Lokadagur Landsmóts 2022

Veislan heldur áfram 

Lokadagur Landsmóts.

Maður er rétt að ná sér eftir töltúrslitin í gær.

Stemningin í á svæðinu og brekkunni og hasarinn á vellinum var slíkur að ég er eiginlega hissa á að Hekla hafi ekki farið að gjósa.

Hins vegar spáum við jafnvel Kötlugosi í dag, því eftir verðlaunaafhendingu heiðursverðlauna stóðhesta hefst vaktin hjá okkur með A-úrslitum í ungmennaflokki.

Katla Sif reið sig upp úr B-úrslitum með glæsibrag á föstudaginn og með góðri sýningu í dag er hún í dauðafæri á að gera vel í þessum úrslitum, ég er viss um að hún sé ekki södd enn.

Úrslit í ungmennaflokki hefjast klukkan 13:00

Klukkan 13:40 eru úrslit í barnaflokki þar sem Kristín Birta og Amor eru í algjörri toppbaráttu eftir góða frammistöðu í milliriðli.

Amor er stór og myndarlegur hestur með gegnheilar gangtegundir. Kristín Birta er kraftmikill og flottur knapi sem mun án efa láta vita af sér í þessum úrslitum.

Klukkan 16:55 er 100m skeið þar sem hraðasti knapi Hafnafjarðar og þótt víðar væri leitað hann Ingibergur er meðal keppenda á Sólveigu.

Svo eftir matarhlé klukkan 19:30 eru úrslit í B-flokki gæðinga.

Í B-flokki eigum við Hafnfirðingar tvo hesta því spariskjóni hans Halla Þorgeirs hann Ísak kom í öðru sæti inn í úrslitin.

Ísak er með fallegri eintökum sem maður sér, aðsópsmikill og sjarmerandi með mjög góð gæði á hægu tölti og sterkur hvað varðar fegurð í reið.

Adrían og Daníel eru í þriðja sæti inn í úrslitin. Adrían er frábær á tölti og hefur marga sterka eiginleika þegar kemur í samanburð í úrslitum.

En við skulum átta okkur á því að úrslit í B-flokki eru ein alerfiðustu úrslit sem hægt er að ríða, og þessi eru sannkölluð ljónagryfja, slík eru gæðin í hópnum.

Adrían og Ísak eru geggjaðir fulltrúar okkar þar.

Klukkan 21:45, þegar kvöldvakan er búin, hinar ýmsu verðlaunaafhendingar hafa klárast og brekkan orðin tryllt af kæti, þá er komið að því sem margir telja hápunkt Landsmótsins, og hápunkt íslenskrar hestamennsku jafnvel þegar A-úrslit í A-flokki gæðinga fara fram.

Okkar fulltrúi heitir Goði frá Bjarnarhöfn undir stjórn Daníels Jónssonar.

Goði leiðir eftir milliriðilinn og það er hart að þeim sótt.

Goði er kraftmikill og flugrúmur hestur á tölti og brokki og svo er hann sannarlega flugvakur líka. Þessi kraftur og rými gefa honum góða stöðu fyrir viljaeinkunn og í A-flokki eru tölt, skeið, vilji og fegurð í reið allt tvöfaldar einkunnir.

Það verður gaman að sjá þá félaga keppa við öflugustu alhliða gæðinga landsins.

Þetta verður því öflugur dagur á Sörlavaktinni og ég þori að fullyrða að dagurinn verði þvílíkt samansafn af gæðingum að annað eins hefur ekki sést á einum stað áður, svo það er ekkert víst að þetta klikki.

Áfram Sörli