum 3. júlí.

 

Unglingaflokkur

Á landsvísu er unglingaflokkurinn algjör ljónagryfja þar sem fjöldi frábærra hesta og knapa hefur aldrei náð viðlíka hæðum. Það hefur bersýnilega sést á deildum og mótum vetarins að unglingar landsins eru verulega vel ríðandi og samkeppnin í flokknum glerhörð.

Forkeppni í unglingaflokki fer fram á þriðjudeginum 2. júlí og milliriðillinn með 30 efstu knöpum á fimmtudeginum 4. júlí.

Hestamannafélagið Sörli tekur þátt í þessum sterka unglingaflokki af fullum þunga og á úrtökunni í vor var þetta fjölmennasti flokkurinn í yngri flokkunum þar sem samkeppnin um að komast á LM var gríðarsterk.

Snæfríður Ásta og Liljar áttu stjörnusýningar á úrtökunni og fara inn á mót með fjórðu hæstu einkunn ársins hingað til á stöðulista en í topp 30 á stöðulista á Sörli hvorki meira né minna en fimm knapa.

Það eru auk Snæju þær Fanndís Helgadóttir og Garpur, Kolbrún Sif Sindradóttir og Bylur, Erla Rán Róbertsdóttir og Fjalar og  Árný Sara Hinriksdóttir og Moli.

Auk þeirra eru eftirtaldir fulltrúar inn á mót:

Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir og Gormur

Ögn H. Kristín Guðmundsdóttir og Tannálfur

Ágúst Einar Ragnarsson og Blæja

Sólveig Þula Óladóttir og Djörfung

Bjarndís Ragnarsdóttir og Tóney

Helgi Freyr Haraldsson og Hrynjandi

Til marks um stykleika flokksins í Hafnarfirði má sjá að fulltrúarnir eru fleiri en í öðrum flokkum en það er vegna þess að Bjarndís og Helgi Freyr koma inn á mótið af stöðulista þar sem 6 efstu knapar ársins sem ekki unnu sér þátttökurétt í úrtöku félagsins detta inn af stöðulistum í hverri grein, það var einkar ánægjulegt að sjá Sörlakrakka fara inn af stöðulista og næsti knapi er einnig mjög nálægt því.

 

Ungmennaflokkur

Ungmennaflokkurinn var á þessu ári mun fjölmennari en á síðasta Landsmóti þar sem liðið var ekki fullnýtt það skiptið frá félaginu.

Styrkleikinn í flokknum er líka að aukast mikið greinilega og breiddin því Sörli á fjóra knapa í topp 40 á stöðulista ársins inn á mót sem er frábær árangur.

Júlía Björg Gabaj Knudsen og Póstur eru með 13. hæstu einkunn inn á mót eftir kraftmikla sýningu á úrtökunni hjá Sörla en auk hennar eru það Sigurður Dagur á Flugari sem er nr. 18, Sara Dís á gamalreynda stólpagæðingnum Nökkva nr. 23 , Jessica Ósk á henni Eyrúnu nr. 25 og Kristján Hrafn á Úlfi er númer 35 inn á mótið.

Auk þessara knapa eru fulltrúar Sörla:

Sigríður Inga Ólafsdóttir og Draumadís

Ingunn Rán Sigurðardóttir og Skuggi

Eliza-Maria Grebenisan og Darri

Karen Ósk Gísladóttir og Dan

Með þennan hóp er von á spennandi og flottri keppni í B-flokki ungmenna þar sem þau eru með flugrúma, krafmikla hesta sem sannarlega drífa upp í brekku.

Forkeppni í ungmennaflokki fer fram mánudagskvöldið 1. júlí og milliriðill miðvikudaginn 3. júlí.

 

B-flokkur gæðinga

Í B- flokki gæðinga er samkeppnin grjóthörð en Sörli á flotta hesta í sínum hópi fulltrúa.

