Fimmtudaginn 7. apríl verður Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir með sýnikennslu á Sörlastöðum kl 19:30.
Aðgangseyrir 2000 kr.
Sýnikennslan verður um vinnu frá jörðu, hringteymingar og notkun brokkspíru- og hindrunarstökksbúnaðar í þjálfun.
Vinna frá jörðu og hringteymingar er afar áhrifarík leið til að byggja upp rétta vöðvavirkni í hestinum, auka fjölbreytni og þjálfa auga þjálfarans fyrir réttri líkamsbeitingu hestsins. Brokkspíru- og hindrunarstökksþjálfun býður jafnframt upp á fjölmarga ávinninga fyrir bæði hest og knapa, sem farið verður nánar í.
Hrafnhildur Helga útskrifaðist með BS í reiðmennsku og reiðkennslu frá Háskólanum á Hólum árið 2015 og hefur unnið við tamningar, þjálfun og reiðkennslu síðan, ásamt því að vera með meistaragráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum. Sem stendur starfar hún jafnframt sem kennari við Háskólann á Hólum, þar sem hún sinnir reiðkennslu ásamt kennslu í rekstri fyrirtækja í hestamennsku og kennslufræði. Hrafnhildur hefur haldið fjölmörg námskeið í hinum ýmsu hestamannafélögum um vinnu við hendi, hringteymingar og brokkspírunotkun, þar sem kennd eru markviss vinnubrögð til þess að hjálpa hestinum að skilja grunnábendingar og styrkja samband milli manns og hests. Hún leggur áherslu á fjölbreyttar og hestvænar þjálfunaraðferðir sem hjálpa hestinum að finna sitt jafnvægi, auka sveigjanleika og bæta styrk og þor.
Allir velkomnir.
Fræðslunefnd Sörla