Reiðmennskuæfingar og námskeið - Vorönn 2023

Mikið framundan 

Reiðmennskuæfingar

Nú er haustönnin hjá okkur að klárast, nemendur komnir í jólafrí og félagssvæðið okkar sannarlega komið í vetrarbúninginn.

Önnin hefur gengið ljómandi vel, og knapar tekið miklum framförum í sinni reiðmennsku á tímabilinu.

Við byrjum námskeiðahaldið aftur þann 9. janúar að fullum krafti þegar Reiðmennskuæfingar fara aftur af stað á nýrri önn.

Æfingarnar verða áfram með svipuðu sniði og á haustönninni, Ástríður Magnúsdóttir og Hinrik Þór Sigurðsson munu sjá um kennslu í yngri flokkunum. Áhersla er lögð á að iðkendur kynnist góðum gildum við þjálfun og uppbyggingu hestsins á fjölbreyttann hátt. Iðkendur öðlist færni við reiðmennsku, jafnvægi og geti tileinkað sér helstu æfingar sem nýtast við þjálfun hestsins.

Hver nemandi er í einum verklegum tíma á viku, og svo eru bóklegir tímar og opnar æfingar með jöfnu millibili yfir tímabilið.

Skráning hefst í Sportabler frá 1. janúar.

Verð óbreytt frá fyrra ári 70.000 kr.

 

Keppnisakademía Sörla

Námskeið ætlað knöpum í barna- unglinga- og ungmennaflokki sem stefna á keppni í vor þar sem farið verður í undirbúning fyrir keppni, æfingar fyrir þær greinar sem stefnt er á  og markvisst unnið að þeim markmiðum sem sett eru.

Iðkendur fá innsýn í keppnisþáttöku og undirbúning, hjálp við markmiðasetningu og þjálfun og uppbyggingu keppnishestsins í aðdraganda keppnistímabils.

Námskeiðið er byggt upp á 2 helgarnámskeiðum í upphafi og þar á eftir, um miðjan apríl taka við vikulegir tímar ýmist í reiðhöllinni eða úti á velli fram til mánaðarmóta maí/júní.

Námskeiðið nær því yfir íþrótta- og gæðingamót Sörla.

Athugið að keppnisakademían er alveg frístandandi námskeið hugsað til viðbótar við önnur námskeið félagsins,  og ekki tengd Reiðmennskuæfingunum en iðkendum er að sjálfssögðu frjálst að skrá sig og vera með á báðum námskeiðum.

Akademían er undir stjórn yfirþjálfara Hinriks Sigurðssonar og fleiri kennarar munu koma að kennslu á tímabilinu.

Námskeiðið er alls 14 reiðtímar og það er takmarkað framboð af plássum á námskeiðið.

Skráning í keppnisakademíu Sörla opnar í byrjun febrúar.

Verð 56.000 kr.


Pollanámskeið

Verður í boði eftir áramótin undir stjórn Ástu Köru Sveinsdóttur búið er að opna fyrir skráninguningu á það í Sportabler.

Knapamerki 1

Kennsla hefst í maí eins og síðastliðin ár.


Námskeið og sýnikennslur á vegum Fræðslunefndar

Auk þessara námskeiða verða ýmis námskeið í boði á vegum fræðslunefndar Sörla, bæði helgarnámskeið og svo hefðbundin námskeið í nokkrar vikur í senn og þessi námskeið eru auglýst jafnóðum. Búið er að opna fyrir fyrsta helgarnámskeið næstu annar með Rósu Birnu Þorvaldsdóttur í Sportabler.

Það er því heilmikið framundan hjá okkur eftir hátíðirnar.

Yfirþjálfari og reiðkennarar þakka fyrir stórskemmtilega haustönn og óska félagsmönnum í Sörla gleðilegra jóla með von um frábær útreiðajól fyrir þá sem ekki fara í sólina yfir hátíðirnar.