Þá er stórglæsilegu Reykjarvíkurmeistaramóti lokið. Leið margra Sörlafélaga lá í Viðidalinn í Reykjavík í síðastliðinni viku til að taka þátt í einu stærsta hestamóti sem haldið hefur verið en met skráning var á mótið. Veðrið lék við keppendur og gesti allt mótið. Það var alveg ljóst að Sörlafélagar ætluðu að láta til sín taka enda margar greinar í boði.
Í Barnaflokki áttum við tvo fulltrúa en það voru systurnar Magdalena Ísold og Hjördís Anotnía Andradætur. Hún Magdalena Ísold keppti í Tölti T4 og lenti rétt fyrir utan úrslit eða í 7. sæti með 5.17 í einkunn á hryssunni Medalíu frá Hafnarfirði. Rétt á eftir henni endaði systir hennar hún Hjördís Antonía á hryssunni Gjöf frá Brenniborg með einkunina 5.03, ekki var keppt í B-úrslitum í þessari grein. Hjördís keppti líka í Fjórgangi V2 á Gjöf og varð í 6. sæti eftir forkeppni, í úrslitum hækkaði hún sig um eitt sæti og endaði í 5. sæti með 5.0 í einkunn. Flottur árangur hjá þeim systrum.
Í Unglingaflokki voru nokkrir Sörlakrakkar skráðir til leiks. Hún Elísabet Benediktsdóttir keppti í Tölti T4 á hestinum Heljari frá Fákshólum, þau enduðu í 7. sæti með einkunina 6.27. Ekki var keppt í B-úrslitum í þeirri grein en tvær aðrar Sörlastelpur hefðu einnig keppt í B-úrslitum í þessari grein ef þau hefðu verið haldin en það
voru þær Erla Rán Róbertsdóttir á Glettingi frá Skipaskaga með einkunina 6,27 en hún og Elísabet voru jafnar í einkunn. Einnig hefði Bjarndís Rut Ragnarsdóttir á Tenór frá Hemlu með einkunina 6.17 komist inn í B-úrslit.
Erla Rán átti gott mót en hún mætti með þrjá hesta og tók þátt í fjórum greinum. Hún fór í úrslit í þremur af fjórum greinum en eins og fyrr segir endaði hún rétt fyrir utan úrslit í fjórðu greininni. Á sunnudagsmorgni fóru fram A- úrslit í Fjórgangi V2 en Erla flaug þar inn og endaði í 5. sæti með einkunina 6.43 á hestinum Fjalari frá Litla- Garði. Erla kom sterk til leiks í Fimmgangi F2 og endaði þar í 2. sæti eftir forkeppni með einkunina 6.47 en í úrslitum lendir hún í vandræðum á skeiði og endar í 6. sæti með einkunina 4.69. Erla var samt ekki búin þennan daginn þar sem hún átti ein úrslit eftir í Tölti T3 með hann Fjalar en þau komu sjöttu inn í þau úrslit. Þar áttu þau feikna góða sýningu og enduðu þau í 3. sæti með einkunina 6.78. Frábær árangur hjá Erlu Rán.
Freyja Lind Saliba keppti einnig í Unglingaflokki á hestinum Ofsa frá Dufþaksholti. Þau kepptu í tveimur greinum og komust í A-úrslit í Fjórgangi V5 þar sem þau enduðu í 3. sæti með einkunina 5.33 og Tölti T7 enduðu þau í 6. sæti í úrslitum með einkunina 4.83
Sörlastelpan hún Árný Sara Hinriksdóttir og hesturinn hennar hann Moli frá Aðalbóli kepptu bæði í Tölti T3 og Fjórgangi V2 í Unglingaflokki. Í Fjórgangi voru þau í 6. sæti eftir forkeppni og því efst inní B-úrslit. Í B-úrslitum gerði Árný Sara sér lítið fyrir og hampaði sigri með einkunina 6.63. í A-úrslitum mættu þau í banastuði og hækkuðu sig um 3. sæti, ekkert smá flott það! Árný og Moli enduðu því í 3. sæti með einkunina 6.67 í feikna sterkum úrslitum í Fjórgangi V2 í Unglingaflokki.
Í ár eigum við marga flotta knapa í Ungmennaflokki. Sigurður Dagur Eyjólfsson keppti á hesti sínum Þór frá Meðalfelli í Fimmgangi F1 og endaði rétt fyrir utan B-úrslit í feiknasterkum flokki með einkunina 6.10.
