Einn af okkar bestu félögum er genginn langt um aldur fram; Ómar Ívarsson, gullmerkishafi Sörla. Þar fór stilltur maður og prúður; hlýr, hógvær og æðrulaus.
Ómar var virkur þátttakandi í félagsstarfi Sörla, duglegur að mæta á flesta viðburði og þá sérstaklega í félagsreiðtúrana. Eins fór Ómar nær undantekningalaust í sumarferðir Sörla allt þar til hann veiktist vorið 2022. Veikindunum tók Ómar af sama æðruleysi og öðru, hann hélt áfram að vinna og ríða út eiginlega langt fram yfir það sem heilsan leyfði. Síðasta vor var hann farinn að nota tröppu til að komast á bak þar til hann lét í minni pokann og auglýsti hrossin sín gefins á fésbókarsíðu félagsins. „Ég er að hætta í hestamennsku vegna veikinda“ Hann hafði aldrei mörg orð um þann illvíga sjúkdóm sem lagði hann svo að velli, svo óvænt og svo hratt.
Ómar var duglegur að ríða út, gjarnan með tvo, þrjá til reiðar og fór hann yfirleitt hratt yfir. Hrossin hans Ómars voru ösku viljug og þrekmikil með afbrigðum. Þessi fremur hraði reiðstíll Ómars kom til af því að endur fyrir löngu réði hann ekki við hrossin sín sem óðu áfram í hálfgerðri roku. Það vandamál leysti Ómar auðvitað með því að ríða bara hraðar og lengra. Honum var eiginlega sama um góðganginn, hann naut þess bara að draga andann á hestbaki, í náttúrunni, ýmist í félagi með öðrum eða bara einn með hrossunum sínum. Hrossastússið var líka handleiðslan hans Ómars en sem geðlæknir bar hann margar sorgir sjúklinga sinna í fanginu og þar hjálpuðu hrossin hans til.
Ómar Ívarsson var gullmerkishafi Sörla en gullmerki félagsins fékk hann eftir giftulega lífsbjörg félaga okkar sem fór í hjartastopp úti í óbyggðum í einni af sumarferðum Sörla. Þá kom sér vel hversu hraustur Ómar var, en hann ásamt öðrum félaga okkar beittu hjartahnoði í hálftíma þar til hjálp barst. Ómar bjargaði mörgum mannslífum á sinni starfsævi og mörgum var hann styrkur og skjól.
Ómars eigum við eftir að sakna og mun hugur okkar örugglega hverfa til hans þegar við Sörlafélagar komum saman eins og við gjarnan gerum. Þá vitum við að Ómar fer hratt um héruð hinu megin landamæranna, með tvo eða þrjá til reiðar og vakir yfir fólkinu sínu eins og hann gerði alltaf á meðan hann lifði.
Ættingjum Ómars vottum við sörlafélagar okkar dýpstu samúð.
Far í friði kæri vinur og hafðu þökk fyrir allt.