2021-01 Stjórnarfundur Sörla

 

Stjórn skiptir með sér verkum

Stjórnarmenn sammælast um að skipta með sér verkum þannig:

  • Sveinn Heiðar Jóhannesson, varaformaður

  • Kristín Þorgeirsdóttir, gjaldkeri

  • María Júlía Rúnarsdóttir, ritari

  • Kristján Jónsson, Guðbjörg Ragnarsdóttir og Einar Ásgeirsson verða meðstjórnendur

  • Atli Már Ingólfsson er formaður í samræmi við niðurstöðu aðalfundar

Verkefni stjórnarmanna og umræða

Formaður hvetur stjórnarmenn til að koma með hugmyndir að nýjungum fyrir félagsmenn. Þá er rætt um þátttöku stjórnarmanna í hinum ýmsu verkefnum sem falla til við rekstur félagsins.

Erindi frá félagmönnunum; Önnu Ólafsdóttur og Snorra Dal

Tillaga að breyttu deiliskipulagi og viðbygging við hesthús.

Stjórn barst erindi þess efnis að Anna og Snorri óskuðu eftir stuðningi stjórnar vegna áforma þeirra um að byggja við hesthús í þeirra eigu að Sörlaskeiði 13. Í erindinu segir nánar að fjölskyldan hafi atvinnu af reiðmennsku og kennslu. Í því ljósi þurfi þau góða aðstöðu innandyra og fleiri hesthúspláss fyrir reksturinn. Til frekari þróunar á starfsemi fjölskyldunnar væri nauðsynlegt að kaupa viðbótarland undir viðbyggingu. Hugmyndin væri svo að breyta núverandi reiðskemmu í hesthús með tilkomu viðbyggingar. Í erindinu er tekið fram að þar sem hugmyndin tæki til þess að land yrði keypt sem samkvæmt skipulagi væri innan félagssvæðis Sörla þyrfti afstaða stjórnar til framkvæmdanna að liggja fyrir í upphafi. Í erindinu er sérstaklega tekið fram að allur kostnaður, s.s. vegna breytinga á deiliskipulagi væri í höndum Önnu og Snorra og að staðið yrði að framkvæmdunum í fullu samráði við forráðamenn Sörla.

Umræður og kynning frá hönnuði

Sigríður Sigþórsdóttir, arkitekt frá Basalt, kom til fundar við stjórn og kynnti minnisblað sem hún vann að beiðni Önnu og Snorra um möguleika þeirra á að stækka hesthúsið að Sörlaskeiði 13, með það í huga að byggja reiðskemmu með 20x40m reiðgólfi við núverandi hesthús. Sigríður lagði fram skissur sem sýna hugmyndir að breytingum. Hugmyndin felur m.a. í sér að að lóðin að Sörlaskeiði 13 yrði stækkuð. Samkvæmt kynningu og minnisblaði Sigríðar tæki gólfhæð mið af núverandi húsi og væri því í mælikvarða við núverandi byggð. Jafnframt myndi stærð gerða, miðað við hesthúsastærð uppfylla gildandi viðmiðunarkröfur.

Fram kom í kynningu Sigríðar að hún teldi framkvæmdina eins og hugmyndirnar gera ráð fyrir, ekki hafa neikvæð áhrif á framtíðaruppbyggingu á athafnasvæði hestamannafélagsins Sörla. Þá kom fram í máli hennar að helstu áhrifin yrðu á fjölda bílastæða sem eru áformuð á svæðinu en um 36 bílastæði eru á umræddu svæði sem framkvæmdin tekur til, skv. núverandi skipulagi. Sigríður tók sérstaklega fram að samkvæmt skipulagi hafi fyrst og fremst verið að tryggja heimild fyrir bílastæðafjölda en ekki væri krafa um tiltekin fjölda bílastæða samkvæmt skipulagi á svæðinu. Eftir stæðu um 300 bílastæði skv. skipulagi, við reiðhöllina.

Að lokinni kynningu Sigríðar á framangreindu vék hún af fundi og stjórnin ræddi erindið og er eftirfarandi bókun gerð hvað það varðar.

Stjórn tekur jákvætt í erindi Snorra og Önnu eins og það er sett fram. Stjórn leggur þó áherslu á að við framkvæmdina verði haft samráð við stjórn og framkvæmdarstjóra og áskilur stjórn sér rétt til að gera athugasemdir og kröfu til breytinga ef stjórn telur ástæðu til, svo sem vegna endanlegrar hönnunar. Þá fer stjórn fram á að framkvæmdir fari fram á þeim tíma er minni iðkun félagsmanna er á svæðinu.

Kynning fyrir stjórn á tilboðum í lokahönnun reiðhallar

Lagður fram tilboðslisti

Formaður kynnir framkomin tilboð m.a. að lægsta tilboðið hafi verið frá Kanon arkitektum og verið að fjárhæð um 58 mkr og að hæsta tilboðið hafi komið frá Eflu og numið ríflega 99 mkr.

Stígar í upplandi Hafnarfjarðar – farið yfir fund með starfshópi frá Hafnarfjarðarbæ

Þrír fulltrúar frá hestamannafélaginu sátu fund með starfshópi bæjarins vegna málsins þar sem farið var yfir sjónarmið félagsins. Fulltrúar félagsins voru nokkuð jákvæð eftir fundinn og ánægð með samtalið.

