Skráning á reiðmennskuæfingar, yngri flokka og fullorðinna, knapamerkin og ýmislegt fleira er komin á fullan skrið hjá félaginu og þða er greinilegt að það er heilmikill áhugi og mikið um að vera hjá okkur Sörlverjum.
Nú um miðjan september byrjar fjögurra vikna frumtamninganámskeið hjá okkur og reiðmennskuæfingar og knapamerki fara af stað um svipað leyti svo það verður kominn kraftur í starfið hjá okkur strax undir lok september líkt og í fyrra.
Í vetur verða svo fjölmörg ýmiskonar námskeið í boði bæði til lengri og styttri tíma.
VIð munum kappkosta það að halda Reiðmennskuæfingum yngri flokka þannig að hægt sé að bæta inn nemendum þegar líður á, og við getum vonandi tryggt það að allir iðkendur yngri flokka eigi að geta komist að í vetur þó svo að þeir taki ekki inn hross alveg með fyrstu skipum.
Fyrir skipulagið væri aftur á móti afar gott að vita að þeim iðkendum sem hafa jafnvel hug á að bætast inn síðar og hægt að láta vita af sér hjá Hinna Sig yfirþjálfara.
Keppnisakademía Sörla fer af stað á vorönninni og byrjar með 3 helgarnámskeiðum með sirka mánaðarmillibili og endar svo á vikulegum tímum eftir miðjan apríl þegar reiðmennskuæfingum er formlega lokið.
Keppnisakademían er sérstaklega hugsuð þeim iðkendum sem stefna á keppni í vor með úrtöku fyrir Landsmótið í Reykjavík sem lokahnykk. Ævar Örn Guðjónsson reiðkennari og afreksknapi verður yfirþjálfara og þjálfurum Sörla innan handar við kennslu í akademíunni í vetur.
Nokkur styttri námskeið, bæði helgarnámskeið og nokkura vikna reiðnámskeið verða í boði og verða þau auglýst sérstaklega.
Hestamannafélagið Sörla stendur eins og allir félagsmenn vita í stórræðum við byggingu nýrrar reiðhallar með frábærri aðstöðu, sem verður án efa ein sú albesta á landinu og félagsvæðið verður í vetur dálítið undirlagt af þeirri vinnu.
Við munum á meðan hafa Sörlastaði og reiðskemmu félagshússins til afnota við kennslu ásamt útigerðinu og vallarsvæðinu þegar við á, og þurfum að sýna biðlund enn um sinn í núverandi aðstöðu. Stjórn og starfsmenn félagsins eru hinsvegar sannfærð um að með samstilltu átaki og tillitssemi hvert við annað getum við látið dæmið ganga vel upp vitandi hvað bíður okkar að ári liðnu þegar ný aðstaða verður tekin í notkun.
Það er mikil tilhlökkun í okkur að ganga inn í nýtt tímabil í hestamennskunni í Hafnarfirði með Landsmótið í Reykjavík sem hápunkt þar sem við getum sýnt hvað í okkur Hafnfirðingum býr hvort sem er á keppnisvellinum eða í áhorfendabrekkunni.
Endilega verið í sambandi með hugmyndir og tillögur inn í tímabilið,
Sjáumst á ferðinni
Áfram Sörli!