Á vef heilbrigðisráðuneytis var rétt í þessu birt frétt þar sem fram kemur að heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja gildandi reglugerðir um takmarkanir á samkomum og skólastarfi óbreyttar til 9. desember næstkomandi.
Þetta er gert í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis sem ræður gegn því að slaka á sóttvörnum í augnablikinu vegna þróunar faraldursins síðustu daga. Áður hafði verið vonast til þess að einhverjar tilslakanir yrðu gerðar 2. desember nk.
Í frétt ráðuneytisins kemur fram að í ljósi fjölgunar smita og hópsýkinga, ásamt því að fjöldi þeirra sem greinast utan sóttkvíar stefnir í línulegan vöxt og hugsanlega veldisvöxt, þá sé tillaga sóttvarnalæknis að engar breytingar verði gerðar á gildandi sóttvarnaráðsstöfunum, þ.e. takmörkunum á samkomum og skólastarfi næstu eina til tvær vikur.
Við endurskoðun sóttvarnaráðstafana, sem hefjast þegar í stað, verður meðal annars horft til þess hvort að tilefni sé til að gera tilslakanir á landsbyggðinni umfram höfuðborgarsvæðið í samræmi við hugleiðingar sóttvarnalæknis í minnisblaði dagsettu í dag, 30. nóvember.
Þessi tíðindi þýða, því miður, að engar breytingar verða á takmörkunum á íþróttastarfi til 9. desember nk.
Áfram gildir að íþróttir fullorðinna, þar með talið æfingar og keppni, hvort sem er innandyra eða utandyra, með snertingar eða án, eru óheimilar. Einstaklingsbundnar æfingar, án snertingar eru heimilar svo sem útihlaup og sambærileg hreyfing.