Frá framkvæmdastjóra

Öryggiskerfi í reiðhöll

Framkvæmdarstjóri fór yfir að leitað væri tilboða í nýtt öryggiskerfi fyrir reiðhöllina sem vonandi verða kynnt á næsta stjórnarfundi.

Heimasíða

Framkvæmdarstjóri upplýsti um stöðu vinnu við að uppfæra/gera nýja heimasíðu fyrir félagið. Vinnan er í gangi en gengur hægar en áætlað var vegna annarra verkefna sem forgangsraðað hefur verið framar.

Staða happdrættissölu

Framkvæmdarstjóri segir sölu happadrættismiða fara ágætlega af stað og þegar séu seldir tæplega 400 miðar, sem er ríflega þriðjungur þeirra miða sem seldir voru í fyrra. Þar sem happadrættið er öflug tekjuöflun fyrir félagið er mikilvægt að salan haldi vel áfram. Eru félagsmenn hvattir til að styrkja félagið með kaupum á happadrættismiðum en fyrir liggur að glæsilegir vinningar eru í boði, bæði fyrir hestamenn og aðra.

Nýtt gólf í reiðhöll

Framkvæmdarstjóri fer stuttlega yfir framkvæmdina og að kostnaðurinn nemi í heildina um 2.100.00 kr. Almennt hafa heyrst jákvæðar umsagnir um nýja reiðahallargólfið.

Starfshópur fyrir Íslandsmót barna og unglinga

Framkvæmdarstjóri lýsir því að nokkrir félagsmenn hafi lýst yfir áhuga að taka þátt í starfshópinum. Þá fer formaður yfir það að verið sé að koma á samtali við Hafnarfjarðarbæ og markaðsstofu Hafnarfjarðar með það að markmiði að fá aðkomu þeirra að undirbúningi mótsins. Stjórn leggur áherslu á að undirbúningur hefjist tafaralust og að markmiðið sé að mótið verði hið glæsilegasta og aðbúnaður þátttakenda sem og áhorfenda framúrskarandi.

Önnur mál

a) Formaður fer yfir erindi sem stjórn barst frá fimm félagsmönnum þar sem lagt var til að viðkomandi félagsmenn fái stuðning stjórnar til að halda skemmtimót þar sem ágóði mótsins færi til styrktar Íslandsmóti barna og unglinga sem halda á í sumar.

Í erindi félagsmannanna segir nánar að hugmyndin sé að keppa í tölti, þ.e.

  • 3. fl. karla og 3. f. kvenna

  • 2. fl. karla og 2. fl. kvenna

  • fl. karla og kvenna

  • Lulli (einn aldurhópur)

  • Bjórflokkur karla og kvenna

Búningaþema yrði á mótinu. Mótagjald er áætlað kr. 2000 og áhorfendagjald kr. 1500. Ágóði af veitingasölu væri jafnframt til styrktar Íslandsmótinu.

Stjórn er samhljóða um að um frábæra hugmynd sé að ræða sem hún styðji heilshugar. Þó verði að setja þá fyrirvara á að unnt verði að halda mótið m.t.t. sóttvarnarráðstafana og dagskrár félagsins að öðru leyti.

b) Rætt var um að stjórnarmönnum væri ítrekað að berast erindi vegna slysahættu við Sörlaskeið 27. Nánar tiltekið hefur verið bent á að við húsið og út við götu væru munir sem tilheyra húseiganda, sem valdi slysahættu en fela jafnframt í sér mikla sjónmengun. Ákveðið að beina því til húseiganda að koma í veg fyrir slysahættu með fullnægjandi hætti og að gengið verði snyrtilega frá umhverfi hússins.

 

c) Þá var almennt rætt um miklvægi þess að félagsmenn allir leggi sig fram við að gera umhverfi sitt sem snyrtilegast. Bent var á að til standi að halda glæsilegt Íslandsmót í sumar og brýnt að félagsmenn hugi að umhverfi sínu svo að móttökur þátttakanda og áhorfenda verði eins og best verður á kosti.

Í því samhengi var m.a. fjallað um að fallegir hraunbollar væru allt í kringum félagssvæðið og því miður nýttu sumir félagsmenn þessa hraunbolla fyrir úrgang. Að mati stjórnarmanna er slík notkun með öllu óæskileg og hreinlega bönnuð og þess farið á leit við félagsmenn að úrgangur verði ekki losaður í hraunbollana eða út í náttúruna á félagssvæðinu.

Jafnframt var fjallað um gáma sem félagsmenn hafa sumir hverjir utan við hús sín fyrir tað. Í þeim tilvikum er mikilvægt að gámar séu þannig staðsettir að þeir standi ekki út við veg eða við vegkant og þrengi þannig að vegfarendum. Þá er að auki brýnt að húseigendur gæti að því að tað flæði ekki út úr gámunum, út á veg og yfir nánasta umhverfi líkt og dæmi er um. Slíkt er einfaldlega subbulegt og við viljum ekki hafa umhverfi okkar þannig.

Fundi slitið kl. 22:30