Fanndís Helgadóttir var einnig skráð til leiks í Fimmgang F1 með hestinn Sprota frá Vesturkoti og hampaði þar verðskulduðu 2. sæti með hvorki meira né minna enn 6.98 í einkunn og þar af þrjár 7.5 og tvær 7ur fyrir skeið. Fanndís keppti einnig í fleiri greinum en í Slaktaumatölti T2 mætti hún með hestinn sinn Ötul frá Narfastöðum. Þau voru í 4. sæti eftir forkeppni með einkunina 7.17 og héldu því sæti í úrslitum en hækka einkunina og enda í 7.21.
Kolbrún Sif Sindradóttir mætti með 3 hesta á mótið og keppti þar í Tölti T2 á Byl frá Kirkjubæ þar sem hún endaði með 6.67 í einkunn og 10. sæti en ekki var keppt til B-úrslita í þeirri grein. Einnig mætti Kolbrún með hestinn sinn hann Hallstein frá Hólum í Tölt T1 og endaði þar í 7. sæti eftir forkeppni með 7.17 í einkunn. Kolbrún átti stórgott mót í 100m flugskeiði á hryssunni Gná frá Borgarnesi og endaði þar í 2. sæti á tímanum 7.77.
Í 100m flugskeiði ungmenna var einnig skráð til leiks hún Sara Dís Snorradóttir en hún átti heldur betur góðu móti að fagna þar sem hún sigrar þrjár greinar af þeim sex sem hún var skráð í. Sara mætti einbeitt í 100 metra skeið og þurfti að gera betur en félagi sinn hún Kolbrún. Það tókst og gerði hún það á hesti sínum honum Djarfi frá Litla- Hofi. Þau fóru á ógnarhraða og sigruðu greinina á tímanum 7.70 sek. En Djarfur og Sara voru í banastuði á mótinu, því þau voru einnig skráð í 250m flugskeið þar sem þau gerðu sér lítið fyrir og sigrðu þá grein á tímanum 23.30 sek, ótrúlega flottur árangur þar.
Sara mætti einnig í aðrar greinar en hún var skráð í Tölt T1, Fjórgang V2 og Fimmgang F1. Í Fjórgangi V2 mætti hún með hestinn Gamm frá Efri- Brúnavöllum 1, þau stóðu efst eftir forkeppni með einkunina 6.30. í A-úrslitum náðu þau að halda sínu sæti og hrepptu því fyrsta sætið með sömu einkunn. Í Fimmgang F1 mætti hún með glæsigæðinginn hann Kvist frá Reykjavöllum og voru þau í 7. sæti eftir forkeppni með einkunina 6.33. Í B-úrslitum voru þau í svaka stuði og sigruðu þau með glæsibrag með einkunina 6.71. Sara var samt ekki hætt, í A-úrslitum gerðu þau sér lítið fyrir og hækkuðu sig um tvö sæti til viðbótar og enduðu í 4. sæti með einkunina 6.76. Einstaklega gott mót hjá Söru Dís!
Í 2. flokki voru einnig fulltrúar frá félaginu en hún Linda Andersen og Gaspadín frá Gottorp kepptu í Tölti T7 og enduðu í 5. sæti í A-úrslitum með einkunina 5.25. Guðni Kjartansson tók þátt í Tölti T3 á hesti sínum Bubba frá Efri-Gegnishólum og varð sjöundi eftir forkeppni með 5.40 í einkunn en ekki var keppt í B-úrslitum í þeirri grein.
Í Fimmgang F2 í 1. flokki mætti Aníta Rós Róbertsdóttir og Brekka frá Litlu- Brekku ásamt Sörlakappanum honum Darra Gunnarsyni og Ísingu frá Harðbakka. Þau komust bæði í B-úrslit og gerðu feikna vel. Aníta og Brekka lentu í 10. sæti með 5.79 í einkunn og eina 7u fyrir skeið og Darri og Ísing í 8. sæti með 6.02 í einkunn og þar af eina 7,5 og tvær 7ur fyrir skeið.
