Veturinn fer vel af stað

Nóg um að vera 

Veturinn fer vel af stað. Reiðmennskuæfingar og knapamerki eru í fullum gangi. Í lok nóvember hefst námskeið fyrir káta krakka á aldrinum 5-10 ára og eru enn nokkur laus pláss á það, skráning á Sportabler og henni lýkur 23. nóvember.

Afrekshópur Sörla hefur hafið sína dagskrá en í hópnum eru 12 knapar. Yfirþjálfari velur inní hópinn eftir árangri síðastliðin tvö ár. Afreksstarfið byrjaði með hópefli þann 20. október þar sem hópurinn skellti sér í Lazertag og skemmti sér vel. Liðna helgi fór fram annar viðburður hópsins. Að þessu sinni Knapaþjálfun hjá Bergrúnu Ingólfsdóttur. Með Knapaþjálfun leggur hún áherslu á líkamsbeitingu knapans með og án hests. Aðstoðar viðkomandi knapa við að finna sína styrkleika og bæta veikleika sem kunna að hafa áhrif á reiðmennsku viðkomandi. Hún horfir mikið til líkamsstöðu, samhæfingar og hvernig hægt er að bæta sig á hestbaki einfaldlega með því að vera meira meðvitaður um hvað má betur fara. Bergrún er reiðkennari frá Háskólanum á Hólum ásamt því að vera Einkaþjálfari frá ÍAK einnig kenndi hún Knapaþjálfun við Háskólann á Hólum í fjögur ár. Knaparnir fengu verkfæri til að bæta sig sem reiðmenn til að geta haldið áfram að bæta hesta sína. Dagskráin hjá hópnum heldur áfram í desember þegar Ásmundur Ernir Snorrason kemur í fjörðinn og heldur einkatíma fyrir hópinn.

Bergrún mætir svo aftur næstu helgi og heldur Knapaþjálfun fyrir félagsmenn Sörla. Fylltist strax á námskeiðið og er biðlisti. En örvæntið ekki, Bergrún mun halda annað námskeið eftir áramót. Nánar tiltekið 10.-12. janúar en skráning á það verður auglýst þegar nær dregur.

Skráning er í gangi á helgarnámskeið með Atla Guðmundsyni inn á Sportabler, skráningur lýkur 27. nóvember.

Boðið verður svo upp á fleiri námskeið á nýju ári.

Kveðja,
Ásta Kara
yfirþjálfari Sörla