Lokadagar landsmóts

Í Víðidal 

Þá er rykið að setjast eftir ótrúlega ákafa viku í Víðidalnum.

Landsmót 2024 fer í sögubækurnar sem frábært mót.

Aðstæður í Víðidalnum til fyrirmyndar hvort sem er fyrir hesta eða menn, dagskráin risastór en lítið um seinkanir, og stemningin á mótinu góð.

Hvað okkur Sörlafélaga varðar varð útkoman þegar öllu er á botninn hvolft ásættanleg þó við viljum auðvitað alltaf ennþá hærra.

Í þessari færslu ætla ég að reifa lokadaga mótsins sem voru um helgina og telja upp það helsta hjá okkar fólki, en önnur úrslit og fréttir af mótinu er að nálgast á hinum ýmsu hestamiðlum sem hafa gert því afar góð skil.

Skeiðgreinar:

Í 100 m. skeiði sem fram fór á laugardagskvöldið áttum við tvo fulltrúa í hópnum, en í fyrri færslu sem birt var fyrir skeiðið hafði ég einungis upplýsingar um hann Ingiberg á Sólveigu sem enduðu í 6. sætinu á tímanum 7,71 sek.

Hörkukvendið hún Ylfa Guðrún á Straumi kom nefnilega einnig þar inn eins og stormsveipur og fór hratt yfir og endaði í 4. sæti í 100 m skeiði á tímanum 7,67 og hitaði þar undir allra fljótustu hestum mótsins rækilega. Geggjaður sprettur hjá þeim.

Ylfa tók einnig þátt í töltkeppninni á Þór frá Hekluflötum og gerði góða sýningu með 7,20 og Ylfa er þar með að stimpla sig inn í hóp úrvalsknapa og frábær viðbót í flóru okkar félagsmanna í Sörla.

Í 250 m. skeiði enduðu Ingibergur og Sólveg í 6. sæti á 22,39 sek en vandræði á rásbásum gerði þeim erfitt fyrir í seinni umferð skeiðsins því miður.

Í 150 m. skeiði voru Ingibergur og Flótti í 10. sæti á 14,70 sek.

Í gæðingakeppninni áttum við fulltrúa í A-úrslitum í þremur flokkum af þeim fimm sem í boði eru.

Í brjálæðislega sterkum barnaflokki endaði Una Björt á Öglu í 6. sæti með einkunina 8,56 eftir að hafa unnið b-úrslit, svo hún vann sig hressilega upp eftir ögn erfiðan milliriðil, sannarlega vel gert.

Barnaflokkin sigraði svo hörkuknapinn Viktoría Huld frænka Unu með Hafnarfjarðartengingu því hún er dóttir Hannesar og Ástríðar sem við viljum nú eigna okkur töluvert í og óskum þeim til hamingju.

Í unglingaflokki átti Snæfríður Ásta á honum Liljari góða sýningu, sérstaklega vill ég nefna frábæra reiðmennsku og sýningu á brokki og yfirferð (sem einnig var brokk), en þar fékk maður á tilfinninguna að þau Liljar snertu eiginlega aldrei jörðina, slíkt var svifið.

Snæja og Liljar enduðu í 7. sæti með 8,67 en mjótt var á munum í þessum flokki og spennandi úrslit.

Í A-flokki gæðinga var Goði frá Bjarnarhöfn okkar fulltrúi í úrslitum. Goði er kraftahestur, flugrúmur og var sýndur af Sigga Matt sem hafði þó ekki langan tíma til þess að kynnast hestinum.

Goði átti góða sýningu þrátt fyrir smá vesen á brokki og endaði í 6-7 sæti mótsins með 8,74.

Þess má geta í leiðinni að Hanna Rún, sem við teljum okkur eiga hlut í líka sigraði b-úrslit A-flokksins á Sirkus frá Garðshorni og vann sig upp í 3. sæti í A-flokki eftir ógleymanlega skeiðspretti hlaut Gregersen-styttu mótsins sem er veitt knapa sem sýnir framúskarandi reiðmennsku og fagmennsku á mótinu, sannarlega glæsilegt.

Við Sörlafélagar eigum náttúrulega flotta fulltrúa á ræktunarhlið mótsins líka því Ragnheiðarstaðabúið átti sannkallað stórmót, komu með flotta ræktunarbúsýningu, buðu okkur upp á prettyboitjokko og áttu eina af skærustu stjörnum kynbótabrautarinnar hann Húna frá Ragnheiðarstöðum sem ég held að margir hefðu viljað setja inn á kerru og hafa með sér heim af mótinu ásamt fleiri öngum úr sinni ræktun þar sem mörg afkvæmi Ragnheiðarstaðahesta komu fram bæði í keppni og kynbótasýningum.

Sigurvegari 4. vetra flokks stóðhesta, hann Dalvar frá Efsta-Seli er einnig í helmingseigu Ásbjörns Helga okkar og óskum við þeim til hamingju.

Með þessu vill ég þakka fyrir flott mót, óska okkur öllum til hamingju með Landsmót hestamanna 2024.

Næst eru það Íslandsmótin sem fram fara 17.-21. júlí (börn og unglingar) og 25.-28. júlí (ungmenni og fullorðnir) og þar munum við eiga fullt af flottum fulltrúum félagsins.

Takk fyrir samfylgdina