Mikið um að vera í Firðinum

Viðtal - hestafrettir.is 

Hestamannafélagið Sörli í Hafnarfirði er með heilmikið umleikis í starfi sínu þessi misserin. Þrátt fyrir þungt haust í miðjum heimsfaraldri er engan bilbug á fólki þar að finna.

Hestafréttir slógu á þráðinn til framkvæmdastjóra Sörla, Sigríði Kristínu Hafþórsdóttur (Didda) til þess að forvitnast um starfið.

”Við opnuðum félagshesthús Sörla í haust annað árið í röð, nú í samstarfi við Íshesta þar sem ungir hestamenn geta leigt sér pláss með eigin hest, og þeir sem ekki hafa eigin hest geta einnig fengið aðgang að hesti í starfseminni.”

Félagshesthúsið er í umsjón Auðar Ásbjörnsdóttur sem tekur á móti krökkunum tvisvar til þrisvar í viku og aðstoðar þau við sína iðkun, útreiðar og umgengni við hestinn.

”Það er frábært að sjá að krakkarnir eru að vaxa og eflast í sinni hestamennsku með aðstoð hvers annars og undir leiðsögn umsjónarmanns félagshússins. Þau hafa frábæran félagsskap hvert af öðru og hópurinn þéttist með hverri vikunni” segir Didda og bendir á að það sé algjört forgangsmál hjá okkur hestamönnum um allt land að greiða götu nýrra iðkenda inn í íþróttina, og hvetur öll hestamannafélög til þess að setja þetta mál í kastljós í sínu starfi.

Síðastliðið sumar réð félagið svo yfirþjálfara til starfa til þess að skipuleggja námskeiðahaldið hjá félaginu og koma af stað skipulögðum og markvissum æfingum yfir allt tímabilið í anda þess sem gengur og gerist í öðrum íþróttum.

”Við byrjuðum með reiðmennskuæfingar, tvisvar sinnum í viku strax í september fyrir yngri iðkendur í félaginu, flokkaskipt fyrir aldurshópinn 8-18 ára. Fyrst fóru æfingar fram án hests, bæði bóklegar og verklegar æfingar. Verklegu æfingarnar voru með áherslu á þol, styrk, jafnvægi og samhæfingu. ”

Krakkar á reiðmennskuæfingu
Félagshús, reiðmennskuæfingar
Krakkar í félagshúsi í útreiðartúr

Strax í haust voru rétt um 30 iðkendur skráðir í Reiðmennskuæfingar yngri flokka hjá félaginu, og kennslan er stigaskipt eftir aldurshópum, með það að markmiði að knaparnir tileinki sér jákvæðar og góðar aðferðir við eigin þjálfun og hestsins.

”Það er búið að vera mjög skemmtilegt að fylgjast með æfingunum í haust og sjá iðkendur uppgötva hvað er mikið hægt að gera á því tímabili sem hestarnir eru kannski úti í hausthvíldinni. Við erum með stóra hópa sem æfa í reiðsalnum, hreinlega líkamsrækt og svo eru útihlaup þess á milli hér í fallegu umhverfi sem félagssvæðið er” útskýrir Didda.

”Nú í nóvember eru svo verklegir reiðtímar að hefjast, og eru nemendur í verklegri kennslu og bóklegri í hverri viku fram á vor undir leiðsögn þjálfara hjá félaginu. Við búumst við því að á vorönn fjölgi ungu reiðmönnunum enn frekar þar sem að fleiri fara að taka inn hesta Það hefur lengi verið eftirspurn eftir reglulegum æfingum til langs tíma eins og er í öllum öðrum íþróttum ”.

”Svo erum við að sjálfsögðu líka með kennslu í Knapamerkjum og nú í haust eru hópar að taka Knapamerki 2 og 4. Svo varð eftirspurn eftir Reiðmennskuæfingum fyrir fullorðna, í líkingu við æfingar unga fólksins og þær eru komnar af stað, svo það eru heil ósköp um að vera hjá okkur hérna í Firðinum” segir Sigríður Kristín Hafþórsdóttir, framkvæmdastjóri Sörla í Hafnarfirði.

Heimild: Hér má sjá viðtalið á vef Hestafrétta