Okkar fólk heldur áfram að brillera

Árangur síðustu vikna 

Kristín Ingólfsdóttir og Ásvar

Nú er Sjóvámótaröðin hér í Hafnarfirði að klárast og tímabil vor- og sumarmóta að byrja. Miðað við fjölda keppenda sem hafa tekið þátt í þeirri mótaröð sést hvað mótaáhuginn er mikill hjá Sörlamönnum og virkilega mikið um að vera.

Það hefur gengið vel hjá Sörlafólki í mótahaldinu síðan síðast, og það verður heilmikil upptalning að ná utan um það allt saman nú þegar nokkrar vikur eru frá síðasta afrekspistli.

Þann 17. mars fór fram þrígangsmót í Spretti sem hefði nánast geta kallast Sörlamót, slík var þátttaka Hafnfirðinga þar.

Niðurstöður voru ekki birtar á LH Kappa og því geri ég ekki annað en að telja upp þá knapa héðan sem gerðu sér ferð í Kópavoginn á þetta mót. Við vorum að sjálfssögðu með fulltrúa í úrslitum nokkurra greina þar.

Hafdís Arna Sigurðardóttir og Þór frá Minni-Völlum, Kristín Ingólfsdóttir á Tóni frá Breiðholti, Tristan Logi Lavender á Eyrúnu frá Litlu-Brekku, Ylfa Guðrún Svafarsdóttir á Straumi frá Hríshóli 1 og Alexander Ágústsson á Hrolli frá Votmúla 2 voru öll með í fimmgangi fullorðinna.

Í fjórgangskeppninni voru það Einar Ásgeirsson og Helga frá Unnarholti, Haraldur Harldsson og Hrynjandi frá Strönd II, Ylfa Guðrún með Gormur frá Köldukinn 2 og Klaka frá Köldukinn 2, Inga Kristín Sigurgeirsdóttir og Hekla frá Mörk, Kristín Ingólfsdóttir á Ásvari og Þorgerður Gyða á Nínu frá Áslandi sem tóku þátt.

Í fjórgangi í öðrum flokki tók Eyjólfur Sigurðsson þátt á Nóa frá Áslandi og í unglingaflokki voru það Sigurður Dagur á Flugari frá Morastöðum, Jessica Ósk Lavender og Helgi Haraldsson á Ósk frá Strönd sem voru okkar fulltrúar.

Þessir knapar voru okkur öll til sóma að sjálfssögðu.

Katla Sif Snorradóttir er nemandi á Hólum og hún er einnig þátttakandi í Meistaradeild KS.  Í fimmgangum í KS deildinni reið hún á Gimsteini frá Víðinesi 1 og lenti í 15. sæti í forkeppni í harðri keppni það nyrðra. Hún tók líka þátt í slaktaumatöldi á Eldey frá Hafnarfirði og gerði sér lítið fyrir og komst í úrslit þar sem hún endaði í fjórða sæti.

Áhugamannadeild Spretts, Samskipadeildinni er lokið þetta árið.

Í fimmgangi komst Darri Gunnarsson okkar í B-úrslit og endaði þar í 12. sæti á Ísingu frá Harðarbakka. Aðrir Sörlamenn í fimmgangum voru Kristín Ingólfsdóttir á Tóni, Bjarni Sig á Goða frá Bjarnarhöfn og Þorgerður Gyða á Nótt frá Kommu.

Í töltinu gerði Didda Ingólfs feyknasýningu á Ásvari sínum og endaði í 3. sæti í A-úrslitum. Darri Gunnars, Inga Kristín, Þorgerður Gyða, Bjarni Sig, og María Júlía tóku einnig þátt en komust ekki í úrslit.

Gæðingaskeið fór svo fram í Hafnarfirði daginn eftir og var lokagrein mótaraðarinnar og þar voru Darri Gunnars á Ísingu, Bjarni Sig á Tý og Kristín Ingólfs á Tóni meðal þátttakenda.

Kristín og hennar lið gerðu sér lítið fyrir og sigruðu liðkeppnina í deildinni árið 2023.

Blue Lagoon mótaröðin lauk göngu sinni með gæðingamóti í lok mars.

Í barnaflokki tóku Una Björt á Heljari, Ásthildur Viktoría á Hrafni, Árný Sara á Mídasi, Elísabet Benedikts á Sóloni og Hrafnhildur Rán á Perlu allar þátt.

Ásthildur endaði svo á því að ríða sig í 3. sæti í úrslitum og Una endaði í því fimmta.

Árný Sara sigraði samanlagða stigakeppni í barnaflokki minna vanir eftir góða mótaröð.

Í unglingaflokki komust Snæfríður Ásta Jónasdóttir á Sæla sínum, og Júlía Björg Gabaj Knudsen í úrslit. Júlía reið sig reyndar í úrslit með tvo hesta, þau Björk og Póst frá Litla Dal.

Aðrir þátttakendur voru Sigurður Dagur á Flugari og Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir á Þór.

Í úrslitum endaði Snæfríður í 3. Sæti og Júlía í því 6. á Pósti.

Í Meistaradeild ungmenna fór fram Gæðingalist þar sem Ingunn Rán á Hrund frá Síðu gerðu ljómandi mót og svo tók hún þátt í tölti ásamt Salóme Haraldsdóttur  og þær stöllur komust ekki í úrslit en hafa haldið merki Sörla uppi í þeirri deild í vetur.

Í Meistaradeild Líflands og Æskunnar sem er orðin risadeild í flóru okkar hestamanna hafa nokkrar Sörlastúlkur haldið heiðri okkar hátt.

Í T2 slaktaumatölti komst Sara Dís í A-úrslit á Eldeyju og þær Fanndís Helgadóttir og Kolbrún Sif komust báðar í B-úrslit. Fanndís endaði í 8. sæti á Ötli frá Narfastöðum og Kolbrún í því sjöunda. Í A-úrslitum endaði Sara Dís í öðru sæti eftir að hafa sigrað sömu grein í fyrra.

Sannarlega glæsilegir fulltrúar okkar þar.

Bjarndís Rut Ragnarsdóttir tók svo þátt í gæðingaskeiði og stóð sig vel.

Þessar stelpur voru í toppbaráttu í flestum greinum deildarinnar í vetur og hafa virkilega látið að sér kveða.

Í Vesturlandsdeildinni höfum við átt nokkra fulltrúa. Fimmgangurinn fór fram nú fyrr í apríl og þar komst Snorri Dal í B-úrslit á Greifa frá Grímarsstöðum. Friðdóra Friðriksdóttir á Styrk var rétt utanvið úrslit og aðrir þátttakendur voru Anna Björk Ólafsdóttir og Sindri Sigurðsson.

Vesturlandsdeildin er svo að klárast þessa dagana með tölti og skeiði og við fylgjumst vel með.

Á opnu páskatölti Dreyra á Akranesi fór Didda Ingólfs flotta ferð gegnum göngin og vann töltið í 1. flokki.

Það er ótrúlega gaman að fylgjast með Sörlafélögum ná góðum árangri á mótum víðsvegar og það er frábært að finna að það eru margir að taka þátt og láta okkur vita þegar okkar fólk er á ferðinni.

Endilega haldið áfram að senda á okkur og við fylgjumst með.

Áfram Sörli

Íþrótt-lífsstíll