Nú er tímabilinu senn að ljúka hjá okkur þetta árið, og það er sannarlega búið að vera líf og fjör hjá Hestamannafélaginu Sörla á þessu tímabili.
Það er mikil gróska í starfinu hjá okkur, og það sést ekki síst á gríðarlegum fjölda þátttakenda í mótum vorsins hér á félagssvæðinu okkar.
Nú er Landsmóti lokið og okkar fólki gekk mjög vel, við áttum fulltrúa annað hvort í A eða B úrslitum í öllum greinum í öllum aldursflokkum í gæðingakeppninni og stuðningsliðið okkar stóð sig svo sannarlega vel í brekkunni og hvatti okkar fólk til dáða þannig að eftir var tekið.
En að efninu.
Nú þegar eitt tímabil er að klárast, er ekki seinna vænna að greina í grófum dráttum frá skipulagi þess næsta sem er í fullum smíðum.
Nú þegar vagninn er farinn af stað má ekki slá af, og við höldum því full tilhlökkunar inn í næsta tímabil sem hefst á fullum krafti strax í haust.
Reiðmennskuæfingar hefjast um mánaðarmótin september/október bæði yngri flokka og fullorðinna. Þær verða með svipuðu sniði og var í vetur en þó með örfáum breytingum eins og gefur að skilja þegar verk er í vinnslu. Þar má helst nefna fjölgun verklegra þjálfunarstunda.
Kennsla verður að jafnaði tvisvar í viku líkt og verið hefur.
Knapar eru í verklegri kennslu einu sinni í viku í sínum hópum líkt og áður og svo bætum við inn opnum þjálfunartímum undir leiðsögn þjálfara tvær vikur í senn á móti einum bóklegum tíma.
Þá verður planið semsagt verklegt tvisvar í viku í tvær vikur, og svo einu sinni í þeirri þriðju á móti bóklegum tíma.
Æfingarnar verða einnig gerðar meira þrepaskiptar, svo iðkendur sem voru á æfingum í fyrra færast saman í æfingum, og þeir iðkendur sem koma nýir inn verða saman í takti. Meira um það þegar nær dregur.
Knapamerkjakennsla hefst einnig á fullu strax í haust, september/október og við byrjum á knapamerkjum 2,3 og 4.
Knapamerki 1 verður svo kennt þegar líður að vorinu líkt og síðasta tímabil.
Það eru Ásta Kara Sveinsdóttir og Ástríður Magnúsdóttir sem hafa umsjón með þeim.
Sú ákvörðun var tekin fyrr í vor að Reiðmaðurinn sem kenndur hefur verið í Hafnarfirði undanfarin ár muni ekki vera með nám hér næsta vetur og það gefur töluvert rými fyrir helgarnámskeið af ýmsum toga hjá okkur. Fræðslunefndin mun að megninu til sjá um þau námskeið ásamt fleiri styttri námskeiðum eins og voru á dagskrá í vetur með gríðarlega góðri þátttöku, og dagskrá þeirra verður kynnt nánar þegar líður að haustinu.
Það eru því virkilega spennandi tímar framundan hjá okkur í Hafnarfirðinum, og við ætlum okkur að halda áfram að slá undir nára og vinna það af krafti að Hestamannafélagið Sörli haldi áfram að þróa sig sem leiðandi afl í hestaheiminum hér á Íslandi.
Eigið frábært sumar kæru félagar og sjáumst hress í haust.
Áfram Sörli
Kveðja frá yfirþjálfara 😊