Nýr stóðhestur í eigu Sörlafélaga

 

Ari litli
Ari litli

Hið nýstofnaða Ræktunarfélag Graðhestamannafélags hestakarla í Sörla, sem er deild innan Graðhestamannafélags hestakarla í Sörla, keypti á vormánuðum glæsilegan og vel ættaðan gæðing. Kaupin höfðu verið lengi í bígerð því vanda þurfti valið og sýna mikla ábyrgð þar sem að um er að ræða næsta aðal kynbótahest félagsmanna í Sörla. Gæðingurinn sem varð á endanum fyrir valinu er enginn annar en Ari frá Votumýri 2, rauður gæðingur undan  Skaganum frá Skipaskaga og gæðingamóðurinni Önn frá Ketilstöðum. Kynbótamat Ara er 120 enda hafa báðir foreldrar gefið af sér marga fyrstu verðlauna kynbótagripi.

Stofnfundur félagsins var haldinn 17. september, en hlutahafarnir í gæðingnum eru 47, síðast þegar vitað var. Alls eru hlutirnir 70 talsins og tíu hlutir verða í eigu félagsins.

Þann 3. október s.l. var Ari sóttur og farið var með hann til okkar farsæla Sörlafélaga, Hönnu Rúnar Ingibergsdóttur á Kirkjubæ sem ætlar að temja hann og þjálfa fyrir hestakarlana.

Ef að líkum lætur verða því, eftir c.a. 5 ár, margir rauðir, hágengir og glæstir gæðingar á reiðvegum Sörla enda er stefnan sett á að Ari toppi föður sinn hvað varðar sköpulag og hæfileika. Sörlafélagar eru hvattir til að fylgjast með gengi Ara frá Votumýri 2. Greinarhöfundur komst í samþykktir ræktunarfélagsins og birtir hér 1. gr. samþykkta félagsins, til ánægju og yndisauka fyrir lesendur Sörlavefsins.

Tilgangur félagsins er sá að valda straumhvörfum í íslenskri hrossarækt, efla andann, vökva lífsblómið og ræða um stóðhesta og ræktun – gjarnan í bundnu máli. Auk ofangreinds, að sjá um allt það er viðkemur rekstri og utanumhaldi vegna stóðhests deildarinnar, hverju sinni, og koma honum á framfæri svo sómi sé að.