Darri og Ísing voru í góðum gír á mótinu og tóku einnig þátt í Gæðingaskeiði PP1 1. flokki og sigruðu þá grein með einkunina 7.04 enda hryssan falleg á skeiði og þau áttu einstaklega fallegar niðurtökur og niðurhægingar. Darri keppti einnig í Fjórgangi V2 á honum Draumi frá Breiðstöðum og enduðu þeir þar í 6. sæti í úrslitum með 6.5 í einkunn. Darri og Draumur komust einnig í B-úrslit í Tölti T3 í virkilega harðri keppni. Þeir enduðu þar í 10. sæti með einkunina 6.06. Darri komst í úrslit í öllum þeim greinum sem hann keppti í, stór glæsilegur árangur hjá honum. Sörli átti einnig annan félagsmann í Tölti T3 1. flokki, Glódís Helgadóttir og Garpur frá Skúfslæk áttu stórsýningu en eftir forkeppni voru þau í 2. sæti með einkunina 6.67. Í úrslitum enduðu þau í 4. sæti með einkunina 6.61.
Í fimmgangi F2 1. flokki mætti stuðpinninn hún Inga Kristín Sigurgeirsdóttir á hryssunni Kollu frá Sólheimatungu. Þær gerðu vel og voru í 4. sæti eftir forkeppni með einkunina 5.93, í úrslitum lentu þær hinsvegar í smá brasi með skeiðið og enduðu í 5. sæti með 5.0.
Í Meistaraflokki var hart barist enda mikið af flottum knöpum og hestum. Skeiðsnillingurinn hann Ingibergur Árnason keppti í 150m skeiði á hestinum Flótta frá Meiri Tungu 1 og enduðu þeir í 6. sæti á tímanum 14.78.
Skeiðdrottningin hún Ylfa Guðrún Svafarsdóttir lét sig ekki vanta í skeiðið enda finnst henni gaman að fara hratt. Hún mætti með vin sinn hann Straum frá Hríshóli 1 í 100m flugskeið og endaði í 5. sæti á tímanum 7.73 sek. Ylfa keppti í fleiri greinum en hún og Þór frá Hekluflötum kepptu í Tölti T2 og enduðu í 9. sæti í feiknasterkum B-úrslitum með einkunina 7.42. Það er greinilegt að þau eiga mikið inni í þessari grein. Ylfa komst einnig í úrslit í Tölti T3 á hestinum Ótta frá Sælukoti og endaði þar í 5. sæti í A-úrslitum með einkunina 6.67.
Í Fjórgangi V2 Meistaraflokki mætti Snorri Dal fílelfdur með glæsihestinn Sæljóma frá Stafholti. Þeir voru 7undu eftir forkeppni með 6.23 í einkunn, í A-úrslitum gerði hann gott betur og hækkaði sig upp í 2. sæti með einkunina 7.0. Þeir hlutu meðal annars 7.5 bæði fyrir hægt tölt og greitt tölt. Frábær sýning!
Í Fimmgangi F1 Meistara voru yfir 50 skráningar og því um gífurlega sterkan flokk að ræða. Einn Sörlafélagi komst þar í B-úrslit, hún Brynja Kristinsdóttir kom þar sterk inn á undurfögru hryssuni Regínu frá Skeiðháholti. Þær voru í 6. sæti eftir forkeppni með einkunina 7.03. Í úrslitum enduðu þær í 7. sæti með einkunina 7.26. Brynja var samt hvergi hætt en hún var skráð með hryssuna Sunnu frá Haukagili Hvítársíðu í Tölt T1 Meistara. Eftir forkeppni stóðu þær í 4. sæti í hörku flokki með einkunina 8.13. Í úrslitum enduðu þær í 5. sæti með 8.06 í einkunn. Það verður virkilega spennandi að fylgjast með þeim áfram.
Það er óhætt að segja að Hestamannafélagið Sörli á fullt af flottum fulltrúum á keppnisbrautinni. Í þessum pistli eru einungis þeir sem riðu til úrslita eða voru nálægt þeim á þessu gífurlega sterka og stóra íþróttamóti. Allir keppendur mega vera stoltir af sér og halda ótrauðir áfram í að bæta sig og sína hesta. Gott er að muna að keppa við sjálfan sig og sinn hest og hafa það að markmiði að gera hann betri en hann var í gær 😊
Til hamingju öll.
Ég hlakka til að fylgjast meira með ykkur í sumar.
Ásta Kara
yfirþjálfari