Fulltrúar Sörla í B-flokki eru:

Sindri Sigurðsson og Höfðingi

Adolf Snæbjörnsson og Friðdís

Ylfa Guðrún Svafarsdóttir og Þór

Eyjólfur Þorsteinsson og Óskar

Darri Gunnarsson og Draumur

Friðdóra Friðriksdóttir og Toppur

Katla Sif Snorradóttir og Gleði

Páll Bragi Hólmarsson og Tíberíus

Ylfa Guðrún Svafarsdóttir og Postuli

Forkeppni í B-flokki fer fram á mánudag 1. júlí og milliriðillinn á fimmtudag 4. júlí.

Sindri og Höfðingi sitja í 31. sæti stöðulistans inn á mót, sem er baráttusæti inn í milliriðil þar sem 30. efstu hestar taka þátt.

Sérstök forkeppni í B-flokki fer þannig fram að þar er sýnt hægt tölt, brokk og greitt tölt og rúmir kraftmiklir gæðingar eiga að njóta sín vel í þeirri keppni. Sindri, Addi Snæbjörns og Eyjó eru ólíkindatól sem geta gert heilmikið þegar á reynir.

Katla Sif er með ofsalega sjarmerandi hryssu Gleði og Friðdóra og Ylfa með fantagóð hross einnig.

Darri okkar sem er orðinn einn harðasti keppnisknapi Hafnarfjarðar hefur vakið verðskuldaða athygli með Draum í tölti í vor og riðið í hörkutölur er til alls líklegur og Páll Bragi sterkur með góðan hest einnig.

Það er brekka að komast í milliriðil í B-flokki gæðinga á LM en með þennan hóp er allt hægt í þeim efnum.

 

A-flokkur

Í A-flokki gæðinga eru einnig frábær hross skráð til leiks á Landsmóti, og þetta er jafnan flokkurinn sem mest eftirvænting ríkir fyrir. Á síðasta Landsmóti áttum við Sörlafélgar silfurverðlaunahafa í A-flokki, og ekki langt frá sigri. Það var hann Goði frá Bjarnarhöfn í eigu Helgu og Bjarna Sig, riðinn af Danna Jóns.

Goði er mættur til leiks á nýjan leik og er með 18 hæstu einkunn inn á mótið eftir úrtöku. Það er eitthvað sem segir manni að Danni og Bjarni séu ekki að mæta með hestinn með þá áætlun að jafna fyrri árangur en það kemur allt í ljós.

Hinrik Bragason er líka skráður með Forna frá Flagbjarnarholti fyrir hönd Sörla og þeir eru í 46 sæti stöðulistans inn á mót og nú hafa þeir félagar örugglega slípað sig enn meira saman og verður gaman að fylgjast með þeirri þróun.

Aðrir fulltrúar Sörla í A-flokki eru:

Alexander Ágústsson og Hrollur

Snorri Dal og Gimsteinn

Viðar Ingólfsson og Léttir

Sara Dís Snorradóttir og Djarfur

Anna Björk Ólafsdóttir og Taktur

Kristín Ingólfsdóttir og Tónn

Auðunn Kristjánsson og Ballerína

Forkeppni í A-flokki fer fram á þriðjudeginum 2 júlí og milliriðillinn á fimmtudeginum 4 júlí.

Alexander og Hrollur eru kraftmikið par, mikið rými á brokki og flugvakrir. Snorri Dal og Gimsteinn eru heldur betur að slípast saman yfir árið og eru einnig með þáttökurétt í fimmgangi (fjöllum um það í annari grein) og eru til alls líklegir. Sara Dís og Djarfur eru algjörlega flugvökur og stórhættuleg þegar allt tekst til.

Viðar og Auðunn eru reynslumiklir knapar með góð hross og Anna Björk og Didda Ingólfs eru auðvitað stórveldi eins og allir Sörlamenn þekkja, svo við verðum spennt í brekkunni með þennan flotta hóp.

 

Það er því nóg um að vera fyrir Sörlafólk yfir gæðingakeppni Landsmóts og við verðum að sjálfssögðu á fréttavaktinni með dagskrá og árangur hvers dags.

Minnum á að HorseDay appið er með allar niðurstöður, stöðulista og ítarefni um Landsmót en einnig á heimasíðu mótsins landsmot.is

Við Sörlafólk fjölmennum á mótið að vanda og látum í okkur heyra í stuðningi við okkar fólk.

Sjáumst á Landsmóti.

Áfram Sörli!