Sundriðið sex daga vikunnar.

Formaður skrifar 

Atli Már Ingólfsson
Atli Már Ingólfsson t.h.

Munið þið eftir þarna veirunni sem ég skrifaði um í mars í fyrra, veiran sem sennilega kom úr snák, sem leðurblaka át og síðan maður í Kína.. og framhaldið er kunn saga. Já einmitt, hún er hér enn. Föst hér eins og aukakíló sem komu um síðustu jól, en neita að hverfa.

Það er áskorun að reka íþróttafélag á svona tímum, ekki skemmtilegt verkefni, en þegar á allt er litið höfum við í Sörla ekki yfir miklu að kvarta. Auðvitað er erfitt að sjá metnaðarfullt skipulag og starf frestast og ná ekki að verða að veruleika. En svona eru þessir tímar og við getum ekki kvartað hestamann.

Um áramót er hefð að líta til baka, gera upp og horfa spakmannslegur fram á veg, spá fyrir um árið. Ég var að spá í það að rifja upp ýmislegt sem gerðist gott á síðasta ári, þrátt fyrir þið vitið þarna doltið, en það var annað sem vildi einhvern veginn koma sér á framfæri.

Muniði af hverju þið byrjuðið í hestamennsku. Munið þið hvað það var sem heillaði ykkur.

Ég fékk hest í laun eftir sumarvist í sveit 13 ára. Blíða frá Hömrum, rauðskjótt fyrir allan peninginn, höttótt, skottótt.

Um veturinn tók ég hana á hús í Grundarfirði og fékk pláss hjá Gisla löggu. Þurfti bara að hjálpa til við hesthúsið, gefa og moka í staðin. Besti vinur minn fékk líka aðgang að hesti þennan vetur. Allir reiðtúrar, 6 daga vikunnar, hófust á því að riðið var niður í fjöru, til að finna hentugan stað til að hleypa. Síðan var riðið hratt út Kirkjufellssand til að stoppa smá, helst ná að sulla í sjónum á leiðinni, ef þannig fjara var. Á heimleiðinni var alltaf kapp upp brekkuna að hesthúsinu, stökk á fullu. Svo voru víst einhverjar gangtegundir þarna á milli og fet var eitthvað sem við heyrðum að væri til, en var ekki notað mikið. Pétur í Koti (Jéns Pétur) taldi það svo algjört þjóðþrifaráð að sundríða reglulega í sjónum, svona til að þrífa gripina og vinna á lúsinni. Ja, hann sagði það.

Það er svo mikilvægt að festast ekki í flækjum, stöðugri vinnu með hestinn sinnn, eintómum hringjum og beygjum og sveigjum. Eins og það er nú mikilvægt líka. Svona fyrir okkur sem ekki höfum þetta að atvinnu, þá er þetta ekki vinnan okkar. Þetta eru gleðistundir. Ég lofa,,,, það var enginn ykkar sem byrjaði í hestunum til að ríða í hringi. Það er frábært að bæta sig og hestinn sinn, fara á námskeið, sækja reiðtíma, ríða inni í reiðhöll, allt þetta þið vitið sem þarf að gera líka. En bara munum líka hvað það er sem þetta gengur allt út á. Að hafa gaman, njóta íslenska hestsins í náttúrunni sem skapaði hann. Hafið þið prófað að taka svona brokk og stökktúra, þar sem þið farið stóra hraunhringinn og bara látið vaða smá. Laus taumur, létt áseta og við leyfum hestinum bara aðeins að vera hestur og þið eruð indjánar. Höfuðburður bara eins og hesturinn vill, stökk og sú gangtegund sem hesturinn vill fara á. Ég geri þetta stundum. Það bregst ekki að við komuna í Hlíðarþúfur er hesturinn freyðandi, já sveittur og glaður. Hann fékk að leika sér smá, enn meira gaman ef annar er í taumi. Túrinn daginn eftir, þar sem riðið er hægt eftir kúnstarinnar reglum, er alltaf frábær. Hvernig er það annars eru allir hættir að hleypa upp brekkur eftir að Pálmi Adólfsson fór í Skagafjörðinn.

Svo er hestur sem hann er hafður. Þrátt fyrir allt þá eru það yfirleitt við reiðmennirnir, eigendurnir sem erum oftast vandamálið. Það er okkar að laða fram það sem hesturinn getur, en yfirleitt eru það okkar takmörk sem hindra það að hesturinn nái að sýna okkur hvað hann getur,,, ja… hvað er það annað, þegar atvinnumaður lagar það á mánuði sem áður hafði aflaga farið. Í vetur stóð til að bjóða upp á reiðmennskuæfingar fyrir fullorðna jafnt sem börn hjá Sörla og áhuginn var mikill. Þessi nýjung, það að fullorðnir fái reglulega kennslu með hestinn sinn allan veturinn er frábær viðbót við námskeiðahaldið okkar hér í Sörla. Maður á ekki að gefast upp á hestinum sínum,,, fyrr en við vitum fyrir víst að við sjálf séum ekki vandamálið.

Mig langar aðeins að nefna frábæra nýjung sem kom til sögunnar á síðasta ári sem var beint steymi frá mótum og kynbótasýningum. Það verður nú bara að segjast, og að sjálfsögðu er ég ekki hlutlaus, en þær myndir sem fóru á veraldarvefinn frá mótum og kynbótasýningum frá félagssvæði Sörla voru bara glæsilegar. Svæðið bara auglýsti sig frábærlega, hraunið, trén allt þetta umhverfi. Einstakt. Þetta bara var áberandi heima í stofu. Og svo er líka frábært að sjá að kynbótasýningar í Sörla hafa náð fyrri frægð og ásókn í að sýna bestu hrossin hér í Hafnarfirði. Nægir að benda á umfjöllun í Eiðfaxa um fjölda hárra dóma sem náðst hafa í Sörla, þó þar sé aldrei haldið Landsmót.

Stjórnin og skemmtinefnd hefur blásið til uppskeruhátíðar sem haldin verður þann 16. janúar nk. Þar munum við verðlauna okkar fólk og fá frábæra skemmtikrafta til að skemmta okkur í beinu streymi.

Að lokum langar mig að þakka öllum Sörlafélögum fyrir þolinmæði, þrautsegju og frábæran félagsanda á þessum tímum sem við förum vonandi senn að kveðja.

Gleymum ekki að leika okkur með hestunum okkar, þó við sundríðum ekki sex daga vikunnar, þá er gott að muna hvernig þetta byrjaði allt saman, í leik og leit að gleði.


Gleðilegt nýtt ár.
Atli Már