Mótahaldið bætir enn í...

Deildir og mótaraðir 

Friðdóra og Bylur frá Kirkjubæ

Á liðinni viku rúmlega hafa ýmis mót farið fram í hestamennskunni víðsvegar og á mörgum þeirra sjáum við Sörlafólk mæta og gera góða hluti.

Síðan síðast hafa verið haldin mót í nokkrum deildum og mótaröðum ásamt því að fyrsta opna mótið á landinu í Gæðingalist var haldið í Mosfellsbæ.

Gæðingalistin er grein sem á liðnu ársþingi í haust var samþykkt undir regluverk okkar og verður því framvegis eina f þeim greinum sem keppt verður í ásamt öðrum hefðbundnum greinum.

Á K.B mótaröð Borgfirðings fóru Svanbjörg Vilbergs og sonur hennar Tristan Lavender og tóku þátt og gerðu vel.  Tristan komst í úrslit í fjórgangi unglinga og endaði í 5 sæti þar, og Svana endaði í 4 sæti í fjórgangi í 2. flokki.

Þann 20 febrúar hélt Blue Lagoon mótaröðin áfram og Hafnfirðingum fjölgaði þar enn meira frá því á fyrsta mótinu. Nú var keppt í fjórgangi.

Í barnaflokki V5 endaði Árný Sara Hinriksdóttir á Glettingi í öðru sæti og Ásthildur Sigurvinsdóttir í því þriðja á  Hrafni.

Í feiknasterkum V2 unglingaflokki komst Sigurður Dagur Eyjólfsson á Flugari í úrslit  og enduðu þeir félagar í 6 sæti að lokum.

Aðrir Sörlafélagar sem tóku þátt voru Bjarndís Rut Ragnarsdóttir, Júlía Björg Gabaj Knudsen, Ögn Hanna Kristín Guðmundsdóttir og Maríanna Hilmisdóttir. Unglingaflokkurinn var fjölmennur, og rétt tæplega 30 unglingar tóku þátt.

Í ungmennaflokki komst Brynhildur Gígja Ingvarsdóttir í úrslit á Didda og endaði í 4 sæti og auk hennar tók Bryndís Ösp Ólafsdóttir einnig þátt.

Fjórgangur Vesturlandsdeildarinnar fór fram í liðinni viku og þar eigum við nokkra fulltrúa.

Friðdóra Friðriksdóttir gerði þrusuferð í Borgarnes með Byl frá Kirkjubæ og endaði í 2 sæti bæði í forkeppni og úrslitum. Þarna er enn ein deildin þar sem við Sörlamenn skulum fylgjast vel með gangi mála. Anna Björk Ólafsdóttir tók líka þátt en komst ekki í úrslit að þessu sinni.

Í Meistaradeild KS eigum við einn fulltrúa sem tók þátt í Gæðingalist í síðustu viku, og það var hún Katla Sif Snorradóttir sem stóð sig með prýði.

Svo er það meistaradeild Líflands og æskunnar þar sem Fanndís Helgadóttir gerði gott mót, leiddi eftir forkeppni og endaði í 4 sæti í A-úrslitum á Sprota frá Vesturkoti.  Sara Dís Snorradóttir, Bjarndís Rut Ragnarsdóttir og Kolbrún Sif Sindradóttir tóku einnig þátt en komust ekki í úrslit.

Það er eins og sjá má nóg um að vera í hestamennskunni og fullt af Sörlafélögum að keppa um land allt.

Endilega sendið okkur línu þegar þið sjáið Sörlamenn á ferð og flugi í mótahaldinu.

Við fylgjumst spennt með.