Hér kemur kynning á þeim stóðhestum sem verða á folatollauppboðinu á folaldasýningunni.
Ottesen frá Ljósafossi
Ottesen er stórglæsilegur alhliða gæðingur undan Auði frá Lundum og Sunnu-Rós frá Úlfljótsvatni. Ottesen hlaust hæstu aðaleinkunn stóðhesta 7 vetra og eldri í fyrra, 8,71 í aðaleinkunn. Fyrir sköpulag 8,59; þar af 9 fyrir bak og lend, samræmi og hófa. Fyrir hæfileika hvorki meira né minna en 8,77 - 9,5 fyrir samstarfsvilja, 9 fyrir tölt, skeið, greitt stökk og fegurð í reið.
Ræktandi er Björn Þór Björnsson og eigendur eru Björn og Svanheiður Lóa Rafnsdóttir.
Blup aðaleinkunn: 118
Frosti frá Hjarðartúni
Frosti er frábær alhliða gæðingur sem bæði hefur glansað á kynbótabrautinni og á keppnisbrautinni. Hann er undan Ský frá Skálakoti og Hrund frá Ragnheiðarstöðum og hefur hlotið í aðaleinkunn 8,70, 8,56 fyrir sköpulag og 8,77 fyrir hæfileika. Einkunnina 9 hlaut hann fyrir samræmi, hófa og prúðleika, tölt, skeið, greitt stökk, hægt stökk, samstarfsvilja og fegurð í reið. Einnig hefur hann náð virkilega góðum árangri í slaktaumatölti með knapa sínum, Arnhildi Helgadóttur, en þau voru t.d. í 2.sæti í T2 í meistaradeild í vetur.
Ræktandi Frosta er Óskar Eyjólfsson. Eigendur eru Einhyrningur ehf, Kristín Heimisdóttir og Bjarni Elvar Pétursson.
Blup aðaleinkunn: 132
Skugga-Sveinn frá Austurhlíð
Skugga-Sveinn er fasmikill alhliða gæðingur undan Hrannari frá Flugumýri og Ör frá Langsstöðum. Hann var í hópi efstu stóðhesta í 6 vetra flokki í fyrra þar sem hann fékk 8,58 í aðaleinkunn, 8,44 sköpulag og 8,65 fyrir hæfileika. Hann skartar einkunninni 9,5 fyrir bak og lend og 9 fyrir tölt, samstarfsvilja og fegurð í reið. Frábær háættaður alhliða hestur með toppgeðslag hér á ferð. Ræktendur Skugga-Sveins eru Kristín Sigríður Magnúsdóttir og Trausti Hjálmarsson. Eigendur eru Kristín Sigríður Magnúsdóttir, Trausti Hjálmarsson og Ólafur Gunnarsson.
Blup aðaleinkunn: 120
Hraunhamar frá Ragnheiðarstöðum
Hraunhamar er glæsilegur klárhestur undan Hátíð frá Úlfsstöðum og Loka frá Selfossi. Hann er með 8,45 fyrir sköpulag og 8,35 fyrir hæfileika, aðaleinkunn 8,38. Aðaleinkunn án skeiðs 8,78! Hann hefur hlotið 9,5 fyrir tölt, 9 fyrir brokk, greitt stökk, hægt stökk, samstarfsvilja, fegurð í reið, hægt tölt, háls/herðar/bóga og samræmi. 9ur í bunkum! Einnig hefur hann sannað sig á keppnisvellinum en hann mætti í sína fyrstu fjórgangskeppni í vetur (Meistaradeild) með knapa sínum Glódísi Rún Sigurðardóttir og fór beint í úrslit.
Ræktandi Hraunhamars er Helgi Jón Harðarson og eigandi er HJH eignarhaldsfélag.
Blup aðaleinkunn: 124
Kolfaxi frá Margrétarhofi
Kolfaxi er stórefnilegur 4 vetra stóðhestur undan Kveiki frá Stangarlæk 1 og Hörpu frá Gunnarsstöðum I. Hann er frábærlega ættaður, föðurinn þarf ekki að kynna, móðirin - Harpa - á 3 sýnd afkvæmi sem öll hafa hlotið 1.verðlaun og er hún sammæðra Hring frá Gunnarsstöðum. Genabomba hér á ferð.
Ræktandi og eigandi Kolfaxa er Margrétarhof ehf.
Blup aðaleinkunn: 129